Ísland undirritar stofnsáttmála nýrrar alþjóðastofnunar á sviði vitamála
Ísland hefur skrifað undir samning um að verða aðili að stofnun á nýrri alþjóðastofnun um vitamál. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, undirritaði samning því til staðfestingar fyrr í dag fyrir hönd samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Vegagerðarinnar, sem fara með vita- og hafnamál.
Alls hafa nú um 50 ríki undirritað samning um stofnaðild nýrrar alþjóðlegrar siglingastofnunar, en tæplega tíu ríki hafa þegar fullgilt stofnsáttmálann. Alþjóðastofnunin mun formlega verða að veruleika þegar þrjátíu ríki hafa bæði skrifað undir og fullgilt sáttmálann. Markmið stofnunarinnar er að tryggja öryggi, hagkvæmni og skilvirkni siglinga skipa um allan heim, svo að framtíðarflutningar á sjó verði öruggir og skilvirkir.
Nýja stofnunin breytir hlutverki IALA, alþjóðasamtaka vitastofnana (e. International Association of Marine Aids to Navigation and Lighthouse Authorities), sem framvegis verður alþjóðleg milliríkjastofnun með auknum hlutverkum og auknu alþjóðlegu vægi. Vegagerðin og forverar hennar hafa verið virkir þátttakendur í IALA allt frá stofnun samtakanna árið 1957, þegar þáverandi vita- og hafnamálastofnun var formlega boðið að gerast stofnaðili. Með breytingunni er tryggt að IALA geti tekið fullan þátt í mikilvægu alþjóðlegu starfi við stöðlun siglinga, hönnun siglingamerkja, ljósabúnaðar og annarra siglingaaðstoða, sem hefur mikil áhrif á öryggi skipaumferðar og samgöngur á heimsvísu.
Starfsemin verður uppbyggð á sama hátt og tíðkast hjá öðrum alþjóðastofnunum. Aðalfundur stofnunarinnar („General Assembly“) verður haldinn á þriggja ára fresti og þar eiga öll aðildarríki sæti, með fulltrúa sem taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku. Á aðalfundi er kosið í ráð stofnunarinnar, forseta, varaforseta og aðalritara, sem stýra daglegum málum og tryggja að stefna stofnunarinnar sé í takt við alþjóðleg viðmið og reglugerðir.
Framkvæmdaráð („Council“), sem samanstendur af fulltrúum 23 aðildarríkja ásamt forseta og varaforseta, fer með framkvæmdastjórn stofnunarinnar og hefur það hlutverk að fylgja eftir stefnumótun aðalfundarins, stýra fjárhagsmálum og samþykkja helstu verkefni. Skrifstofa stofnunarinnar („Secretariat“) er leidd af aðalritara, sem sér um daglega stjórnun, samskipti við aðildarríki og framkvæmd verkefna. Þá verða skipaðar ýmsar sérfræðinefndir sem styðja við starfsemi stofnunarinnar, meðal annars á sviði tæknimála, öryggis, fræðslu og þróunar nýrrar tækni til siglingaaðstoðar.
Með stofnuninni er gert ráð fyrir að alþjóðleg siglingastjórnun verði skilvirkari, öryggi á hafi verði tryggt í enn ríkara mæli, og að tæknilegar lausnir og stöðlun siglingamerkja verði samhæfð á heimsvísu. Þetta er mikilvægt fyrir alþjóðaviðskipti, skipaumferð og öryggi sjófarenda, en jafnframt styrkir það stöðu IALA sem leiðandi stofnunar á þessu sviði.
Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, undirritaði stofnsáttmála nýrrar alþjóðastofnunará sviði vitamála fyrir hönd Íslands.
Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, og Íslendingurinn Omar Frits Eriksson, sem gegnir stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra IALA. Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, og Íslendingurinn Omar Frits Eriksson, sem gegnir stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra IALA.