Endur­bætur á Þing­valla­vegi

  • TegundVegir
  • StaðaKynningargögn
  • Markmið
      Öruggar samgöngur

Fyrirhugaðar eru endurbætur á Þingvallavegi (36-04) á um 9 km löngum vegkafla á milli Þjónustumiðstöðvar Þingvalla og syðri vegamóta Þingvallavegar við Vallarveg (361). Framkvæmdirnar eru liður í nauðsynlegu viðhaldi vegarins og hafa það markmið að auka umferðaröryggi vegarins, en umferð á veginum hefur aukist verulega á undanförnum árum. Árið 2010 var umferð um 430 bílar á sólarhring en á árið 2016 var umferðin 1.500 bílar á sólarhring. Gert er ráð fyrir að eftir 25 ár verði umferðin allt að 4.000 bílar á sólarhring.

 

Framkvæmdin er innan svæðis sem er bundið ýmsum verndarákvæðum. Vegurinn liggur í Þjóðgarðinum á Þingvöllum, sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Þingvellir og Þingvallavatn eru á Náttúruminjaskrá (nr. 743). Framkvæmdasvæðið er innan vatnasviðs Þingvallavatns sem er verndað með lögum nr. 85/2005. Framkvæmdin er jafnframt innan svæðis sem nýtur hverfisverndar í Aðalskipulagi Bláskógabyggðar, Þingvallasveit 2008 – 2016. Þingvallavegur liggur á eldhrauni og fer í gegnum birkiskóg sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Á undirbúningsstigi framkvæmdarinnar hefur Vegagerðin skoðað þrjá kosti. Eftir nánari skoðun leggur Vegagerðin til kost A, sem felst í að breikka veginn úr 6,5 m í 8,0 m. Kostur B er að breikka veginn í 9,0 m í samræmi við umferð sem um hann fer og hönnunarreglur Vegagerðarinnar. Til skoðunar var að halda vegi í núverandi breidd, 6,5 m. Sá kostur uppfyllir hins vegar ekki markmið um aukið umferðaröryggi eða þær kröfur sem gerðar eru til vega með umferð sem eru 1.500 bílar á sólarhring og meiri.