Aldrei áður hafa jafn margir sótt árlega ráðstefnu Vegagerðarinnar um rannsóknir og nú í ár en 171 þátttakandi var skráður á þessa sjöundu ráðstefnu sem haldin var þann 7. nóvember síðastliðinn. Þar var fjallað um til dæmis breikkun vega, þróun þungaumferðar, stofnbrautir hjólreiða, umferðaröryggi á hálendinu, tíðni aftakaatburða í framtíðarveðri, skipulagsáætlanir og þjóðvegi svo nokkur dæmi séu tekin.
Efnisyfirlit
Rannsóknarráðstefna Vegagerðarinnar 2008
Á ráðstefnunni voru kynnt 19 verkefni sem hafa fengið styrk úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar á þessu og síðasta ári. Það er þó aðeins hluti af þeim fjölda verkefna sem fá styrk, en á hverju ári undanfarið hefur ríflega 100 milljónum króna verið veitt í yfir 100 verkefni. Umsóknir hafa þó alltaf verið mun fleiri og oft þurft að hafna góðum verkefnum.
Í vegalögum er bundið að 1,5 % af mörkuðum tekjum stofnunarinnar skuli renna til rannsókna og þróunar. Gert hefur verið ráð fyrir að þessi lagabókstafur verði virkur við endurskoðun á 4 ára samgönguáætlun og því hefðum við úr fleiri krónum að spila við úthlutun í febrúar 2009 en áður. Á óvissutímum sem nú eru, gæti þó orðið einhver samdráttur í þessu, en ekki er búist við frekari niðurskurði, enda ekki síður mikilvægt að stunda rannsóknir á krepputímum en öðrum tímum.
Skýrslur og niðurstöður rannsókna eru birtar hér á vefnum jafnóðum og þær liggja fyrir.
Nú er að mestu hægt að nálgast ágrip af erindum á ráðstefnunni og einnig hægt að skoða glærur sem fyrirlesarar notuðu, sjá hér fyrir neðan.