Fjarðar­heiðar­göng

  • TegundVegir
  • StaðaFramkvæmd ekki hafin
  • Markmið
      Greiðar samgöngurÖruggar samgöngurJákvæð byggðaþróun
  • Flokkar
      JarðgögnVegstytting
  • Svæði
    • Austurland

Vegagerðin vinnur nú að hönnun Fjarðarheiðarganga, bæði jarðganga og aðkomuvega. Könnun á jarðgangakostum undir Fjarðarheiði, milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs.

Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við Fjarðarheiðargöng á árinu 2022. Verkefnishópur um Seyðisfjarðargöng skilaði skýrslu um valkosti og áhrif á Austurlandi í júní 2019. Þar voru bornir saman mismunandi kostir í þá veru að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar og styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi öllu. Niðurstaða hópsins var að með hliðsjón af ávinningi samfélagsins á Seyðisfirði, sem og Austurlandi í heild, væri vænlegast að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar með jarðgöngum undir Fjarðarheiði sem fyrsta áfanga. Seinni áfanginn, sem um leið býr til hringtengingu innan svæðisins, væru göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar.

Vegagerðin vinnur nú að hönnun Fjarðarheiðarganga, bæði jarðganga og aðkomuvega. Sú vinna er á áætlun og miðað er við að henni verði lokið vorið 2022. Samhliða er unnið að mati á umhverfisáhrifum og er stefnan að henni ljúki haustið 2022. Stefnt er að því að verkið verði klárt til útboðs 2023. Unnið er að fjármögnun framkvæmdarinnar. Sjá nánar í frétt Vegagerðarinnar frá júlí 2021.

Leitað verði leiða til að fjármagna þetta verkefni í samstarfi við einkaaðila. Fjárveiting miðast við helming áætlaðs kostnaðar.

 

Tillaga að legu Fjarðarheiðarganga

Tillaga að legu Fjarðarheiðargangna

Tillaga að legu Fjarðarheiðargangna


Verkframvinda

Verkframvinda: Aðallega hafa verið skoðaðar tvær jarðgangaleiðir sem opnast á mismunandi stöðum Héraðsmegin, það er við Miðhúsaá og Dalhús. Unnið var að hönnun vegar að mögulegum munnastað í Seyðisfirði og á báðum ofannefndum stöðum á Héraði. Tillaga um munna Seyðisfjarðarmegin er í um 130 m hæð gegnt Gufufossi. Á Héraði er tillaga á báðum stöðum um munna í 130-140 m hæð og mælt með munna við Dalhús. Árið 2014 var einnig unnið að jarðfræðiathugunum og boruð 430m djúp rannsóknarhola nærri miðriFjarðarheiði, sem gagnast báðum jarðgangaleiðum. Ekki tókst að bora holuna eins djúpt og áætlað var en það minnkar gildi hennar ekki mikið.

Á árinu 2015
vann Jarðfræðistofan ehf. áfram að jarðfræðiathugunum á yfirborði og undirbúningi á rannsóknarborun ársins 2016. Gerð voru drög að áhættugreiningu fyrir 13,5 km jarðgöng af HOJ Consulting GmbH í Sviss. Skrifuð var yfirlitsskýrsla um mengun frá jarðgöngum með sérstöku tilliti til Fjarðarheiðarganga og verður hún að hluta grundvöllur mats á umhverfisáhrifum. Á árinu 2016 var unnið að rannsóknarborunum þar sem boraðar voru 5 kjarnaholur samtals um 1.300 m og 3 loftholur samtals um 300 m. Unnið að áframhaldandi jarðfræðirannsóknum ásamt frumhönnun vega utan jarðganga og brúar á Eyvindará. Á árinu 2017 var unnið að jarðfræðirannsóknum og úrvinnslu og veghönnun að gangamunnum.

Verkframvinda 2018
Lokavinna við jarðfræðiskýrslu vegna jarðfræðirannsókna, mælingar og frumhönnun á vegtengingum, ráðgjafavinna vegna jarðgangaleiða til Seyðisfjarðar.

Verkframvinda 2019
Áfram vinna vegna frumhönnunar á Fjarðarheiðargöngum og vega að þeim. Á haustdögum lá fyrir stefnumörkun og var þá hafin skipuleg vinna við að ganga frá forhönnun mannvirkja bæði vega og ganga. Vegna vegamóta í Seyðisfirði var skoðuð lega ganga frá Mjóafirði til Seyðisfjarðar, „Seyðisfjarðarganga“. Ásamt fyrri hugmyndum um legu fyrirhugaðra ganga frá Norðfirði til Mjóafjarðar „Mjóafjarðarganga“.

Verkframvinda 2020
Forhönnun  á göngum og vegum lokið í ágúst. Ákveðið var að munnasvæði jarðganga Héraðsmegin verði við Dalhús. Mat á umhverfisáhrifum er hafið og tillaga að matsáætlun var send Skipulagsstofnun í nóvember. Gerð var umferðartalning og greining um Egilsstaði vegna nýrra vega frá jarðgöngunum sem eru til skoðunar. Einnig var unnið umferðaröryggismat á vegtengingum.

Verkframvinda 2021
Unnið var við mat á umhverfisáhrifum, matsskýrslu og ýmsar rannsóknir vegna matsins. Áfram unnið við hönnun tengivega og valkosta þeirra. Verkhönnun á jarðgöngum hófst haustið 2021. Jarðgrunnsrannsóknir við munnasvæði voru framkvæmdar.

Verktaki: Rannsóknarborun 2014: Geotækni ehf., Selfossi. Rannsóknarborun 2016: Alvarr ehf., Reykjavík.

Tengd gögn

Tengdar fréttir