28. júní 2022
Sæbrautar­stokkur – matsáætlun

Lögð hefur verið fram matsáætlun vegna fyrirhugaðs vegstokks á Sæbraut/Reykjanesbraut í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að Sæbrautin verði lækkuð og sett í stokk á um 1 km kafla frá Miklubraut/Vesturlandsvegi og norður fyrir gatnamótin við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg. Gera á mislæg gatnamót við Kleppsmýrarveg og gera má ráð fyrir að aðlaga þurfi rampa á mislægum gatnamótum Sæbrautar og Vesturlandsvegar þegar Sæbrautin er lækkuð.

Vegagerðin í samstarfi við Reykjavíkurborg hyggst leggja Sæbraut í stokk. Eitt af skilgreindum markmiðum með gerð stokka er að bæta umhverfisgæði í aðliggjandi byggð og tengja betur saman hverfi sem eru aðskilin með umferðarþungum stofnbrautum. Stokkalausnir eru einnig hugsaðar til að greiða götu Borgarlínunnar þar sem hún þarf að þvera stofnbrautir.

Í matsáætlun er umfang mats á umhverfisáhrifum skilgreint. Vinsun fer fram á þeim þáttum framkvæmdarinnar sem taldir eru hafa áhrif á umhverfið og einnig þeim umhverfisþáttum sem líklegir eru taldir til að verða fyrir áhrifum vegna einstakra framkvæmdaþátta, bæði á framkvæmda- og rekstrartíma. Eftir því sem við á er gerð grein fyrir rannsóknum sem þegar hafa verið gerðar á viðkomandi umhverfisþætti auk annarra gagna sem stuðst verður við og rannsóknum sem framkvæmdaaðili hyggst standa að vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Vegstokkur á Sæbraut - Matsáætlun