19. júní 2024
Jarð­rann­sókn­ir í Grinda­vík

Starfsfólk Vegagerðarinnar kortleggur sprungur og holrými undir yfirborð við Grindavík og nágrenni. Markmiðið er að finna sprungur og holrými sem leynast á grunnu dýpi og geta hugsanlega valdið vandamálum.

„Við hófum þessa kortlagningu í nóvember 2023 eftir að djúpar sprungur höfðu myndast í Grindavík í kjölfar kröftugra jarðskjálfta,“ segir Friðrik Þór Halldórsson, sérfræðingur á stoðdeild Vegagerðarinnar sem er einn þeirra sem koma að vinnu við kortlagningu í Grindavík.

Fyrst um sinn var jarðsjá fest á kerru úr koltrefjaplasti sem tæknimaður gat ýtt á undan sér. Jarðsjáin er af tegundinni Sub Echo 70 sem mælir á 70 megariðum og nær 17 til 18 metra niður í jörðu í þeim aðstæðum sem eru við Grindavík.  „Eftir banaslysið í Grindavík í janúar, þegar maður féll ofan í sprungu, var ákveðið að leggja starfsfólk ekki í hættu og fá heldur dróna til verksins,“ lýsir Friðrik en drónaflugmenn frá Hollandi voru fengnir til að aðstoða starfsfólk Vegagerðarinnar við stjórnun þeirra. „Þetta gekk nokkuð hratt fyrir sig og 24. janúar var byrjað að fljúga.“ Jarðsjá Vegagerðarinnar var fest neðan í drónann og honum flogið yfir það svæði sem þurfti að kanna.

En hver er tilgangurinn með þessu? „Það er að kortleggja sprungur og holrými undir yfirborðinu í   Grindavík og á nálægum vegum,“ svarar Friðrik. Búið er að finna vísbendingar um fjölmörg holrými á svæðinu en að sögn Friðriks er ekki gott að vita hvort þessi holrými séu gömul eða ný. „Það hafa ekki verið gerðar rannsóknir á borð við þessa áður á þessu svæði. Þetta geta því verið holrými sem hafa verið þarna alla tíð, eða holrými sem hafa myndast í jarðhræringunum undanfarið.“ Friðrik segir einn af stærstu kostum þessarar kortlagningar vera að hafa núllpunkt til að miða frekari rannsóknir við. „Ef það verða meiri jarðhræringar getum við mælt svæðið aftur og þá vitað hvað breytist miðað við stöðuna í dag.“

Holrýmin sem hafa komið í ljós við kortlagninguna eru af ýmsum toga. Sum eru á miklu dýpi, fimm til tíu metra, önnur eru stutt undir yfirborðinu, jafnvel aðeins meter. „Við höfum ekki miklar áhyggjur af fyrri holrýmunum en þau sem liggja grunnt er mikilvægt að kanna nánar enda þarf kannski ekki mikið til að þau opnist upp á yfirborðið.“

Björgunarsveitarbíll í bakgrunni jarðsjárdrónans. Björgunarsveitirnar voru alltaf til taks ef eitthvað skyldi út af bregða.

Björgunarsveitarbíll í bakgrunni jarðsjárdrónans. Björgunarsveitirnar voru alltaf til taks ef eitthvað skyldi út af bregða.

Dróni með jarðsjá var notaður þar sem ekki mátti ganga um.

Dróni með jarðsjá var notaður þar sem ekki mátti ganga um.

