3. nóvember 2022
Hlutur háskól­anna fer stækk­andi

Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar haldin í 21. sinn.

Árleg rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar var haldin í 21. sinn þann 28. október síðastliðinn. Um 260 manns sóttu ráðstefnuna í ár en dagskráin var fjölbreytt að venju, fluttir voru 17 fyrirlestrar og 13 veggspjöld kynnt.

 

Rannsóknaráðstefnan endurspeglar hið mikla starf sem rannsóknasjóður Vegagerðarinnar vinnur en sjóðurinn gegnir mikilvægum þætti í starfsemi stofnunarinnar. Markmið sjóðsins er; að hafa frumkvæði að rannsókna- og þróunarstarfi, sem stuðlar að því að Vegagerðin geti uppfyllt sett markmið á hverjum tíma. Að afla nýrrar þekkingar á sviði vega- og samgöngumála og að stuðla að því að niðurstöður varðandi aðferðir, efnisnotkun og hagkvæmara vinnulag skili sér í stöðlum og breyttu verklagi.

Mikil ásókn er í sjóðinn en árið 2022 bárust 134 umsóknir upp á samtals 403 milljónir króna. Af þessum 134 umsóknum fengu 69 verkefni styrk fyrir samtals 150 milljónir króna en það er fjárveitingin sem sjóðurinn hefur til umráða samkvæmt samgönguáætlun.

Fjárframlag til sjóðsins hefur raunar ekki hækkað frá árinu 2019. Ljóst er að kostnaður við rannsóknir fer síhækkandi og það mun að óbreyttu leiða til þess að sjóðurinn getur styrkt æ færri rannsóknir. Í setningarræðu sinni á ráðstefnunni sagðist Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, vonast til þess að framlag til rannsóknasjóðsins yrði hækkað með tilliti til hækkandi verðlags.

Verkefnin sem fengu úthlutað úr sjóðnum í ár voru af fjölbreyttum toga en flest féllu þau þó undir flokkinn mannvirki eða 52%. Sautján prósent verkefna voru í flokkunum umhverfi og umferð, en verkefni tengd samfélagi voru 7%. Sex prósent verkefnanna falla undir annað og eru það oft verkefni sem Vegagerðin hefur óskað sérstaklega eftir að verði unnin.

Umsóknir í sjóðinn koma víða að. Gaman er að segja frá því að hlutur háskólanna hefur aldrei verið meiri. Hann hefur farið hækkandi síðustu ár en árið 2022 var fjórðungur verkefna sem fékk úthlutað úr rannsóknasjóði á vegum háskólanna.

Stærstur hluti styrkja er veittur verkefnum sem koma frá verkfræðistofum og öðrum opinberum stofnunum eða 38 %. Vegagerðin sjálf stendur einnig fyrir fjölda rannsóknaverkefna og í ár voru þau 33% þeirra verkefna sem fengu styrk úr sjóðnum.

Rannsóknum sjóðsins er skipt í fjóra flokka; mannvirki, umferð, umhverfi og samfélag. Á ráðstefnunni sást glöggt aukin áhersla á verkefni sem tengjast áskorunum nútímans á borð við loftslagsbreytingar, sjálfbærni, betri nýtingu og vistvæna fararmáta. Tónninn var settur strax í upphafi en lykilfyrirlestur ráðstefnunnar var fluttur af Þóru Margréti Þorgeirsdóttur, verkefnastjóri Byggjum grænni framtíð sem fjallaði um vistvænni mannvirkjagerð.

Ágrip, glærur og plaköt frá rannsóknaráðstefnunni 2022 má finna á vefsíðu ráðstefnunnar.

Um 160 manns sóttu ráðstefnuna sem haldin var á Hilton hóteli.

Um 160 manns sóttu ráðstefnuna sem haldin var á Hilton hóteli.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar setti ráðstefnuna.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar setti ráðstefnuna.