26. janúar 2022
Fram­kvæmt fyrir rúma 34 millj­arða árið 2021

Vegagerðin hefur sjaldan staðið fyrir jafn mörgum og viðamiklum framkvæmdum og á síðasta ári. Alls stóð hún fyrir framkvæmdum og viðhaldi á vegakerfinu fyrir rúma 34 milljarða króna en það er töluvert meira en árin á undan. Einnig var töluvert um framkvæmdir við hafnir og sjóvarnargarða.

Framkvæmdastig ársins 2021 var með hæsta móti hjá Vegagerðinni. Fjölmörg stór verkefni voru í framkvæmd og önnur í undirbúningi. Meðal stærstu verkefna má nefna fyrsta áfanga Hringvegar um Kjalarnes frá Varmhólum að Vallá þar sem vegurinn verður breikkaður á fjögurra kílómetra kafla. Annað gríðarstórt verkefni er annar áfangi Hringvegar milli Selfoss og Hveragerðis þar sem vegurinn verður breikkaður á sjö kílómetra kafla, byggðar fimm steyptar brýr og undirgöng auk tveggja reiðganga úr stáli.

Miklar framkvæmdir standa yfir á sunnanverðum Vestfjörðum. Unnið er að Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði og um Gufudalssveit. Tímamót urðu þegar síðustu samningar náðust við landeigendur í Teigsskógi  í lok árs og því ekkert til fyrirstöðu að bjóða út þennan umdeilda kafla og ljúka langri og erfiðri sögu vegagerðar á þessu svæði.

Einbreiðum brúm á Hringvegi fækkaði á síðasta ári þegar opnaðar voru fjórar nýjar brýr á Suðausturlandi; Brunná, Kvíá, Fellsá og Steinavötn. Einbreiðar brýr á Hringvegi eru nú 32 talsins en voru árið 1990 hátt í 140.

Reykjavegur í Bláskógabyggð var formlega opnaður á árinu en lengi hafði legið fyrir að endurbæta hann. Þá var Dettifossvegur byggður milli Hólmatunga og Ásheiðar.

Kláruð voru fyrstu verkefnin sem tilheyra Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Í lok árs 2020 kláruðust framkvæmdir við Reykjanesbraut í Hafnarfirði en í byrjun árs 2021 lauk gerð Hringvegar milli Skarhólabrautar og Langatanga í Mosfellsbæ og Suðurlandsvegar við Bæjarháls.

Fjöldi verkefna var einnig boðinn út en meðal þeirra stærstu voru þverun Þorskafjarðar, ný brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi, brýr yfir Hverfisfljót og Núpsvötn og brú yfir Stóru Laxá.

Ítarlegri lista yfir nýframkvæmdir ársins 2021 má finna hér fyrir neðan.

Framkvæmdir við hafnir og sjóvarnargarða

Á árinu hefur verið unnið að mörgum verkefnum í höfnum landsins, fyrir utan Faxaflóahafnir, Hafnafjarðarhöfn og Fjarðabyggðahafnir. Kostnaður við hafnarframkvæmdir sem nutu ríkisframlags árið 2021 voru um 2,3 milljarðar króna, hlutdeild ríkisins af því var um 1,2 milljarður Með stærstu verkefnum má nefna vinnu við undirbúning framkvæmda í Þorlákshöfn þar sem unnið er að endurbyggingu Svartaskersbryggju og lengingu Suðurvarargarðs.

Meðal annarra stórra hafnaverkefna  sem unnið var að á árinu má nefna;  endurbyggingu Norðurtanga á Ólafsvík, lengingu Norðurgarðs og uppsetningu stálþils á Grundarfirði. Á Sauðárkróki var unnið að upptekt á þvergarði og lengingu Norðurgarðs en einnig var keyptur nýr dráttarbátur fyrir Sauðárkrókshöfn. Á Sundabakka á Ísafirði hófst rekstur á lengingu stálþils um 300 m. Í Þórshöfn var lokið við dýpkun í höfninni sem tryggir að stærstu uppsjávarskip geti komið að bryggju óháð sjávarstöðu og svo var unnið að viðhaldsdýpkun í Höfn í Hornafirði.

Sjóvarnir, rannsóknir og Landeyjahöfn

Kostnaður við sjóvarnir 2021 var rúmlega 190 m.kr. Framkvæmt var á átján stöðum á landinu en stærstu verkefnin voru í Skagafirði, Dalvíkurbyggð, Grenivík, Fjarðarbyggð, Grindavík og Suðurnesjabæ.

Um 130 m.kr. var varið til hafna- og strandrannsókna á árinu. Verkefnin voru um fjörutíu talsins. Þar má helst nefna öldufarsrannsóknir í Þorlákshöfn, gerð hafnarlíkans og þróun framtíðarsýnar fyrir Vestmannaeyjahöfn, rannsókn á sjávarhæðarmælum og þróun vefsins sjolag.is.

