Óljóst er á hvaða hátt hjólreiðamenn sem ferðast um þjóðvegi landsins eru leiddir inn á
hjólanet/stígakerfi höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið snerist um að kanna þá staði og aðstæður
þar sem helstu þjóðvegir tengjast þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu og gerð greining á
mögulegum tengingum milli þjóðvega og stíga. Gerðar eru tillögur um útfærslur og skilti og
merkingar. Fyrir þá sem ekki þekkja til er ákveðin hætta á að þeir leiðist inn á stofnvegi
höfuðborgarsvæðisins þar sem umferð er mikil og hröð. Með því að beina þeim inn á
stígakerfið eykst öryggi.
Þrír staðir eru skoðaðir og tillögur eru annars vegar um aðgerðir sem hægt er að gera
fljótlega, en einnig er litið til framtíðar og skipulagsgerðar. Þá eru gerðar kostnaðaráætlanir
fyrir þær lausnir sem hægt er að ráðast í strax.
Reykjanesbraut í Hafnarfirði er skoðuð. Enginn hjólastígur er meðfram brautinni frá
Reykjanesbæ að Hafnarfirði og því þarf að hjóla á vegöxlinni. Við Ásvelli er upphaf
lykilleiða hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu og þar eru skilti með upplýsingum. Fram kemur að
með gerð mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Krísuvíkurvegar, sem er hafin, er auðvelt
að leiða hjólaumferðina inn á stígakerfið og þarf eingöngu vegvísunarskilti. Gert er ráð fyrir
að kostnaður við þetta gæti verið um ein milljón króna (sex vegvísar með undirstöðum). Bent
er á að til framtíðar er einfaldast að horfa til aðalskipulags Hafnarfjarðar (2013-2025) og gera
ráð fyrir að hjólastígar verði lagðir líkt og skipulagið sýnir.
Þá er Suðurlandsvegur í Reykjavík til skoðunar, en þar er hætta á að ókunnugir geti lent inn á
Ártúnsbrekkunni. Lagt er til að leiða hjólaumferðin niður Elliðaárdalinn og nefndar þrjár
lausnir í því sambandi, allt frá skiltun og skiltun með gerð nýrra stíga. Kostnaður er allt frá
einni milljón upp í 37 milljónir, eftir því hvaða lausn yrði valin.
Þriðji staðurinn er Þingvallavegur og Vesturlandsvegur í Mosfellsbæ. Bent er á aðgerðir með
vegvísun og stuttri stígagerð (tengingu) án mikils tilkostnaðar. Í framtíðinni er gert ráð fyrir
stofnstíg/aðalstíg í skipulagi beggja sveitarfélaganna.
Í skýrslunni er lögð áhersla á mikilvægi þess að huga vel að gerð og útliti merkinga vegna
vegvísunar. Líklegt er að vegvísunarskilti verði inna öryggissvæða vega, en slíkt er heimilt ef
umferðamerkin eru af ákveðinni viðurkenndri gerð. Uppsetning slíkra skilta ætti þó ávallt að
vera háð umsögn frá þjónustudeild Vegagerðarinnar, þar sem þau eru innan
veghelgunarsvæðis þeirrar stofnunar.
Hörður Bjarnason
Tenging hjólanets höfuðborgarsvæðisins við umliggjandi þjóðvegi