PDF · Útgáfa 100628-001-V01 — apríl 2023
Áhrif lotu­tíma á ljós­astýrð gatna­mót

Í fyrri hluta verkefnis var litið til fræðilegrar umfjöllunar um hönnun ljósastýringa og áhrif
mismunandi lotutíma á afköst og þjónustustig gatnamóta. Aukið álag á gatnakerfi borga
hefur skapað ríkari þörf og mögulegan ávinning fyrir bestun ljósastýrðra gatnamóta til að
lágmarka tafir og uppsöfnun í kerfinu. Hérlendis eru lotutímar almennt fastir og yfirleitt ekki
lengri en 90 sek. Erlendis þekkist að á umferðarþungum gatnamótum séu lotutímar lengri.
Almennt er þó talið hagkvæmt að ljósastýringar hafi sem stystan lotutíma til að tryggja öryggi
allra vegfarenda, þannig hafa borgir erlendis sett viðmið er varða hámarkslotutíma, t.d. 100
sek í Svíþjóð. Einnig eru ljósastýringar nú til dags alla jafnan umferðarstýrðar, þ.e. að þau
bregðast við umferð hverju sinni.
Í síðari hluta verkefnisins voru framkvæmdar umferðarhermanir í forritinu PTV Vistro á
tveimur gatnamótun innan Reykjavíkur þar sem afköst og þjónustustig þeirra voru borin
saman með mislöngum lotutímum. Litið var annars vegar til gatnamóta Kringlumýrarbrautar-
/Suðurlandsbrautar og hins vegar gatnamóta Kringlumýrarbrautar/Háaleitisbrautar. Bæði
þegar litið var á gatnamótin með sem einstök ljós (e. local optimization) og samtengingu
þeirra (e. network optimization) var niðurstaðan sú að lotutímar á bilinu 80-95 sek gæfu
bestu nýtingu, þjónustustig og lægstu meðaltafir. Á það við í þeim tilfellum þar sem gert var
ráð fyrir að fyrirkomulag þeirra héldist óbreytt, þ.e. að gangandi vegfarendur geti ekki þverað
gatnamótin í heild sinni heldur þurfi að nýta sér miðeyjur. Í þeim sviðsmyndum þar sem
rýmingartími gangandi vegfarenda var lengdur, þannig að gangandi gætu þverað báðar
akstursstefnur í einu, var niðurstaða bestunar sú að lotutími á bilinu 110-120 sek myndi
tryggja hæsta þjónustustig og lágmarka tafir. Áhrif lengri lotutíma var mismunandi fyrir
gatnamótin, þar sem þjónustustig lækkaði og tafir jukust fyrir gatnamót
Kringlumýrarbrautar/Suðurlandsbrautar en öfugt fyrir gatnamót Kringlumýrarbrautar-
/Háaleitisbrautar.
Áhugavert var að í flestum tilfellum voru niðurstöður umferðarhermana í Vistro með þó
nokkuð styttri meðaltafatíma heldur en í tilfellinu þegar reynt var að líkja eftir núverandi
fyrirkomulagi stýringa gatnamótanna (grunnástand með 90 sek lotutíma). Taka skal samt
fram að í Vistro er ekki gert ráð fyrir forgangsakstri almenningssamgangna eða sérstökum
ljósum fyrir hjólandi vegfarendur. Niðurstöður umferðarhermana gefa til kynna að lenging
lotutíma umferðarljósa lækki ekki meðaltafatíma eða bæti þjónustustig þeirra.

Skjámynd 2025-07-11 144525
Höfundur

Andri Rafn Yeoman, Arna Kristjánsdóttir, Ásmundur Jóhansson

Verkefnastjóri

Arna Kristjánsdóttir

Skrá

nr_1800_899_ahrif-lotutima-a-ljosastyrd-gatnamot.pdf

Sækja skrá

Áhrif lotutíma á ljósastýrð gatnamót