26. október 2023
Umsagn­ir Vega­gerðar­innar um skipu­lag á lágsvæð­um vegna hættu á sjávar­flóð­um

Fjórða skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar felur í sér sviðsmynd sem tekur á enn meiri hækkun sjávar en áður hefur verið spáð og sem höfundar kalla allra, allra verstu sviðmynd. Vegagerðin og forverar hennar hafa í 30 ár veitt umsagnir um skipulag á lágsvæðum þar sem hætta er á sjávarflóðum. Umsagnirnar hafa frá upphafi miðast við mat á flóðhæð sjávarflóða með 100 ára endurkomutíma að viðbættum jarðskorpuhreyfingum og hækkandi sjávarstöðu.

Viðmiðanir í umsögnunum hafa verið endurskoðaðar reglulega með tilliti til nýrra og betri upplýsinga. Í tvígang, árin 2019 og 2022, hækkaði Vegagerðin öryggismörk vegna líka á aukinni hækkun sjávar. Skoðun á umsögnum Vegagerðarinnar benda til þess að þær hafi verið í takt við þessa nýjustu skýrslu vísindanefndarinnar.

 

Vegagerðin er umsagnaraðili um skipulag á lágsvæðum þar sem hætta er á sjávarflóðum

Vegagerðin og forverar hennar á sviði varna við landbroti og sjávarflóðum hafa um 30 ára skeið verið umsagnaraðilar um aðal- og deiliskipulag á lágsvæðum þar sem hætta er á sjávarflóðum. Grunnurinn að því er samvinnuverkefni Vita- og hafnamálastofnunar, Skipulags ríkisins og Viðlagatrygginga á árunum 1992 til 1995, þar sem settar voru fram tillögur að viðmiðunarreglum fyrir landhæð á nokkrum lágsvæðum við sjó og fjarlægð nýrra bygginga frá sjávarkambi. Vita- hafnarmálastofnun fór þá með málefni sjóvarna sem nú eru á hendi Vegagerðarinnar.

Allt frá þessum tíma hafa viðmiðunarreglur um lágmarks land- og gólfhæð miðast við mat á flóðhæð með 100 ára endurkomutíma auk afstæðra sjávarstöðubreytinga á næstu 100 árum. Með afstæðum sjávarstöðubreytingum er átt við breytingar á landhæð vegna jarðskorpuhreyfinga annars vegar og hækkandi sjávarstöðu vegna hnattrænnar hlýnunar hins vegar.

Samhliða útgáfu þriðju skýrslu vísindanefndar, V2018, um áhrif loftslagsbreytinga árið 2018 gaf Vegagerðin út skýrslu þar sem viðmiðunarreglurnar um landhæð á lágsvæðum voru endurskoðaðar og útvíkkaðar fyrir allt landið. Eins og áður byggðust þessar reglur á mati á flóðhæð með 100 ára endurkomutíma og áætluðum sjávarstöðubreytingum næstu 100 árin. Í skýrslu vísindanefndarinnar kemur fram að einungis um þriðjungur af hnattrænum breytingum á sjávarhæð vegna hlýnunar kemur fram á Íslandi þar sem gert er ráð fyrir að stór hluti hnattrænnar sjávarstöðuhækkunar stafi af bráðnun Grænlandsjökuls. Vegna þyngdarsviðsáhrifa eru áhrif bráðnunar Grænlandsjökuls lítil hér á landi á meðan að áhrif jökulbráðnunar á Suðurskautslandinu koma að fullu fram. Vísindanefndin setti fram þrjár sviðsmyndir sem byggðu á sviðsmyndum í IPCC2013 skýrslunni og tóku viðmiðunarreglur Vegagerðarinnar mið af þeirri óhagstæðustu þar sem gert er ráð fyrir 1,0 m hnattrænni sjávarstöðuhækkun.

Vegna umræðu um aukna hlutdeild bráðnunar íssins á Suðurskautslandinu í hækkun sjávar á heimsvísu, ákvað Vegagerðin að höfðu samráði við Veðurstofuna árið 2019 að bæta við 0,35 m varúðarmörkum í viðmiðunarreglunum.

