Hagabraut byggð upp og klædd
Í sumar hefjast framkvæmdir við verkið Hagabraut (286), Landvegur – Reiðholt. Hagabraut verður styrkt, breikkuð og klædd á 7,5 km kafla.
Framkvæmdin hófst með efnisvinnslu í júní.
Nokkurt ákall hefur verið um uppbyggingu Hagabrautar undanfarin ár. Talsverð byggð er við veginn, bæði íbúabyggð og sumarhúsabyggð auk þess sem skólabíll ekur þessa leið. Vegurinn hefur verið þungur í þjónustu, holumyndun hefur verið mikil og töluvert kvartað yfir ryki frá veginum. En nú horfir til betri vegar.
Útboðið í verkið Hagabraut (286), Landvegur – Reiðholt var auglýst í mars á þessu ári og tilboðin opnuð í apríl. Alls bárust átta tilboð en samið var við lægst bjóðanda, Þjótanda ehf. á Hellu sem bauð tæpar 294 milljónir króna í verkið sem var um 66 milljónum undir áætluðum verktakakostnaði.
Framkvæmdarkaflinn er 7,5 km langur og nær frá Landvegi að Reiðholti.
Verkið felst í styrkingu, breikkun og klæðingu á 7,5 km kafla Hagabrautar í Holtum, í Rangárþingi ytra. Kaflinn nær frá Landvegi og að Reiðholti. Vegurinn er í dag 5 til 6 metra breiður malarvegur en hann verður breikkaður í 6,5 metra. Bundna slitlagið verður 6,3 m breitt og malaaxlir 10 cm til hvorrar hliðar. Einnig verða endurnýjuð ræsi á leiðinni. Vegurinn verður þannig hærri og aðeins breiðari en núverandi vegur, með bundnu slitlagi, bættum sjónlengdum og öruggum hliðarsvæðum. Ekki er um styttingu að ræða heldur fyrst og fremst vegabætur til að auka umferðaröryggi.
Markmið framkvæmdarinnar er að bæta vegasamgöngur á svæðinu, auka umferðaröryggi íbúa og annara vegfarenda á Hagabraut og stuðla að greiðari samgöngum í Rangárþingi ytra.
Gert er ráð fyrir að verkinu verði lokið í lok sumars 2026.
Búið var að gera klárt fyrir efnisvinnslu í byrjun júní.
Helstu magntölur eru:
– Skeringar 69.300 m3
Þar af bergskeringar 30.500 m3
-Fyllingar 23.300 m3
– Fláafleygar 11.600 m3
– Styrktarlag 0/63 19.900 m3
– Burðarlag 0/22 8.300 m3
– Tvöföld klæðing 47.000 m2
– Frágangur fláa 72.300 m2
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 2. tbl. 2025. Hlekkur á blaðið.