Flókið að lesa úr gögnum

Friðrik bendir á að stærsta verkefnið sé að greina og lesa úr þeim gögnum sem safnast. Starfsfólk Vegagerðarinnar hefur séð um úrvinnslu gagnanna en fengið aðstoð frá framleiðanda jarðsjárinnar að einhverju leiti. „Við vorum fyrst með pólskt forrit en færðum okkur yfir í nýtt nettengt forrit sem heitir Geolitix. Forritið sýnir mjög vel með mismunandi litum hvernig sprungurnar liggja og hvar er að finna holrými.“

Úrvinnslan er þó langt í frá einföld enda getur margt truflað jarðsjánna og gefið falskar niðurstöður, sérstaklega þegar henni er flogið með dróna. „Hæðin yfir jörðu þarf að vera rétt því ef farið er of hátt geta mælingar verið ónákvæmari. Þá geta rafbylgjur, lagnir í jörðu, bílar, byggingar og ýmislegt fleira skekkt niðurstöður.“

Holrými könnuð nánar

Gögnin úr jarðsjánni sem flogið var með drónanum veittu góðar vísbendingar um hvað leyndist undir yfirborðinu. Síðan var nauðsynlegt að kanna nánar þá staði þar sem grunur var um holrými á grunnu dýpi. „Við höfum farið yfir helstu staðina með jarðsjá sem ekið er í kerru yfir svæðið. Næsta skref er að kanna holrýmin betur með jarðtæknibor. Þannig fáum við að vita betur um hvað er að ræða.“

Gögnum úr þessum mælingum er deilt með ÍSOR og Verkís sem vinna þau áfram m.a. inn í kortasjá fyrir Almannavarnir.

Dæmi um niðurstöður frá jarðsjá. Rauðu svæðin sýna holrými á mismunandi dýpi.

Dæmi um niðurstöður frá jarðsjá. Rauðu svæðin sýna holrými á mismunandi dýpi.

Mæling á Nesvegi sem sýni holtými í veginum.

Mæling á Nesvegi sem sýni holtými í veginum.

Góð reynsla í notkun búnaðarins

Starfsfólk Vegagerðarinnar hefur lært mikið á undanförnum mánuðum. „Við vorum fremur nýlega búin að festa kaup á bæði drónanum og jarðsjánni þegar jarðhræringarnar hófust síðasta haust. Við vorum því ekki komin með mikla þjálfun í notkun þeirra.  Þetta hefur verið mjög lærdómsríkt ferli fyrir okkur og við erum komin á stað núna sem við höfðum ætlað okkur að vera á eftir tvö ár,“ segir Friðrik.

Starfsfólkið fékk til dæmis mikla þjálfun í drónaflugi sem mun nýtast vel í næstu verkefnum Vegagerðarinnar. Sem dæmi verður dróninn notaður í jarðsjármælingum fyrir Sundabraut á næstunni. Einnig hefur fengist mikil þjálfun og reynsla í túlkun gagna úr jarðsjánni sem er afar dýrmætt.

Öll gögn sem verða til í þessari vinnu er hægt að flytja inn í hönnunarforrit Vegagerðarinnar og munu því nýtast hönnuðum við að taka tillit til mismunandi jarðtæknilegra aðstæðna í þeim veglínum sem til skoðunar eru. Með þessu sparast bæði tími og peningar.

Þessi grein birtist fyrst í   Framkvæmdafréttum 2. tbl. 2024, nr. 730. Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is

Myndin sýnir stóra sprungu sem liggur í gegnum bæinn og undir nokkur hús.

Myndin sýnir stóra sprungu sem liggur í gegnum bæinn og undir nokkur hús.

Svæði þar sem búið er að fylla í sprungu og búa til "brú" yfir skemmdina.

Svæði þar sem búið er að fylla í sprungu og búa til "brú" yfir skemmdina.

Oddur Sigurðsson, forstöðumaður stoðdeildar, í viðtali hjá Rúv.

Oddur Sigurðsson, forstöðumaður stoðdeildar, í viðtali hjá Rúv.

Starfsmaður Vegagerðarinnar ýtir jarðsjánni á kerru eftir Austurvegi. Slíkt gefur nákvæmari niðurstöður en drónaflugið.

Starfsmaður Vegagerðarinnar ýtir jarðsjánni á kerru eftir Austurvegi. Slíkt gefur nákvæmari niðurstöður en drónaflugið.