Landeyjahöfn er eina höfnin sem er í eigu ríkisins. Heildarkostnaður við höfnina árið 2021 voru 467 m.kr. vó þar þyngst kostnaður við dýpkun og endurbætur á höfninni. Dýpkunarkostnaður 2021 var þó töluvert minni heldur en undanfarin ár. Einnig voru settir upp nýir fenderar og flóðvörn endurbætt.

Kostnaður við  aðrar ferjubryggjur á landinu voru tæpar 5 m.kr.

 

Nýframkvæmdir í vegagerð sem unnið var að á árinu 2021

Höfuðborgarsvæði

 • Hringvegur um Kjalarnes, 1. áfangi, Varmhólar-Vallá.
  • Breikkun og aðskilnaður akstursstefna með vegriði. Í verkinu eru hringtorg, tvenn undirgöng, áningarstaður, hliðarvegir og stígar.
 • Hafnarfjarðarvegur, Vífilsstaðavegur-Lyngás.
  • Endurbætur og breikkun á vegum og gatnamótum, gerð hringtorga, göngustíga og undirganga.
 • Suðurlandsvegur, Fossvellir-Lögbergsbrekka.
  • Tvöföldun og aðskilnaður akstursstefna með vegriði.
 • Bústaðavegur.
  • Breytingar á aksturs-, hjóla- og gönguleiðum við Kringlumýrarbraut.

Suðursvæði

 • Hringvegur, Selfoss-Hveragerði, 2. áfangi, Biskupstungnabraut-Gljúfurholtsá.
  • Breikkun og aðskilnaður akstursstefna með vegriði. Lengd útboðskaflans er 7,1 km. Um er að ræða nýbyggingu Hringvegar að hluta og endurgerð núverandi Hringvegar að hluta, gerð nýrra vegamóta við Kirkjuferjuveg og Hvammsveg eystri, gerð hringtorgs við Biskupstungnabraut, nýbyggingu Ölfusvegar, breytingu Þórustaðavegar og Biskupstungnabrautar sem og gerð heimreiða. Hluti verksins er bygging fimm steyptra brúa og undirganga ásamt tveggja reiðganga úr stáli.
 • Reykjavegur, Biskupstungnabraut-Laugarvatnsvegur.
  • Breikkun og endurbygging Reykjavegar í Bláskógabyggð auk byggingar brúar á ána Fullsæl. Lengd kaflans er 8 km.
 • Skeiða- og Hrunamannavegur.
  • Hringtorg á Flúðum.
 • Skeiða- og Hrunamannavegur, Einholtsvegur-Biskupstungnabraut.
  • Endurbygging og bundið slitlag á 4,3 km malarveg.
 • Eyrarbakkavegur.
  • Hringtorg við Hólastekk á Selfossi.
 • Hringvegur um Jökulsá á Sólheimasandi.
  • Bygging brúar á Jökulsá á Sólheimasandi ásamt endurgerð vegarkafla beggja vegna.
 • Hringvegur um Hverfisfljót og Núpsvötn.
  • Bygging brúa á Hverfisfljót og Núpsvötn ásamt endurgerð vegarkafla beggja vegna.
 • Skeiða- og Hrunamannavegur um Stóru-Laxá.
  • Bygging brúar yfir Stóru-Laxá ásamt endurgerð vegarkafla beggja vegna.
 • Breikkun brúa á Suðursvæði.
  • Hringvegur, ný brú á Brunná.
 • Tengivegir, bundið slitlag á Suðursvæði
  • Holtsvegur, Hunkubakkar-Fjaðrárgljúfur. 2,2 km kafli.
  • Dyrhólavegur um Háey. 1,3 km kafli.
  • Urriðafossvegur, Hringvegur-Urriðafoss. 1,2 km kafli.
  • Langholtsvegur og Auðholtsvegur. 2,7 km kafli.
  • Hrunavegur, 3,6 km kafli frá Skreiða- og Hrunamannavegi að Kaldbaksvegi.
  • Oddavegur, Oddi-Ártúnsvegur. 2,8 km kafli.
  • Rangárvallavegur, 2,4 km kafli frá Gunnarsholti að Hróarslæk.

