15. júní 2023
Jarðganga­áætlun – Tillaga að forgangs­röðun jarðganga­kosta

Vegagerðin hefur unnið heildstæða greiningu á jarðgangakostum á Íslandi. Þar eru valkostir metnir með tilliti til markmiða samgönguáætlunar um greiðar samgöngur, öruggar samgöngur, hagkvæmar samgöngur, umhverfislega sjálfbærar samgöngur og jákvæða byggðaþróun.

 

Þingsályktun um samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034 var samþykkt á Alþingi í júní 2020. Í greinagerð með þingsályktuninni kom fram að stefnt skyldi að því að vinna heildstæða greiningu á jarðgangakostum á Íslandi.

Í júlí 2021 var gefin út yfirlitsáætlun jarðganga þar sem farið var yfir þá jarðgangakosti sem helst hafa verið til umræðu og skoðunar á undanförnum árum. Í framhaldi fékk Vegagerðin Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA) til þess að meta þessa jarðgangakosti. RHA gaf út skýrslu fyrst í júní 2022 og uppfærð útgáfa af skýrslunni var gefin út í maí síðastliðinn.

Í janúar 2023 var skipaður vinnuhópur innan Vegagerðarinnar sem hafði það hlutverk að setja fram tillögu að forgangsröðun jarðgangakosta með markmið samgönguáætlunar til hliðsjónar. Einnig átti að setja fram kostnaðarmat jarðgangakosta, tímalengd einstakra verkefna og setja fram raunhæfa 30 ára framkvæmdaáætlun. Einnig var hlutverk hópsins að setja fram áætlun um endurnýjun, uppfærslu og viðhaldsþörf núverandi jarðganga á þessu 30 ára tímabili.

Skýrsla vinnuhóps um jarðgangaáætlun - Tillaga að forgangsröðun jarðgangakosta

Í vikunni var haldinn kynningarfundur um samgönguáætlun 2024-2038, en þingsályktunartillaga um nýja samgönguáætlun til fimmtán ára, hefur verið kynnt og birt í samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að senda umsögn eða ábendingar til og með 31. júlí 2023. Mælt verður fyrir samgönguáætlun á Alþingi haustið 2023.

Drög að samgönguáætlun 2024-2038. maí 2023