1. október 2021
Umferðar­ljós­astýr­ingar á höfuð­borgar­svæð­inu

Í undirbúningi er þróunarverkefni sem snýr að stýringu á tilteknum umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu til að greiða fyrir umferð á álagstíma. Fyrr á þessu ári var gerð úttekt á öllum umferðarljósum höfuðborgarsvæðisins með tilliti til ástands og aldurs.

Yfir tvö hundruð umferðarljós eru á öllu höfuðborgarsvæðinu. Flest þeirra eru í Reykjavík af þeim sveitarfélögum sem standa að höfuðborgarsvæðinu. Hluti ljósanna er staðsettur á vegum sem eru í eigu Vegagerðarinnar. Með tilkomu Samgöngusáttmála var stofnaður samstarfshópur Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu en þessir aðilar deila ábyrgð á umferðarljósunum.

„Auk þess að hafa gert úttekt á öllum umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu hefur samstarfshópurinn unnið að aðgerðaráætlun, stefnumörkun og setningu markmiða varðandi umferðarljósin í heild sinni,“ segir Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar.

Þegar er búið að gera yfirlit yfir hvar helst er þörf á að endurnýja umferðarljós eða tæknibúnað sem kominn er til ára sinna, ásamt því að greina við hvaða umferðarljós verða helst tafir á annatíma.

„Markmiðið með þessari vinnu er nú sem fyrr að tryggja umferðaröryggi, lágmarka mengun fyrir vegfarendur og auka greiðfærni svo samgöngukerfið gangi sem best fyrir sig,“ segir Bergþóra.

Stöðugt er unnið endurnýjun tækjabúnaðar, að sögn Bergþóru. „Eitt af markmiðum með endurnýjun er að nýta nýjustu tækni og auka möguleika á sem bestri virkni á hverjum tíma. Einnig hefur verið unnið að því að setja skýr markmið í rekstri og þróun ljósastýringa á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hún.

Í framhaldi af greiningu á ástandi umferðar er nú í undirbúningi þróunarverkefni á umferðarljósum sem eru á Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

„Verkefnið snýr að því að auka afköst um gatnamótin á háannatíma. Á gatnamótunum er nýlegur búnaður og snýr verkefnið að því að auka umferðarflæðið eins og kostur er. Á næstu vikum verður umferðin um gatnamótin greind og í framhaldinu leitað lausna til að auka afköstin til frambúðar,“ segir Bergþóra.