4. september 2024
Virð­um stað­reynd­ir varð­andi Samgöngusátt­málann

Í líflegri umræðu um Samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu hefur verið farið nokkuð frjálslega með staðreyndir. Sérstaklega á þetta við um aðkomu Vegagerðarinnar að gerð Sáttmálans árið 2019, sem og hvar undirbúningur verkefna stóð við undirritun hans þá um haustið.

Ítrekað hefur því verið haldið fram að lélegum vinnubrögðum starfsfólks Vegagerðarinnar sé um að kenna að miklar breytingar hafa átt sér stað á kostnaðar- og tímaáætlunum sáttmálans. Við slíkt verður ekki unað. Vegagerðin vann ekki þá framkvæmdaáætlun sem kynnt var árið 2019 og gerði strax athugasemdir þar sem bent var á að kostnaðar- og tímaáætlanir verka byggðu á veikum grunni. Flest öll verkefni Samgönguáttmálans voru á frumstigum og á öðru og þriðja tímabili á gildandi samgönguáætlun og því mikil óvissa í kostnaðar- og tímaáætlunum sem framkvæmdatafla Samgöngusáttmálans speglaði ekki.

Í framhaldi af undirritun Samgöngusáttmálans 2019 tók Vegagerðin að sér undirbúning og framkvæmd allra verkefna hans, í samræmi við rammasamning sem stofnunin gerði við Betri samgöngur. Við uppfærslu Sáttmálans 2024 varð það því verkefni Vegagerðarinnar, í samstarfi við Betri samgöngur, að setja fram uppfærðar tölur og tímasetningar sem spegla þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um verkefnin. Þrátt fyrir að þetta hafi verið gert eins vel og unnt er, verður ekki horft fram hjá því að mörg verkefni Sáttmálans eru enn á frumstigum hönnunar

Þar sem ítrekaðar rangfærslur vega að starfsheiðri fagfólks Vegagerðarinnar og þeirra ráðgjafa sem unnið hafa að verkefnunum á undanförnum árum, er óhjákvæmilegt að  koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:

  • Vegagerðin setti ekki fram upphaflegar kostnaðaráætlanir sem birtust í framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans 2019.
  • Vegagerðin gerði strax athugasemdir við áætlanir hans 2019.
  • Sum verkefni Sáttmálans voru eingöngu á hugmyndastigi, svo sem Sæbrautarstokkur, sem þýðir að umfang þeirra var óljóst.
  • Hugmyndir að framkvæmdalotum Borgarlínu í Samgöngusáttmálanum 2019 voru unnar á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
  • Kostnaðaráætlun vegna framkvæmda Borgarlínu, sem liggur til grundvallar framkvæmdaáætlunar Samgöngusáttmálans 2019, var unnin af verkfræðistofu fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
  • Vegagerðinni er ekki kunnugt um hver vann tímaáætlanir vegna uppbyggingar Borgarlínu sem fram komu í framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans 2019
  • Hugmyndir að Miklubrautarstokki voru unnar fyrir Reykjavíkurborg af utanaðkomandi aðila.
  • Vegagerðin getur því hvorki skýrt þá vinnu sem þar liggur að baki né borið ábyrgð á henni.
  • Ákvarðanir um breytingar verka í hönnunarferlinu hafa allar verið samþykktar af stjórn Betri samgangna.
  • Fyrirliggjandi kostnaðaráætlanir í uppfærðum Samgöngusáttmála 2024 eru unnar af sérfræðingum Vegagerðarinnar og ráðgjöfum þeirra.

Framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans 2019 samanstóð af tíu stofnvegaverkefnum og sex framkvæmdalotum fyrir Borgarlínu, auk verkefna á borð við göngu- og hjólastíga, bætt umferðaröryggi, umferðarflæði og umferðarstýringu.

Stofnvegir

Kostnaðartölur fyrir nokkur stofnvegaverkefni voru teknar af gildandi samgönguáætlun 2019-2033. Þingsályktun um samgönguáætlun er skipt upp í þrjú fimm ára tímabil. Á fyrsta tímabili eru verkefni sem eru langt komin í undirbúningi og á leið í framkvæmd á næstu fimm árum. Á seinni tveimur tímabilum koma fram markmið stjórnvalda um forgangsröðun framkvæmda. Verkefni á síðari hluta samgönguáætlunar eru háðar meiri óvissu sem minnkar eftir því sem undirbúningi miðar lengra. Nú er það t.d. skilgreint markmið að forhönnun sé lokið eða hún langt komin áður en verkefni er tekið inn á fimm ára framkvæmdaáætlun.