Vestursvæði

 • Hringvegur um Heiðarsporð (Biskupsbeygja).
  • Endurbygging á um 2 km kafla Hringvegar.
 • Snæfellsnesvegur um Skógarströnd, Ketilstaðir-Gunnarsstaðir.
  • Bundið slitlag á malarveg. Um er að ræða 5,4 km veg ásamt tveimur nýjum brúm yfir Skraumu og Dunká.
 • Vestfjarðavegur um Dynjandisheiði, 1. áfangi
  • Verkið skiptist í tvo kafla. Annars vegar um 5,7 km langan kafla við Þverdalsá og hins vegar um 4,3 km langan kafla fyrir Meðalnes.
 • Vestfjarðavegur um Gufudalssveit.
  • Gufudalsá-Skálanes. Endurbygging og breikkun á um 6,6 km kafla frá Gufudalsá að Skálanesi. Kaflinn frá Gufudalsá að Melanesi verður ekki hluti af framtíðar Vestfjarðavegi en mun þjóna umferð um Gufudal þar til þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar verður lokið.
  • Kinnarstaðir-Þórisstaðir. 2,7 km kafli yfir Þorskafjörð. 260 m löng steypt brú.
  • Djúpadalsvegur. Nýbygging Djúpadalsvegar á um 5,7 km kafla.
 • Vestfjarðavegur um Bjarnadalsá í Önundarfirði.
  • Breikkun brúa, bætt umferðaröryggi.
 • Djúpvegur um Hattardalsá
  • Nýbygging á 2,6 km vegarkafla ásamt smíði á nýrri brú á Hattardalsá.
 • Bíldudalsvegur um Botnsá í Tálknafirði.
  • Breikkun brúa, bætt umferðaröryggi.
 • Akranesvegur, Faxabraut, hækkun vegar og sjóvörn.
  • Endurbygging vegkafla ásamt gerð grjótvarnar.
 • Örlygshafnarvegur um Hvallátra.
  • Nýbygging á um 2 km kafla um Hvallátur.   
 • Tengivegir, bundið slitlag á Vestursvæði
  • Mófellsstaðavegur, Borgarfjarðarbraut-Hreppslaug. 1,6 km kafli.
  • Skorradalsvegur, Vatnsendahlíð-Hvammur.
  • Þverárhlíðarvegur, Borgarfjarðarbraut-Högnastaðir. 8,5 km kafli.
  • Hvítársíðuvegur, Kalmanstunga-Hvítá. 2,8 km kafli.
  • Álftaneshreppsvegur, Snæfellsnesvegur-Leirulækur. 7,5 km kafli.

Norðursvæði

 • Þverárfjallsvegur um Refasveit og Skagastrandarvegur um Laxá.
  • Bygging nýs Þverárfjallsvegar í Refasveit frá Hringvegi norðan Blönduóss að núverandi Þverárfjallsvegi, um 8,5 km að lengd. Einnig nýr Skagastrandarvegur frá nýjum Þverárfjallsvegi að Skagastrandarvegi norðan Höskuldsstaða, um 3,3 km að lengd. Á Skagastrandarvegi verður byggð ný 106 m löng brú á Laxá í Refasveit.
 • Dettifossvegur, Hólmatungur-Ásheiði.
  • Nýbygging á 11,5 km kafla auk endurbygging vegtenginga í Hólmatungur og Vesturdal.
 • Norðausturvegur, Finnafjörður-Bakkafjörður.
  • Endurbygging og klæðing á 20,5 km kafla.
 • Hörgárdalsvegur, Hólkot-Skriða.
  • Bygging Hörgárdalsvegar á um 3,7 km kafla ásamt byggingu tveggja brúa.
 • Tengivegir, bundið slitlag á Norðursvæði.
  • Reykjastrandarvegur, 5,5 km kafli.

Austursvæði

 • Jökuldalsvegur, Gilsá-Arnórsstaðir.
  • Nýbygging/endurbygging vegar á um 4 km kafla.
 • Hringvegur um Þvottárskriður.
  • Uppsetning á 385 m af stálþili og 190 m af forsteyptum vegriðseiningum, hreinsun vegrása og gerð skeringa.
 • Borgarfjarðarvegur, Eiðar-Laufás.
  • Verkið felst í endurbyggingu á 14,7 km kafla vegarins.
 • Skriðdals- og Breiðdalsvegur um Gilsá á Völlum.
  • Bygging 46 m langrar brúar á Gilsá á Völlum auk vegtenginga.
 • Hringvegur um Lagarfljót.
  • Viðgerðir á Lagarfljótsbrú.
 • Hlíðarvegur, Öxl-Hofsá.
  • Endurbygging á 3,3 km löngum kafla á Hlíðarvegi við Vopnafjörð.
 • Hringvegur um Steinavötn, Fellsá og Kvíá.
  • Verkið felst byggingu nýrra brúa yfir Steinavötn, Fellsá og Kvíá.
 • Tengivegir, bundið slitlag á Austursvæði.
  • Hlíðarvegur, Öxl-Hofsá. Bundið slitlag, bætt umferðaröryggi. 3,3 km kafli við Vopnafjörð.
  • Upphéraðsvegur um Ásklif, 3,7 km kafli.

 

Meðal stærstu verkefna er fyrstai áfangi Hringvegar um Kjalarnes frá Varmhólum að Vallá þar sem vegurinn verður breikkaður á fjögurra kílómetra kafla.

Meðal stærstu verkefna er fyrstai áfangi Hringvegar um Kjalarnes frá Varmhólum að Vallá þar sem vegurinn verður breikkaður á fjögurra kílómetra kafla.

Lenging Norðurgarðs og uppsetning stálþils á Grundarfirði.

Lenging Norðurgarðs og uppsetning stálþils á Grundarfirði.