21. desember 2023
Byggja göngu­brú yfir Ytri-Rangá við Hellu

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar vinnur nú að gerð göngu- og hjólabrúar yfir Ytri-Rangá við Hellu. Göngubrúin verður fest utan á núverandi brú sem byggð var árið 1960. Öryggi gangandi og hjólandi eykst til muna en auk þess er göngubrúnni ætlað að tengja þorpið við nýtt hverfi sem á að rísa vestan megin við ána.

„Verkið hefur tekið aðeins lengri tíma en við ætluðum þar sem steypuvinna var mun meiri og erfiðari en reiknað var með,“ segir Sigurjón Karlsson, yfirverkstjóri brúarvinnuflokksins. Verkið hófst í júní en lokið var við múrvinnu í september. „Við gerðum við steypuskemmdir í bríkum, gerðum við steypu í gangbrautum sem liggja meðfram akbrautum brúarinnar, gerðum við skemmdir í landstöplum og steyptum upp hliðarvegg að austan undan straum.“

Eftir að steypuviðgerðum lauk hefur verið unnið að uppsetningu göngubrúarinnar. Verkið snýst um að bora göt í bríkur og steypta bita svo hægt sé að festa við svokölluð stálknekti sem halda uppi nýja brúargólfinu. „Stálknektin koma tilbúin en við höfum smíðað gólfeiningarnar sjálfir og híft þau á knektin. Við þurftum að festa gólfið neðan frá og gerðum það með körfubíl.“ Sigurjón segir verklok aðeins óljós þar sem bið verður á að fá stálið í handriðin.

Umferð stýrt með ljósum

Mikil umferð er um brúna. Árið 2022 var árdagsumferð um 4700 bílar (meðalumferð á dag yfir árið) og hefur aukist umtalsvert á síðustu tveimur árum en árið 2020 var umferðin um 3400 bílar á dag.

Sigurjón segir vinnuna hafa gengið ótrúlega vel þrátt fyrir nálægð við þessa miklu umferð. „Menn eru ótrúlega tillitssamir þegar þeir aka framhjá okkur.“

Nauðsynlegt hefur verið að loka annarri akreininni á brúnni frá mánudagsmorgni til fimmtudagskvölds þann tíma sem brúarvinnuflokkurinn hefur verið að störfum. Umferðinni er stjórnað með ljósum. „Þetta hefur gengið mjög vel þó fólk verði sumt skiljanlega dálítið pirrað. En við tökum niður lokunina á fimmtudagskvöldum og því hefur brúin verið opin alla föstudaga, laugardaga og sunnudaga þegar umferðin er hvað mest.“

Gangandi vegfarendum hætta búin á gömlu brúnni

Brúin á Ytri Rangá er 84 m löng og byggð árið 1960. Akbrautin er 7 metra breið og heildarbreidd brúarinnar er 9,62 m. Nokkur gangandi umferð hefur verið um brúna, til dæmis er algengt að ferðamenn gangi úr bænum til að skoða Hellana á Hellu. Hingað til hafa gangandi vegfarendur þurft að notast við mjóa göngustíga sem liggja meðfram akbrautinni. Öryggi þeirra hefur þótt ábótavant en með nýju göngubrúnni mun það stóraukast.

Nýja göngubrúin á einnig að greiða fyrir samgöngum gangandi og hjólandi í tengslum við áform um uppbyggingu nýrra hverfa vestan megin við Ytri-Rangá.

Tenging við göngu og hjólastíga

Sveitarfélagið Rangárþing ytra hefur í samvinnu við Landsnet og Vegagerðina unnið að undirbúningi hjóla- og göngustígs á milli Hellu og Hvolsvallar sem til skoðunar er að leggja á næstu árum. Vegagerðin styrkir sveitarfélagið í þeirri framkvæmd.

Fyrsta skrefið er að gera stígatengingar við nýju göngubrúna og eru framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins hafnar. Stígatengingarnar má sjá á meðfylgjandi teikningu.

Þessi grein birtist fyrst í   Framkvæmdafréttum 6. tbl. 2023, nr. 728 . Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is

Unnið við að setja upp gólf göngubrúarinnar.

Unnið við að setja upp gólf göngubrúarinnar.

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar sér um uppsetningu göngubrúarinnar.

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar sér um uppsetningu göngubrúarinnar.