Ísland er víðast vogskorið land og einkenna fremur þröngir firðir austur- og vesturhluta
landsins. Í gegnum tíðina hafa vegfarendur enda þurft að þræða götur fyrir firði og nes.
Sjóleiðin hefur þá oft á tíðum verið styttri. Sú staðreynd að hægt er að stytta veg um
fjarðalandslag með því að þvera firðina hefur hvatt menn til að gera landleið yfir þá.
Nokkur dæmi eru um slíkar þveranir fjarða hér á landi og er hvað þekktasta dæmið
Borgarfjarðarbrú á Vesturlandi. Þar var Hringvegurinn lagður þvert yfir Borgarfjörð í stað
þess að liggja um sveitir Borgarfjarðar.
Ýmsar útfærslur fjarðaþverana má finna um heiminn en hér á landi hefur jafnan verið farin
sú leið að gerð er vegfylling út í fjörð beggja vegna og brú síðan byggð á milli. Þverun
Hvalfjarðar með jarðgöngum er dæmi um aðra leið til að þvera fjörð. Erlendis eru firðir
gjarnan þveraðir með brúm sem standa einungis á stólpum (án vegfyllingar) og má finna
dæmi um þekktustu brýr heims í þeim flokki t.d. Golden Gate brúin í San Francisco (2.743
m löng) og Stórabeltisbrúin í Danmörku, sem er 6.790 m löng. Í slíkum tilvikum er jafnan
um þverun siglingaleiða að ræða.
Helsti ávinningur af því að þvera fjörð felst í styttingu vegalengda, skemmri ferðatíma og
fækkun umferðarslysa. Stytting vegalengda hefur oft á tíðum í för með sér aukna arðsemi
samgöngumannvirkja
Agnar Ingólfsson, Jörundur Svavarsson, Hlynur Óskarsson, Kristinn Magnússon, Björn Gunnarsson, Kristján Kristjánsson, Björn Stefánsson, Sebastian Peters
Þverun fjarða – Áhrif á náttúru, landslag og landnotkun