22. júní 2023
Fram­kvæmd­ir við hjóla­stíga á höfuð­borgar­svæð­inu

Hjólreiðar eru skemmtileg, hagkvæm og umhverfisvæn útivist sem stuðlar að bættri lýðheilsu. Mikilvægur þáttur í því að auðvelda fólki á öllum aldri að komast leiðar sinnar á hjóli um höfuðborgarsvæðið er uppbygging stofnhjólaleiða sem tengja saman sveitarfélög, hverfi og atvinnusvæði.

 

Á höfuðborgarsvæðinu hafa verið skilgreindar sérstakar stofnhjólaleiðir sem ná yfir stóran hluta þess. Uppbygging þeirra heyrir að miklu leyti undir Samgöngusáttmálann sem gerður var milli ríkis og sveitarfélaganna árið 2019. Útfærsla stofnhjólaleiðanna var unnin af vinnuhópi á vegum Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu og var litið sérstaklega til samgönguhjólreiða við skipulagningu þeirra. Hjólaleiðirnar þurfa að uppfylla viss skilyrði um hönnun til að tryggja umferðaröryggi og gæði.

Við undirbúning stofnhjólaleiðanna voru gerðar sérstakar talningar til að meta hvar mesta þörfin væri á að aðskilja hjólandi og gangandi vegfarendur og unnið út frá þeim. Í kjölfarið voru umferðarmestu staðirnir settir í forgang og einnig horft til þess hvar Borgarlínan kemur til með að vera en gert er ráð fyrir að meðfram henni verði góðar göngu- og hjólaleiðir.

Stígar og undirgöng

Á næstu vikum og mánuðum bætast við nýir göngu- og hjólastígar og undirgöng víða um höfuðborgarsvæðið. Í heildina eru þetta 2,3 km af hjólastígum, sem liggja um tvenn undirgöng.

 • Tvístefnu hjólastígur í Elliðaárdal í Reykjavík, sem nær frá gömlu Vatnsveitubrúnni að Grænugróf, verður tilbúinn á næstu vikum, en framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarna mánuði.
 • Undirgöng við Bústaðaveg 151-153, fyrir ofan Sprengisand í Reykjavík, fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, ásamt nýju aðskildu stígakerfi eru á lokametrunum.
 • Aðskildir göngu- og hjólastígar meðfram Strandgötu í Hafnarfirði, sem ná frá hringtorgi við Hvaleyrarbraut og að Strandgötu við Reykjanesbraut verða að öllum líkindum tilbúnir snemma í sumar. Framkvæmdir hafa staðið yfir frá því í fyrra og miðar vel áfram.
 • Undirgöng við Arnarneshæð í Garðabæ fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur verða tilbúin um mitt sumar. Framkvæmdir við undirgöngin hófust í fyrrasumar en tafir urðu meðal annars vegna langrar kuldatíðar í vetur.

Stígar og undirgöng í undirbúningi

 • Áætlað er að framkvæmdir vegna Arnarnesvegar, 3. áfanga, hefjist í sumar. Samhliða nýjum Arnarnesvegi verður byggt upp nýtt, aðskilið stígakerfi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
 • Ný brú verður byggð yfir Dimmu, sem er sá hluti Elliðaáa sem rennur vestan Víðivalla. Nýja brúin mun leysa af gamla lagnabrú sem er barn síns tíma.
 • Meðfram Skógarhlíð í Reykjavík stendur til að leggja nýja, aðskilda göngu- og hjólastíga og vonir standa til að framkvæmdir hefjist í sumar.
 • Frá Bústaðavegi að Fossvogi við suðurhlíðar verða lagðir nýir, aðskildir göngu- og hjólastígar. Undirbúningur stendur yfir og stefnt er á að framkvæmdir geti hafist í haust.
 • Nýir aðskildir göngu- og hjólastígar í Elliðaárdal, frá Grænugróf og að Dimmu, eru í undirbúningi og stefnt er á að framkvæmdir geti hafist í haust.

Stígar og undirgöng á næstu árum

 • Meðfram Ásbraut í Kópavogi og við Hábraut að Hamraborg eru nýir hjólastígar í undirbúningi. Stefnt er á útboð í byrjun árs 2024 og að framkvæmdir hefjist það sama ár.
 • Stefnt er á að hefja hönnun á næsta ári á nýjum aðskildum göngu og hjólastígum vestan Hafnafjarðarvegar í Garðabæ við Tún, ásamt stígum vestan Reykjavíkurvegar í Hafnarfirði við Norðurbæ.
 • Til skoðunar er að hefja hönnun á nýju stígakerfi við Álfaskeið, Bæjarhraun, Fjarðarhraun og við Kaplakrika í Hafnarfirði á næsta ári.
 • Byrjað er að skoða hönnun á nýjum hjólaleiðum við Nesveg í Reykjavík og á Seltjarnarnesi sem kemst vonandi til framkvæmda á næstu árum.
 • Til skoðunar er að hefja framkvæmdir á stíg við Hafnarfjarðarveg við voginn en undirbúningur er stutt á veg kominn og ljóst að framkvæmdir geta ekki hafist fyrr en eftir ár.

Þá verður ráðist í stígaframkvæmdir samhliða uppbyggingu Borgarlínunnar. Um er að ræða stíga á Kársnesi við Bakkabraut, Vesturvör og suðurströnd Kársnes. Um fyrirhugaða Fossvogsbrú verða góðar göngu- og hjólaleiðir milli Kópavogs og Reykjavíkur. Þá verða lagðir stígar um Dalbraut, frá Fífu að Dalvegi í Kópavogi. Fyrirhugaðir eru stígar í Reykjavík við gömlu Hringbraut, við Hlíðarenda og Lækjargötu. Stefnt er á að þessar framkvæmdir hefjist 2024.

Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 3. tbl. 2023, nr. 725 . Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is

Stofnhjólaleiðanet á Höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdaáætlun.

Stofnhjólaleiðanet á Höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdaáætlun.