24. maí 2023
Brú yfir Skjálf­andafljót lokuð þung­um bílum

Frá og með næstu mánaðamótum verður brúin yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði í Kinn lokuð fyrir vöru- og fólksflutningabifreiðar. Unnið er að undirbúningi nýrrar brúar en lokunin gildir þar til hún kemst í gagnið.

Skjálfandafljótsbrú

Frá og með næstu mánaðamótum verður brúin yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði í Kinn lokuð fyrir vöru- og fólksflutningabifreiðar. Unnið er að undirbúningi nýrrar brúar en lokunin gildir þar til hún kemst í gagnið. Steypuskemmdir á brúnni hafa aukist hraðar en vænta mátti og því er gripið til þessa ráðs. Heimilaður hámarkshraði er 30 km/klst. og eru vegfarendur hvattir til þess að virða þann hraða.

Brúin verður lokuð þungum bílum og því nær einungis opin fólksbílum. Vöru- og fólksflutningabifreiðum verður óheimilt að aka yfir brúna. Þeim bifreiðum verður beint á Hringveg (1) um Fljótsheiði og Aðaldalsveg (845). Mælt er með því að sem flestir vegfarendur fari þá leið sem er einungis 5,5 km lengri. Með fólksflutningabifreiðum er átt við bifreiðar sem taka fleiri en átta farþega.

Miðað er við skilgreiningu umferðarlaga um vörubifreið sem er: „Bifreið sem aðallega er ætluð til farmflutninga, er með leyfða heildarþyngd meiri en 3,5 tonn og er að hámarki fyrir átta farþega. Sama gildir um flutningabifreið.“

Heimilt er að aka yfir brúna á dráttarvél.

Þungaflutningar með þyngstu ökutækjum hefur þegar verið takmarkaður yfir brúna og hefur verið þannig um langa hríð. Með aðgerðum á árunum 2015 og 2016 var burðarþol brúarinnar styrkt. Töluverðar steypuskemmdir hafa hins vegar orðið á brúnni að undanförnu og vegrið er ótryggt. Brúin er komin til ára sinna en hún er síðan árið 1935. Ekki er unnt að gera við eða styrkja brúna nema með miklum tilkostnaði og tímafrekum viðgerðum. Því er brugðið á það ráð að takmarka umferð um brúna. Hámarkshraði verður áfram 30 km/klst. yfir brúna.

Áformað er að hefja framkvæmdir við nýja brú yfir fljótið árið 2026, undirbúningur fyrir það verk er í gangi. Miðað við þessi áform yrði brúin tekin í notkun á árinu 2028.

Reikna má með að þessar takmarkanir verði í gildi þar til ný brú hefur verið tekin í notkun og sú gamla aflögð.

Fjöldi varúðarskilta verður settur upp við brúna, þar sem varað er við ástandi hennar og ökuhraði lækkaður. Mikilvægt er að vegfarendur virði þær takmarkanir. Hjáleiðir fyrir stærri bifreiðar verða merktar sérstaklega beggja vegna, sjá mynd hér fyrir neðan.