Þremur stofnvegaverkefnum er lokið og voru þau öll á fyrsta tímabili samgönguáætlunar 2019. Þegar Samgöngusáttmálinn var undirritaður árið 2019, lágu fyrir uppfærðar kostnaðaráætlanir hjá Vegagerðinni fyrir þessi þrjú verkefni þar sem undirbúningur þeirra var á lokametrunum. Ef Vegagerðin hefði haft tækifæri á aðkomu að gerð Samgöngusáttmálans 2019 hefðu þær kostnaðartölur skilað sér inn í Samgöngusáttmálann.

Flest stofnvegaverkefnin voru á öðru eða þriðja tímabili gildandi samgönguáætlunar þegar Samgöngusáttmáli 2019 var undirritaður. Eðlilega voru kostnaðaráætlanir þeirra  verka háðar mjög mikilli óvissu þar sem ekki var búið að ákveða endanlegar lausnir eða hanna þær til að fá skýrari mynd af umfangi og kostnaði. Einnig er vert að hafa í huga að kostnaðarviðmið verka á samgönguáætlun 2019 byggðu á gömlum frumdrögum sem voru gerð áður en framkvæmdir stöðvuðust á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar efnahagshrunsins. Ólokið var því að endurskoða lausnir m.t.t breyttra krafna, s.s. fjölbreyttari ferðamáta og breytinga á lögum og reglum, sem breytir umfangi og kostnað verka

Við uppfærslu Samgöngusáttmálans 2024 fékk Vegagerðin það verkefni að uppfæra kostnaðar- og tímaáætlanir verkanna og birtast þær áætlanir í framkvæmdartöflu Samgöngusáttmálans 2024.

Borgarlína

Hugmyndir að framkvæmdalotum Borgarlínu, sem settar voru fram í Samgöngusáttmálanum 2019, voru unnar á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Á þessum tíma hafði Vegagerðin enga aðkomu að gerð kostnaðar- eða tímaáætlana fyrir þessi verkefni og getur því ekki borið ábyrgð á þeim áætlunum sem settar voru fram í Sáttmálanum 2019.

Með tilkomu Samgöngusáttmálans var verkefnastofa Borgarlínu stofnuð og hýst hjá Vegagerðinni. Við uppfærslu Samgöngusáttmálans 2024 fékk verkefnastofa Borgarlínu það verkefni að uppfæra kostnaðar- og tímaáætlanir fyrir Borgarlínu og birtast þær áætlanir í framkvæmdartöflu Samgöngusáttmálans 2024. Allar ákvarðanir varðandi breytingu á umfangi og útfærslu verkefna Borgarlínu hafa verið teknar af stjórn Betri samgangna.

Lokaorð 

Vegagerðin harmar ómaklega gagnrýni sem stofnunin hefur sætt varðandi gæði fyrri áætlana þar sem Vegagerðin hafði einfaldlega ekki aðkomu að því að setja fyrri framkvæmdaráætlun saman.

Vegagerðin bendir á hversu viðamikið ferli það er að hanna flókin samgöngumannvirki, ekki síst í þéttbýli enda hefur Vegagerðin tekið þátt í slíkum verkefnum á höfuðborgarsvæðinu í áratugi. Ábendingar Vegagerðarinnar eru ekki hugsaðar sem áfellisdómur yfir þeim sem tóku saman framkvæmdaáætlun Samgöngusáttmálans 2019, heldur miklu fremur ábending um að verkin voru skammt á veg komin og þar af leiðandi lágu ekki fyrir upplýsingar um alla þætti þeirra. Í sumum tilvikum er sú staða óbreytt. Það er skoðun Vegagerðarinnar að eftir undirritun Samgöngusáttmálans árið 2019 hefði verið heppilegra að setja af stað vinnu við undirbúning þeirra verkefna sem um ræðir og geta þá sett fram raunhæfari áætlanir.

Samgöngusáttmálinn snýst um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2040. Það er fagnaðarefni að ríki og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi náð saman um svo mikilvæga stefnumótun. Þessi tímamót marka viðamikla uppbyggingu sem mun auka lífsgæði íbúa og gagnast atvinnulífi. Til að koma stórum verkefnum áfram er gott samstarf og samhugur allra þátttakenda lykilatriði. Vegagerðin mun kappkosta að vinna hér eftir sem hingað til af heilindum að því að vegfarendur njóti sem bestra skilyrða í sínum daglegu samgöngum og vonast eftir góðu samstarfi við alla hlutaðeigandi aðila.

Sjá einnig eldri frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar.