Efnistaka úr Selja­lands­heiðar­námu

  • TegundEfnistaka úr námu
  • StaðaKynningargögn
  • Markmið
      Umhverfislega sjálfbærar samgöngur

Vegagerðin kynnir hér með efnistöku úr Seljalandsheiðarnámu E-422 í Rangárþingi eystra þar sem fyrirhugað er að taka allt að 40.000 m3 af grjótvarnarefni og kjarna af um 4.000 m2 svæði til að nota í brimvarnir við Landeyjarhöfn. Seljalandsheiðarnáma var opnuð árið 2008 vegna framkvæmda við Landeyjahöfn. Efnistakan nú verður innan svæðis sem þegar hefur verið raskað.

Framkvæmdin hefur verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar í samræmi við 6. gr. laga nr.106/2000 m.s.b. um mat á umhverfisáhrifum. Náman í Seljalandsheiði er innan hverfisverndarsvæðis Hv-624, Fjallabakssvæðis. Fyrirhuguð efnistaka fellur því undir skilgreiningu flokks B í lið 2.02 í 1. viðauka: Efnistaka og/eða haugsetning á verndarsvæðum.

Á vetrarmánuðum er algengt að efni setjist á milli garðsenda og framan við þá við hafnarmynni Landeyjahafnar. Þegar höfnin lokast með þessum hætti er erfitt að opna hana aftur því erfitt er að dýpka með dýpkunarskipi nema við góðar aðstæður í hafnarmynninu. Til að leysa úr setvandamálum við hafnarmynnið að vetrarlagi er fyrirhugað að endurbæta hafnaraðstöðuna, með því að leggja steyptan veg út eftir báðum görðum að innan verðu og út á garðsendana þar sem verður steypt plan.

Við þessar breytingar verður kleyft að koma færanlegum krana út á garðsendana. Kraninn verður nýttur til dýpkunar með sanddælu frá landi en gæti einnig nýst með krabba ef dæla bilar eða aðstæður eru óhagstæðar til dælingar. Með þeim hætti er hægt að halda hafnarmynninu í æskilegu dýpi við mun óhagstæðari aðstæður en mögulegt er með dýpkunarskipi.

Vegna endurbótanna er nauðsynlegt að sækja efni í grjótvörn. Það verður sótt í námu E-422 á Seljalandsheiði. Við gerð Landeyjahafnar var skilinn eftir grjótlager á svæði vestan hafnarinnar. Nú hefur sá lager verið tæmdur og því nauðsynlegt að koma upp nýjum lager vegna viðhalds og endurbóta á höfninni.