Að þessu sinni voru 160 skráðir þátttakendur á hinni árlegu ráðstefnu um rannsóknir Vegagerðarinnar, sem nú var haldin í 8. sinn. Umfjöllunarefni var fjölbreitt að vanda og m.a. fjallað um hagkvæmnissamanburð á steyptu eða malbikuðu slitlagi, áhrif Kyoto sáttmálans á gæði sements, sandfok á Hringveginn, hagsveiflur og umferðarslys, ýmsar rannsóknir á jöklum, áhrif loftmengunar á sölu astmalyfja og verkefni sem fjallar um félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif Héðinsfjarðarganga. Þá flutti Ómar Ragnarsson ráðstefnugestum hugvekju um vegagerð í lok ráðstefnunnar. Við slit ráðstefnunnar gat vegamálastjóri, Hreinn Haraldsson, þess að við stefnum ótrauð að því að halda ráðstefnuna með sama sniði að ári, þrátt fyrir allt krepputal.
Efnisyfirlit
Rannsóknarráðstefna Vegagerðarinnar 2009
Á ráðstefnunni voru kynnt 19 verkefni sem hafa fengið styrk úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar á þessu og síðasta ári. Það er þó aðeins hluti af þeim fjölda verkefna sem fá styrk, en árið 2009 fengu um 130 verkefni styrk upp á samtals yfir 152 milljónir króna. Umsóknir hafa þó alltaf verið mun fleiri og oft þurft að hafna góðum verkefnum.
Í vegalögum er bundið að a.m.k. 1,5 % af mörkuðum tekjum stofnunarinnar skuli renna til rannsókna og þróunar. Í raun er það þó svo að þessu hefur aldrei verið náð og í fyrirliggjandi tillögu að fjárlögum 2010 er gert ráð fyrir 139 milljón krónum til rannsókna Vegagerðarinnar, en ætti að vera vel yfir 200 milljónir, miðað við áætlaðar markaða tekjustofna Vegagerðarinnar í sömu tillögum. Óljóst er hvernig þessu mun reiða af í framtíðinni.
Skýrslur og niðurstöður rannsókna eru birtar hér á vefnum jafnóðum og þær liggja fyrir.
Nú er hægt að nálgast ágrip af erindum á ráðstefnunni og einnig hægt að skoða glærur sem fyrirlesarar notuðu, sjá hér fyrir neðan