Eftir útgáfu IPCC2021 skýrslunnar fór af stað umræða um mögulegar enn meiri sjávarstöðuhækkanir en áður var gert ráð fyrir. Auk fyrri sviðsmynda úr IPCC2013 skýrslunni eru settar fram sviðsmyndir með lægri öryggismörkum eða mun meiri hækkun sjávarborðs. Í framhaldi af því hækkaði Vegagerðin sumarið 2022 fyrrnefnd öryggismörk úr 0,35 m í 0,75 m.

Auk þessara tveggja endurskoðana vegna hækkandi sjávarstöðu hafa viðmiðunarreglur Vegagerðarinnar um landhæð á lágsvæðum þróast og tekið mið af nýjum og bættum upplýsingum. Þetta á bæði við um endurskoðað mat á hæð sjávarflóða með 100 ára endurkomutíma og meiri upplýsingum frá GPS mælingum og hæðarmælingum með gervitunglum. Auk jarðskorpuhreyfinga þá gefa gervitunglamælingarnar upplýsingar um sig á sjávareyrum sem er mikilvægur þáttur við ákvörðun á lágmarkslandhæð þar sem slíkt á við.

Nú liggur fyrir fjórða skýrsla vísindanefndar, V2023, um loftslagsbreytingar. Þar er fjallað um þrjár sviðsmyndir. Tvær þeirra voru skoðaðar í fyrri skýrslu vísindanefndar V2018, SSP2-4.5 og SSP5-8.5, en þó er sá munur á að framlag ísbreiðunnar á Suðurskautslandinu er hærra í IPCC2021 skýrslunni en áður. Þriðja sviðsmyndin sem fjallað er um er SSP5-8.5LC (LC stendur fyrir Low Confidence). Sú sviðsmynd hefur verið kölluð „allra allra versta sviðsmynd“ af höfundum skýrslunnar.

Vegagerðin hefur nú farið yfir umsagnir sínar um lágmarks land- og gólfhæð á síðustu mánuðum og borið saman við sviðsmyndir um hækkun sjávarstöðu að teknu tillit til landhæðabreytinga í nýbirtri skýrslu vísindanefndar. Fyrir sviðsmyndirnar þrjár birtir vísindanefnd afstæða hækkun sjávar á 17 stöðum umhverfis landið fyrir árin 2100 og 2150 með 17% og 83% óvissumörkum. Þar sem umsagnir Vegagerðarinnar miða við 100 ára tímabil þarf að brúa milli áranna 2100 og 2150. Jafnframt getur þurft að brúa milli staða þar sem aðeins eru gefnar upplýsingar um 17 staði í skýrslu vísindanefndar. Við samanburðinn þarf að taka tillit til þess að stundum er mismunur á landhæðarbreytingum í skýrslu vísindanefnda og þeim sem koma fram í Sentinel gervitunglamælingum, en í þeim síðarnefndu kemur fram sig lausra jarðefna þar sem það á við.

Að teknu tilliti til þessara þátta hafa umsagnir Vegagerðarinnar um afstæða hækkun sjávar yfirleitt verið hærri og stundum nokkru hærri en efri óvissumörk SSP5-8.5 sviðmyndarinnar, sem er jafnframt töluvert yfir líklegustu hækkun SSP5-8.5LC sviðsmyndarinnar. Mismunurinn á umsögnum Vegagerðarinnar og skýrslu vísindanefndar stafar að verulegu leyti af mismundandi forsendum varðandi landhæðarbreytingar, eins og lýst er að ofan. En vissulega eru efri óvissumörk SSP5-8.5LC sviðsmyndarinnar töluvert hærri en umsagnir Vegagerðarinnar.

Vegagerðin hefur um 30 ára skeið verið umsagnaraðili um skipulag á lágsvæðum þar sem hætta er á sjávarflóðum. Umsagnir hafa frá upphafi miðast við mat á flóðhæð sjávarflóða með 100 ára endurkomutíma. Viðmiðunarreglur Vegagerðarinnar hafa reglulega verið endurskoðaðar með tilliti til nýrra og betri upplýsinga. Samanburður á umsögnum Vegagerðarinnar undanfarið ár bendir til þess að þær hafi fyllilega verið í takt við þær niðurstöður sem birtar eru í nýrri skýrslu vísindanefndar.