11. nóvember 2022
Öryggis­atriði að geta byggt brýr með hraði

Tveir brúarvinnuflokkar starfa hjá Vegagerðinni. Flokkarnir starfa um land allt og sinna verkefnum sem snúa að viðhaldi brúa og einstaka nýbyggingum. Flokkarnir gegna einnig mikilvægu hlutverki í samgönguöryggi en þeir geta brugðist hratt við ef fjölfarnar brýr skemmast.

„Tilgangur brúarvinnuflokkanna er í stórum dráttum að viðhalda brúarmannvirkjum landsins en Vegagerðin á yfir 1200 brýr sem allar þurfa viðhald á einhverjum tímapunkti. Einnig sinna flokkarnir minni nýbyggingaverkefnum,“ segir Fjölnir Már Geirsson yfirmaður vinnuflokka hjá Vegagerðinni.

Vegagerðin starfrækir tvo brúarvinnuflokka, annars vegar í Vík og hins vegar á Hvammstanga en þeir sinna verkefnum um landið allt. „Sex starfsmenn eru í hvorum flokknum, bæði húsasmíðameistarar, vélamenn og verkamenn. Verkefnin eru misstór, þau geti tekið frá tveimur dögum upp í nokkra mánuði,“ segir Fjölnir en áður fyrr voru brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar mun umsvifameiri. Í seinni tíð hafa flest stærri verkefni verið boðin út en mörg verkefni er þó þess eðlis að hentugra er að láta brúarvinnuflokkana um þau.

„Stundum fáum við hreinlega engin tilboð í tilteknar framkvæmdir og þá kemur sér vel að vera með flokk sem getur tekið verkið að sér,“ lýsir Fjölnir en áréttir að lang flest brúarverkefni fari í útboð, sérstaklega þau sem auðvelt sé að skilgreina. „Enda komumst við á engan hátt yfir þá uppsöfnuðu þörf sem er í viðhaldi á brúm.“

Fjölnir segir mikið öryggisatriði að Vegagerðin haldi úti brúarvinnuflokkum til að viðhalda þekkingu innan stofnunarinnar. „Brúarvinnuflokkarnir eru sérstaklega mikilvægir þegar brýr skemmast til dæmis vegna flóða. Þegar brúin á Steinavötnum skemmdist vegna vatnavaxta árið 2017 voru flokkarnir sameinaðir og byggðu bráðabirgðabrú á sex dögum. Sama var uppi á teningnum þegar brúin yfir Múlakvísl skemmdist árið 2011 og bráðabirgðabrú var reist á einni viku. Enn eitt dæmið er bráðabirgðabrú sem byggð var yfir Gígjukvísl þegar Skeiðarárhlaupið olli tjóni árið 1996. Í svona tilvikum þarf að hafa hraðar hendur og ekki hægt að treysta á að verktakar geti stokkið í verkefnið fyrirvaralaust.“

Brúarvinnuflokkarnir tveir sinna um fjörutíu verkefnum, stærri og minni, yfir árið. „Við vinnum allan ársins hring en stílum inná að verkefnin henti árstíðinni. Þegar kalt er í veðri förum við í timburverkefni en steypu þegar betur viðrar,“ lýsir Fjölnir. Hann upplýsir að hugmyndir séu uppi um að efla enn brúarvinnuflokkana næstu árin enda sé þörfin til staðar.

Hér í greininni er greint frá helstu verkefnum brúarvinnuflokka Vegagerðarinnar árið 2021.

Verkefni brúarvinnuflokksins í Vík

 • Fjarðará, Borgarfirði Eystra  Laga steyptar bríkur og vegrið
 • Skaftá   Stálbitar endurnýjaðir með tilliti til þungaflutninga vegna endurnýjunar á brú yfir Skaftá við Hunkubakka
 • Ölfusá,  viðgerðir  Vegrið lagað vegna tjóns við ákeyrslu
 • Lagarfljót  Kápusteypa utan á stöplana. Skipta út slitgólfi og setja járnmottur
 • Tunguá hjá Hagalandi  Grjótkláfar lagaðir svo og slitgólf og vegrið
 • Jökulsá á Sólheimasandi  Smíði á bráðabirgðabrú vegna nýframkvæmdar við þjóðveg og tvöföldun brúar
 • Uppsalaá  Skipt um yfirbyggingu og hækkuð með tilliti til veglegu, skipt um vegrið og þau lengd upp í land til að auka öryggi
 • Jökulsá við Klaustursel   Nýtt vegrið
 • Skaftá   Skipt út stálbitum og yfirbyggingu, vegrið lagað og steypuviðgerðir
 • Þorvaldsstaðará, Þistilfirði     Slitgólf, vegrið og bríkur lagaðar
 • Þverá, Borgarfirði    Slitgólf og vegrið lagað
 • Gilsá reiðbrú     Skipt um slitgólf og vegrið lagað
 • Kálfá við Árnes   Eldri brú rifin og ný byggð
 • Markarfljót við Emstrur  Vegriðsskipti og athugun á slitgólfi

