PDF · Útgáfa VMST-N/0503 — mars 2006
Áhrif brúa- og ræsa­gerðar á ferð­ir ferskvatns­fiska og búsvæði þeirra, Veiði­mála­stofn­un Norður­lands­deild, sept­ember 2005

Áhrif brúa- og ræsagerðar á ferðir ferskvatnsfiska og búsvæði þeirra voru könnuð á
þremur svæðum á Íslandi, í Skagafirði, Fljótum og á Ströndum. Alls voru 62 þveranir
(ræsi, brýr og stokkar) skoðaðar í 37 vatnsföllum, þar af hýstu 32 fisk. Niðurstöður voru
mjög mismunandi eftir þverunargerð, en virtust nokkuð sambærilegar milli
rannsóknarsvæða. Ræsi höfðu mikil áhrif á vatnsföll, en brýr afar takmörkuð. Hlutfall
hámarksbreiddar ræsa af meðalflóðfari (0,42:1) og meðalárfari (0,54:1) sýndu að ræsi
voru að meðaltali 2 sinnum þrengri en flóðfar og árfar og meðalstraumhraðahlutfall
(2,14:1) gaf til kynna að straumur í ræsum væri meira en 2 sinnum hærri en í árfari ofan
og neðan þeirra. Þessi hlutföll voru öll marktækt frábrugðin hlutfallinu 1:1 (engin áhrif).
Sömu hlutföll fyrir brýr sýndu ekki nein marktæk frávik frá 1:1 (flóðfarshlutfall: 1,00:1,
árfarshlutfall: 2,00:1 (marktækni ekki reiknuð því þverun mun breiðari en árfar) og
meðalstraumhraðahlutfall: 1,09:1). Á sama hátt var mikill munur á því hvort þverun var
geng fiski eftir gerð hennar. Nær engin vandamál virtust hafa skapast fyrir far fiska um
brýr, en 40% ræsa hindruðu far fullorðinna laxfiska og 83% ferðir laxfiskaseiða og
annarra tegunda en laxfiska. Hlutfall ófiskgengra stokka var mjög hátt, en sýnastærð
þeirra einnig lág. Algengasta ástæða þess að fullorðnir laxfiskar komust ekki um ræsi var
of lítil meðaldýpt í ræsum (36%) og meðalstraumhraði hindraði laxfiskaseiði og aðrar
tegundir í 54% ræsa (breytur einar og sér eða ásamt öðrum). Of há fallhæð og grjót við
útfall voru næst algengustu ástæðurnar hjá báðum aldursflokkum. Mun stærra búsvæði
tapaðist undir ræsi en brýr á öllum rannsóknarsvæðunum nema í Skagafirði, en ef
niðurstöður fyrir eina brú þar er fráskilin, fæst sama niðurstaða og fyrir hin svæðin. Ræsi
og stokkar klipptu á farleiðir sjógöngustofna í 8 vatnsföllum, og töpuðu þessir stofnar oft
meiru en 50% af búsvæðum sínum. Fullorðinn laxfiskur komst ekki um þveranir í 41%
vatnsfalla og í 62% vatnsfalla voru þveranir ógengar laxfiskaseiðum og öðrum tegundum.
Þessi frumúttekt á áhrifum brúa- og ræsagerðar á líffríki í ám og lækjum á Íslandi sýnir
ótvírætt að vandamál er lúta að slíkum framkvæmdum eru fyrst og fremst tengd ræsum.

Skjámynd 2025-07-09 111640
Höfundur

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Bjarni Jónsson, Eik Elfarsdóttir, Karl Bjarnason

Skrá

ahrif-brua-og-raesagerdar-a-ferdir-ferskvatnsfiska.pdf

Sækja skrá

Áhrif brúa- og ræsagerðar á ferðir ferskvatnsfiska og búsvæði þeirra, Veiðimálastofnun Norðurlandsdeild, september 2005