Árið 2000 var gerð meginbreyting á framkvæmd mats á umhverfisáhrifum þegar gerð
matsáætlana og formleg afgreiðsla þeirra var bundin í lög. Þessi breyting hafði það m.a. að
markmiði að einfalda málsmeðferð, koma snemma af stað umræðu um mögulega valkosti,
draga fram réttar áherslur í matsvinnunni og auka skilvirkni hennar og minnka líkur á því að
upplýsingar vantaði í matsskýrslu sem kynni að tefja matsferlið. Með athugun á
matsáætlunum, matsskýrslum, vinnutímaskráningu og kostnaðartölum var í þessari rannsókn
reynt að varpa ljósi á hvaða árangri innleiðing matsáætlana í matsferlið hefur skilað og hver
áhrif hennar hafa verið á umsýslu og kostnað við ferlið. Samtímis voru einnig kannaðir þættir
eins og kostnaður við afgreiðslu Skipulagsstofnunar á matsgögnum og gerður samanburður á
tímabilunum fyrir og eftir tilkomu matsáætlana. Könnuð var lengd matsskýrslna og
matsáætlana og skipting matsskyldra framkvæmda eftir flokkum. Auk þess voru skoðaðir
þættir eins og rannsóknarþörf við mat á umhverfisáhrifum, hvernig kynningu og samráði var
háttað og vinnsluferli matsvinnu. Þá var unnið úr kostnaðargögnum vegna mats á
umhverfisáhrifum frá Vegagerðinni og Landsvirkjun.
Rannsóknin leiddi m.a. í ljós að kostnaður vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmda hefur
farið vaxandi frá árinu 1994 til 2005 og eru líkur á því að tilkoma matsáætlana í matsferlið hafi
aukið kostnað fremur en dregið úr honum. Þá kemur fram að afgreiðslukostnaður
Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum vegna vegagerðar er verulega lægri en
vegna virkjana og háspennulína. Í yfirgnæfandi meirihluta þeirra framkvæmda sem afgreiddar
hafa verið í matsferlinu hefur verið talin þörf á að ráðast í nýjar rannsóknir eða úttektir til að
unnt sé að segja fyrir um áhrif framkvæmdanna á umhverfið. Algengt var að vinna við þessar
nýju rannsóknir væri þegar hafin eða henni lokið þegar matsáætlun var lögð fram til afgreiðslu
hjá Skipulagsstofnun. Athugun á efnistökum og gæðum matsáætlana gaf ekki tilefni til
víðtækra ályktana, en hún gaf þó vísbendingar um að af þeim efnisáherslum sem kannaðar
voru virtist framkvæmdalýsing almennt vera fyrirferðamikil og skipa stóran sess í
matsáætlunum framkvæmdaraðila. Aðrir mikilvægir efnisþættir fengu minni umfjöllun, s.s.
umfjöllun um kosti, vinsun, gagnaöflun og samráð. Þá leiddi rannsóknin jafnframt til þeirrar
niðurstöðu að kynning á matsáætlun og samráð við leyfisveitendur, almenning og aðra
umsagnaraðila þyrfti að hefjast fyrr á undirbúningsstigi framkvæmdar.
Óli Halldórsson, Hólmfríður Sigurðardóttir, Ásmundur Gíslason
Skipulagsstofnun
Mat á umhverfisáhrifum. Innleiðing matsáætlana. – Gæði og árangur – Skipulagsstofnun/Þekkingasetur Þingeyinga