Vegurinn færður fjær sumarhúsabyggðinni í Hvallátrum
Vinna er hafin við verkið Örlygshafnarvegur (612), Hvalsker – Sauðlauksdalur og Hvallátrar. Heimamenn frá Brjánslæk sjá um framkvæmdir sem klárast í ágúst 2026.
Vegurinn liggur nú í gegnum byggðina í Hvalllátrum en verður færður út fyrir hana.
Verkið er tvíþætt, annars vegar endurbætur á hluta Örlygshafnarvegar um Hvallátra og hins vegar endurbætur á veginum frá Hvalskeri að Sauðlauksdal. „Þetta verkefni er framhald af síðasta áfanga við Örlygshafnarveg sem náði frá Skápadal út að Hvalskeri,“ segir Kristinn Gunnar K. Lyngmo, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni á Vestursvæði. Leiðin er þekkt ferðamannaleið og hefur verið á verkefnalista Vegagerðarinnar um nokkra hríð. Mikilvægt er að byggja veginn upp enda fer umferð ferðamanna vaxandi, það veldur álagi á vegi og óþægindum fyrir byggðina í Hvallátrum enda hefur vegurinn legið í gegnum mitt hverfið.
Verkið var auglýst 10. mars 2025 og tilboð opnuð þann 25. Þrjú tilboð bárust en lægstbjóðandi var Flakkarinn ehf., Brjánslæk, með tilboð sem var sambærilegt áætluðum verktakakostnaði og hljóðaði upp á tæpar 332 milljónir króna.
„Verktakinn byrjar að vinna á kaflanum við Hvalsker, svo þegar umferðin ferð að þyngjast færist vinnan að Hvallátrum enda er þar unnið í nýju vegstæði og því lítil truflun fyrir ferðafólk og íbúa,“ segir Kristinn en verktakinn hefur leigt gamla íbúðarhúsið í Kvígindisdal fyrir starfsfólk sitt meðan á framkvæmdinni stendur.
Núverandi vegur liggur neðarlega í landinu og nálægt sjó.
Grafa ýtir út fyllingu fyrir nýtt vegstæði við Hvalsker.
Örlygshafnarvegur er tilgreindur sem tengivegur í vegaskrá. Nýju vegkaflarnir verða af tegundinni C7 sem er 6,5 m breiður vegur með 6,0 m breiðum akreinum og 0,25 m breiðum öxlum. Með framkvæmdunum eykst umferðaröryggi til muna en umferð um veginn er töluverð yfir sumartímann. Umferðartalning árið 2023 sýndi að umferð um Örlygshafnarveg við Hvallátra var um 415 bílar á sólarhring á sumrin, en aðeins 18 bílar á veturna. Umferðin við Hvalsker var svipuð, um 455 bílar á sólarhring á sumrin en um 21 á veturna.
Framkvæmdum á að ljúka í byrjun ágúst 2026 og mun það vera í tæka tíð fyrir sólmyrkvann þann 12. ágúst 2026. „Þessar framkvæmdir lágu fyrir áður en menn fóru að velta fyrir sér sólmyrkvanum en vissulega kemur það sér vel að við náum að klára þær áður en hann skellur á,“ segir Kristinn en sólmyrkvinn á að sjást lengst við Látrabjarg og því er búist við miklum fjölda ferðamanna. Sveitarfélagið vinnur nú að skipulagningunni í kringum viðburðinn og á Vegagerðin fulltrúa í nefnd sem kemur að skipulagningunni.
Unnið að skeringum fyrir nýju vegstæði á Örlygshafnarvegi við Hvalsker.
Vatn átti til að safnast á og við núverandi veg.
Við Hvallátra verður vegurinn færður út fyrir frístundahúsabyggðina. Lengd kaflans er um 1,9 km. Upphaf framkvæmdakaflans er skammt norðaustan við norðurenda Látravatns. Þaðan liggur ný veglína fyrst til vesturs, en svo suðvesturs niður hjallann og tengist núverandi veglínu skammt sunnan Litlakróks. Vegurinn styttist ekki við þessa tilfærslu en umferðaröryggi eykst til muna. Verkið felst í nýbyggingu vegarins, lagfæringu hans og frágangi með bundnu slitlagi. Í Hvallátrum liggur austasti hluti vegarins í gegnum gróðursvæði með hátt verndargildi. Því verður farið með stakri gát um svæðið. Verktakinn þarf að fjarlægja svarðlag og taka upp plöntur sem verða síðan notaðar til að græða upp í kringum vegsvæðið. Með svarðlagi er átt við 20 cm þykkt yfirborðslag á grónum svæðum.
Helstu magntölur eru:
• Bergskeringar í vegsvæði 22.000 m3
• Fyllingar 22.000 m3
• Fláafleygar 7.000 m3
• Röralögn 100 m
• Styrktarlag 5.120 m3
• Burðarlag 2.260 m3
• Klæðing 12.700 m2
• Frágangur fláa 15.000 m2
Þessi framkvæmdakafli nær yfir 4 km, frá núverandi vegi við Hvalsker sem er um tvo km sunnan við Patreksfjarðarflugvöll, fram hjá flugvellinum og að vegi rétt vestan við veg að Sauðlauksdal. Verkið felst í að byggja upp núverandi veg og lagfæringu hans. Þá verður sett bundið slitlag á veginn. Veglínan fylgir núverandi vegi að mestu. Núverandi brú yfir Sauðlauksdalsá verður fjarlægð og 3 m vegræsi lagt í hennar stað.
Helstu magntölur eru:
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 2. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.
Núverandi vegur liggur neðarlega í landinu og nálægt sjó.