Ný brú á Núpsvötn í Skaft­árhreppi

 • TegundBrýr
 • StaðaKynningargögn
 • Markmið
   Öruggar samgöngur
 • Heimsmarkmið
   11. Sjálfbærar borgir og samfélög
 • Svæði
  • Suðvesturland

Vegagerðin kynnir fyrirhugaðar framkvæmdir við nýja 150 m langa brú á Hringvegi (1) (vegkafli 1-a1) um Núpsvötn í Skaftárhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu. Í tengslum við byggingu nýrrar brúar verður Hringvegurinn endurbyggður í nýrri legu á um 2,0 km löngum kafla.

Vegagerðin áformar að bjóða út í einu útboði, nýja brú á Núpsvötn sem fjallað eru um hér og nýja brú á Hverfisfljót sem Skipulagsstofnun hefur þegar fjallað um. Vísað er til ítarlegrar fyrirspurnar um matsskyldu sem gerð var fyrir Hverfisfljót og afgreiðslu Skipulagsstofnunar, dags. 27. janúar 2021, þar sem kemur fram að framkvæmdir við
Hverfisfljót skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Einnig verður byggður nýr áningarstaður vestan Núpsvatna. Á þessum stað er fallegt útsýni í vesturátt að Lómagnúp og austurátt að Öræfajökli og því er nauðsynlegt að byggja nýjan, öruggan áningarstað. Hönnun áningarstaðarins tekur mið af nýjum áningarstað við Hverfisfljót (sjá yfirlitsmynd í fylgiskjölum).

Tilgangur framkvæmdarinnar er að fækka einbreiðum brúm á Hringvegi. Markmiðið er að auka umferðaröryggi og stuðla að greiðari samgöngum. Með nýrri tvíbreiðri brú á Núpsvötn og áningarstað, mun umferðaröryggi aukast til mikilla muna og umferð um svæðið verða greiðari en hún er nú.