11. október 2022
Þrívíddar­hönn­un varp­að inn í raun­veru­legt lands­lag

Hönnunardeild Vegagerðarinnar notast við fjölbreytta tækni við hönnun samgöngumannvirkja. Þrívíddarlíkön hafa lengi verið útbúin til að sjá betur hvernig vegir og brýr koma til með að líta út í raunheimum og nú hefur deildin eignast Trimble SiteVision tækjabúnað sem hægt er að nota á fyrirhuguðum verkstað til að varpa þrívíddarlíkönunum inn í landslagið.

„Þetta er mikil framför. Áður var maður með prentaðar teikningar með sér þegar maður fór á verkstað og ef maður var heppinn var búið að setja niður hæla í miðlínu vegarins sem til stóð að byggja. Núna getum við farið á staðinn, skoðað landslagið í gegnum SiteVision tækið og séð hvernig vegurinn kemur til með að liggja, í hvaða hæð miðað við landslagið og fáum þannig betri tilfinningu fyrir umfangi vegarins,“ segir Guðmundur Ingi Guðmundsson tæknifræðingur á hönnunardeild Vegagerðarinnar sem hefur unnið að innleiðingu tækninnar hjá Vegagerðinni ásamt Ólafi Thorlacius Árnasyni samstarfsfélaga sínum.

Nokkur framþróun hefur verið í tækniumhverfi veghönnuða undanfarin ár. Til að mynda hefur þrívíddartæknin verið notuð í áraraðir til að gefa hönnuðum betri innsýn inn í hvernig vegir koma til með að falla inn í landslag. „Við fáum til okkar landlíkan í þrívídd sem unnið er upp úr loftmynd með sniðmælingum og fleiru. Síðan er vegurinn hannaður inn í þetta líkan,“ útskýrir Ólafur.

Guðmundur Ingi kynntist fyrst SiteVision tækninni fyrir þremur árum þegar hún var enn í þróun í Bandaríkjunum. Þetta er því fremur nýleg tækni sem fáir hafa nýtt sér hér á landi enn sem komið er. „Tækið er uppbyggt sem skjár með handfangi og útbúið nákvæmum gps- og fjarlægðarskynjurum. Síðan hleður maður þrívíddarmódeli inn í tækið sem varpar því inn í raunverulegt landslag í rauntíma. Þetta er svokallaður blandaður veruleiki. Þú getur gengið um, snúið þér og skjánum og séð hvernig vegurinn fellur að landslaginu.“

Ólafur bendir á að ekkert þurfi að eiga við gögnin áður en þau eru sett inn í tækið. „Þessi þrívíddarmódel eru alltaf búin til en þarna erum við komin með tækni til að nýta þau enn betur í undirbúningi framkvæmda.“

En hver er tilgangurinn?

„Gagnsemi tækisins eru ýmis. Til dæmis getur verið gott fyrir hönnuð að fara á fyrirhugaðan verkstað og átta sig á umfangi þess sem hann er að hanna. Þá getur hann jafnvel komið auga á eitthvað sem betur mætti fara sem ekki kemur nægilega vel fram á teikningum, til dæmis hvernig vegur fellur almennt að umhverfinu, hvar ræsi eru best staðsett og hvernig veghæð kemur út á tilteknum stöðum með tilliti til afvötnunar, snjóhæðar og gróðurs svo eitthvað sé nefnt. Sumt er ekki hægt að meta nema fara á staðinn,“ lýsir Guðmundur. Ólafur samsinnir því og bætir við; „Þessi tækni getur líka nýst mjög vel í samskiptum við landeigendur sem þarf að semja við. Það getur verið upplýsandi fyrir landeigendur að geta séð nákvæmlega hvernig vegurinn muni fara um landið þeirra og hvaða áhrif framkvæmdirnar muni hafa.“

Einnig opnast sá möguleiki að nota tækið meðan á framkvæmdum stendur og eftir að þeim er lokið til að bera saman hvort framkvæmdir fylgi hönnun.

Þeir benda einnig á að tækið bjóði upp á aukna möguleika. Til dæmis sé hægt að bæta inn í módelin lögnum, vegbúnaði og fleiru. „Við stefnum á að vinna líkönin meira fyrir búnaðinn og geta þá tekið inn nákvæmari líkön í tækið þannig að þau líkist enn meira raunverulegum vegi. Í stað grárra flata komi þá smáatriði eins og litir, vegmerkingar og grónir fláar,“ segir Guðmundur Ingi að lokum.

Greinin birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 6. tbl. 2022 nr. 721. Rafræna útgáfu má finna hér.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.