Um Hvallátra í Látra­vík – skoða betur

  • TegundVegir
  • StaðaKynningargögn
  • Heimsmarkmið
      11. Sjálfbærar borgir og samfélög
  • Svæði
    • Vestfirðir

Vegagerðin kynnir fyrirhugaðar framkvæmdir á Örlygshafnarvegi (612) um Hvallátra í Látravík í Vesturbyggð. Til stendur að breyta núverandi Örlygshafnarvegi um Hvallátra á 1,75 km löngum kafla og færa veginn út fyrir frístundahúsabyggðina sem þar er vegna mikils ónæðis umferðar um svæðið. Fyrirhugað er að leggja nýjan veg ofan við frístundabyggðina á Hvallátrum, og beina með því umferðinni upp fyrir byggðina.

Áætluð efnisþörf í framkvæmdina er um 33.750 þús. m3. Efnið mun fást úr skeringum.

Framkvæmdin er á samgönguáætlun 2019-2033 þar sem gert er ráð fyrir 120 millj. kr. árið 2021. Stefnt er að útboði haustið 2020 og að framkvæmdir hefjast snemma vors 2021, eða um leið og snjóa leysir.

Markmið framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi vegfarenda og íbúa Hvallátra og tryggja greiðari samgöngur á svæðinu.

Framkvæmdin telst ekki matskyld skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum með síðari breytingum, en kanna þarf matsskyldu hennar skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, viðauka 1, lið 10.09 B:

Framkvæmdum verður hagað þannig að neikvæð áhrif þeirra á umhverfið verði sem minnst. Samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila og sveitarfélag við undirbúning framkvæmdarinnar. Vegagerðin telur að framkvæmdin hafi ekki í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfið vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar.