29. febrúar 2024
Unnið að holu­viðgerð­um á vegum lands­ins

Nú, þegar styttist í vorið, vinnur starfsfólk Vegagerðarinnar og verktakar hörðum höndum að því að gera við holur sem hafa myndast í bundnu slitlagi víða um land. Umhleypingar í veðri, vatn, frost og þíða, hafa mikil áhrif á holumyndun á vegum. Einnig hefur aukin umferð áhrif þar á og ekki síður skortur á fjármagni til viðhalds vega.

Ein af ástæðum þess að holur myndast er þegar vatn liggur á vegum. Ekki þarf nema litla sprungu í malbiki til að vatn komist þar undir og safnist fyrir. Þegar vatn frýs eykst rúmmál þess og þegar það þiðnar aftur, er malbikið uppspennt. Ef þungur bíll ekur þar yfir og brýtur það niður getur hola myndast mjög hratt.

Gert er við holur eins fljótt og kostur er, oft í mjög erfiðum aðstæðum. Vinnuflokkar vinna þá í mikilli nálægð við oft þunga umferð sem getur verið varasamt. Því er mikilvægt að vegfarendur sýni varkárni og dragi úr hraða þegar ekið er hjá.

Í vor verður farið í heildstæðari viðgerðir, annaðhvort heilar yfirlagnir eða staðbundnar viðgerðir á stórum og litlum holum.

Hægt er að tilkynna um holur í vegum í gegnum ábendingakerfi Vegagerðarinnar á vegagerdin.is. Þá er smellt á flipann „hafðu samband“. Á sama stað er hægt að senda inn tjónstilkynningu. Við það fer málið í hefðbundið ferli þar sem metið er hvort bótaskylda sé fyrir hendi.

Uppsöfnuð viðhaldsskuld og aukið álag á vegi

Umferð á vegum landsins hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Þar með verður meira slit á vegum og auknar líkur á holumyndun. Sem dæmi hefur umferð um Hellisheiði og í Hvalfjarðargöngum aukist um rúm 60 prósent frá árinu 2010. Umferðin hefur vaxið enn meira á öðrum leiðum, sér í lagi á Suðurlandi. Á Hringvegi um Reynisfjall, vestan Víkur í Mýrdal, hefur árdagsumferð (meðalumferð á dag yfir árið) aukist um 300 %, úr 700 bílum í 2.900 bíla á sólarhring. Enn austar, eða í Kvískerjum sem er um 20 km vestan við Jökulsárlón, hefur umferðin vaxið um 360%. Farið úr 300 bílum á sólarhring árið 2010 í 1.400 bíla á sólarhring árið 2023.

Vegakerfið stækkar sífellt með nýjum mannvirkjum og stækkun og breikkun þeirra sem fyrir eru, til dæmis vegna framkvæmda við breikkun vega og aðskilnað akstursstefna. Með þessu fjölgar þeim fermetrum  sem þurfa á viðhaldi að halda en auk þessa eru margir kaflar á vegakerfinu  komnir á þann aldur að komið er að eðlilegu viðhaldi burðarlaga og slitlaga.  Ekki hefur tekist að fjármagna viðhald í takt við þarfirnar og því hefur safnast upp svokölluð viðhaldsskuld sem víða má sjá á slitnum samgöngumannvirkjum.

Lengd vega með bundnu slitlagi á Íslandi er um 5.878 km. Árlega þarf að viðhalda um 700 km af slitlagi ef vel  á að vera. Hin uppsafnaða viðhaldsskuld eftirhrunsáranna gerir það að verkum að slitlög sem þarfnast viðhalds eru um 2.250 km. Niðurstöður burðarþolsmælinga benda til þess að 1.760 km af vegum með bundnu slitlagi hafi takmarkað burðarþol. Þá vegi þarf því að endurbyggja, þar dugar ekki að skipta um slitlag.

Vallavegur á Þingvöllum er afar illa farinn.

Vallavegur á Þingvöllum er afar illa farinn.

Reynishverfisvegur (215) þarfnast töluverðra viðgerða.

Reynishverfisvegur (215) þarfnast töluverðra viðgerða.