 

Verkefni brúarvinnuflokksins á Hvammstanga

 • Geirsá  Skipt um undirstöðu undir öðrum enda brúarinnar sem gaf sig undan steypubíl fyrir nokkrum árum
 • Kársnesbraut    Eldra vegriði skipt út fyrir nýtt Sicuro vegrið. Vegrið lengd og tengd við vegrið í vegfláa
 • Kjálkaá, Stífnisdal     Skipt um undirstöður í báðum endum brúar
 • Kaldakvísl við Mosfell    Skipt um slitgólf og það klætt með stálmottum
 • Sandá við Flekkudalsveg    Stöplar kápusteyptir og skipt um allt timbur í yfirbyggingu
 • Brynjudalsá    Lagfæringar á timburgólfi
 • Litla Botnsá    Skipt um slitgólf
 • Laxá í Kjós    Lagfæring á slitgólfi, stálmottum og vegriðum
 • Svarfaðardalsá við Hæringsstaði   Skipt um allt timbur í yfirbyggingu til að breikka brúna um 50cm. Sett ný og sterkari vegrið ásamt lengingum vegriða í vegfláa
 • Kaldakvísl   Spenniköplum til styrkingar landbrúa skipt út fyrir nýja
 • Torfá   Upphaflega átti aðeins að lagfæra undirstöður en á endanum var nánast ný brú byggð
 • Eyjafjarðará við Sandhóla     Kápusteypa stöpuls og steypuviðgerðir á yfirbyggingu
 • Vesturhópshólaá   Niðurrekstur. Staurar reknir niður undir nýja brú
 • Núpsvötn   Niðurrekstur. Staurar reknir niður undir nýja brú
 • Digranes   Undirbúningur fyrir Sicuro vegrið
 • Þverá   Rif á hluta af stokki og endurbygging hans
 • Þorskafjörður   Niðurrekstur. Staurar reknir niður undir nýja brú

Þorskafjörður

Suðurverk er aðalverktaki í þverun Þorskafjarðar en skrifað var undir verksamning í apríl á þessu ári. Þverun Þorskafjarðar styttir vegalengdina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 10 km. Áætlað er að smíði brúar og frágangi við hana verði lokið í lok september á næsta ári en að verkinu öllu ljúki í júní 2024.

Niðurrekstur staura er meðal fyrstu verkefna í framkvæmdinni. Vegagerðin á einu stóru niðurrekstrarvélina á landinu en það eru tveir starfsmenn brúarvinnuflokksins á Hvammstanga sem manna vélina.

Í Þorskafirði eru reknir niður 27 m langir staurar sem eru samsettir úr þremur staurum hver. 46 slíkir staurar eru í hverjum stöpli millistöpli sem eru fimm og 25 í hverjum landstöpli sem eru tveir.  . Verkið er á áætlun gagnvart verktaka, tveir stöplar af sjö voru tilbúnir í lok nóvember og vonir standa til að verkefni brúarvinnuflokksins ljúki í febrúar. Þá heldur niðurrekstrarflokkurinn í verkefni við Hornafjarðarfljót.

Þverá í Kaupangssveit

Ræsi var byggt yfir Þverá í Kaupangssveit árið 1991. Það er steyptur hálfbogi, 6,7 m breiður og 60 m að lengd í fjórum einingum. Boginn er með sökklum og grundaður að hluta á klöpp og hluta til á fyllingu. Ræsið skekktist í flóði í júlí 2021 en talið er að slík flóð komi á um hundrað ára fresti. Tvær neðri einingarnar skekktust um 300-400 mm öðru megin og skolaðist undan þeim.

Brúarvinnuflokkurinn á Hvammstanga fékk það verkefni að laga ræsið sem skemmdist. Búið er að moka ofan af ræsinu um 8 m fyllingu og veita umferð á eldri brú sem stendur aðeins ofar. Ánni hefur verið veitt framhjá ræsinu svo hægt sé að meta skemmdir og gera úrbætur. Áætlað er að setja grjótflór í botn ræsisins í efstu tvær einingarnar og steypa grjótið fast auk þess að fleyta undir sökkul eininganna. Tveir efstu rofbitarnir verða endurbyggðir og steypt ný kápa utan um þá.

Ákveðið var að rífa tvær neðri einingarnar og endurbyggja frá grunni, eða um það bil 32 m af ræsinu. Reknir voru niður stálbitar allt að 12 m niður til að koma í veg fyrir að ræsið sígi aftur. Áætluð verklok eru í febrúar 2022.

Kársnesbraut og Nýbýlavegur

Brúin yfir Kársnesbraut er 47 m löng steinsteypt forspennt brú, byggð árið 1969. Brúin yfir Nýbýlaveg er 40,5 m löng steypt og forspennt, byggð árið 1968. Ákveðið var að skipta um vegrið á brúnum sem hluta af sérstöku vegriðsátaki sem Vegagerðin stendur fyrir. Átakið gengur út á að skipta út vegriðum sem ekki standast kröfur.

Á brúnni yfir Kársnesbraut og Nýbýlaveg var notast við Sicuro vegrið  frá norska framleiðandanum Vikörsta. Gamla vegriðið var fjarlægt og hið nýja sett upp jafnóðum til að tryggja öryggi vegfarenda. Einnig voru steyptar niður fjórar öflugar undirstöður til endanna.

Meðal annarra verkefna í vegriðsátaki Vegagerðarinnar eru Kaldakvísl og Leirvogsá en þar er búið að skipta út vegriðum.  Unnið er eftir forgangslista en aðrar brýr sem stendur til að skipta um vegrið á eru ; Hamraborg og Digranesvegur, Borgarfjörður, Elliðaár, Reykjanesbraut og fleiri.

Lagarfljót

Lagarfljótsbrúin er 301m löng á steyptum stöplum með burðarbitum úr stáli og timburgólfi. Hún var byggð árið 1958, á sama stað og eldri brú sem var vígð 1905 en niðurrekstrarstaurar frá þeim tíma voru að hluta nýttir í nýju stöplana. Brúin er því komin til ára sinna og mikilvægt að sinna vel viðhaldi hennar.

Brúarvinnuflokkurinn frá Vík fékk það verkefni í ár að kápusteypa utan um stöpla brúarinnar. Þurfti til þess að sérsmíða pramma sem var notaður til að komast að stöplunum. Um þessar mundir er verið að vinna í að skipta út öllu slitgólfinu á brúnni og setja járnmottur yfir til að lengja líftíma gólfsins. Skipt hafði verið um slitgólf síðla 2019 en það skemmdist mjög fljótt. Í ljós kom galli í efninu sem skýrði mjög lélega endingu. Þá kom upp fyrr á árinu eldur í brúnni sem þó skemmdi lítið.

Kálfá við Árnes

Brúin yfir Kálfá var byggð árið 1932. Hún var þá 12 m löng með steyptum burðarbitum og timburgólfi. Árið 1994 var gólfið framlengt fram yfir stöpla og varð þá 20 m langt.

Til stóð að fara í miklar viðgerðir á brúnni. Fljótlega kom í ljós að brúin var það illa farin að ekki borgaði sig að gera við hana. Því var ákveðið að rífa eldri brúna fyrir utan vestari stöpulinn sem var endurbyggður að hluta og kápusteyptur. Þar sem aðgengi vinnuvéla er gott á staðnum var ákveðið að bakka tveimur búkollum undir brúna til að lágmarka steypubrot í ána. Gamla brúin var fleyguð niður af beltagröfu og var hún tekin niður á einum degi.

Steyptur var nýr stöpull norðanmegin. Gerður var öflugur fótur með bergboltum. Nýttir voru eldri stálbitar sem höfðu verið sandblásnir og málaðir og því eins og nýir. Þá var sett nýtt gólf og vegrið og í dag er brúin eins og ný.

Þessi grein birtist í 7. tbl. Framkvæmdafrétta.   Rafræna útgáfu má finna hér.    Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.

Eldri brú á Kálfá var rifin og ný byggð í staðinn.

Eldri brú á Kálfá var rifin og ný byggð í staðinn.

Brúavinnuflokkur Vegagerðarinnar gerir við brúna yfir Köldukvísl sumarið 2021.

Brúavinnuflokkur Vegagerðarinnar gerir við brúna yfir Köldukvísl sumarið 2021.