PDF · Útgáfa 86038-014 — maí 2017
Öryggi hjólandi vegfar­enda á þjóð­vegum lands­ins

Hjólreiðar hafa aukist mjög á síðustu árum á Íslandi og má rekja það til lífsstílsbreytinga Íslendinga sem og fjölgun
ferðamanna. Með þessum lífsstílsbreytingum hafa komið fram hjólreiðakeppnir sem fram fara á þjóðvegunum.
Þessum keppnum hafa svo fylgt æfingar sem líka fara að sumu leiti fram á þjóðvegum. Fylgifiskur aukinna hjólreiða
er líka aukin tíðni hjólreiðaslysa. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða fyrirkomulag umferðaröryggis í stærri
hjólreiðakeppnum, meta við hvaða aðstæður hjólreiðfólk sem hjóla á þjóðvegum landsins vilja hjóla, leggja mat á
hvaða þættir geta haft áhrif á óhöpp/slys á meðal hjólreiðafólks sem hjóla á þjóðvegum landsins og hvað megi
betur gera til að tryggja öryggi hjólreiðafólks í hjólreiðakeppnum og á þjóðvegum landsins. Aðferðin sem var beitt
var að senda spurningalista fyrir keppendur í stærri hjólreiðakeppnum á Íslandi þar sem þeir voru spurðir um
ofantalda þætti. Hvað varðar hjólreiðakeppnir voru flestir sammála því að vörubílar og rútur voru þeir þættir sem
sköpuðu mikla eða mjög mikla hættu fyrir sig á meðan á hjólreiðakeppni stóð (60%). Svarendur voru sammála því
að yfirborð vegar og lausamöl skapi mjög mikla hættu fyrir sig á meðan á keppni stóð (40%). Voru margir sem
bentu sérstaklega á það að hreinsa þyrfti betur í beygjum. Um 6% keppenda lentu í slysi/óhappi á meðan á keppni
stóð og um 18% voru nálægt því að lenda í slysi/óhappi. Flest slys/óhöpp var vegna samstuðs við annað hjólreiðafólk
en flestir mátu það sem svo að ökutæki sköpuðu mesta hættu fyrir sig á meðan á keppni stóð. Flestir voru sammála
því að skipuleggjendur keppna mættu gera meira til að tryggja öryggi þeirra á meðan á keppni stóð og það mætti
auglýsa/kynna betur keppnina, sérstaklega fyrir atvinnubílstjórum. Hvað varðar hjólreiðar í dreifbýli almennt, þá
voru flestir á því vöruflutningsbifreiðir og rútur væri það sem skapaði mesta hættu í dreifbýlinu en 88% sögðu að
það skapaði mjög mikla eða mikla hættu. Lausamöl á götum og lélegt yfirborð vegar er einnig atriði sem margir
telja að valdi mjög mikilli eða mikilli hættu og hafa margir upplifað það sem vandamál. Helst það í hendur við það
að flestum svarendum finnst hreinar götur vera mikilvægur þáttur við hjólreiðar í dreifbýli. Um 26% svarenda höfðu
lent oftar en einu sinni í slysi við hjólreiðar í dreifbýli. Af þeim slysum, höfðu einungis 13% þeirra verið tilkynnt til
lögreglu og eru því skráð niður sem samgönguslys. Um 70% þeirra slysa sem voru alvarlegust, voru fallslys og er
það líklega vegna þess hversu algeng þau eru. Niðurstöður úr hjólreiðakeppnum gefa okkur nýja innsýn í hvers
konar vandamál við gætum glímt við ef hjólreiðar eiga eftir að aukast mikið. Mætti þá búast við aukningum í
fallslysum og samstuði á milli hjólreiðafólks. Með orsakir slysa í dreifbýli í huga liggur fyrir að miklir möguleikar
felast í því að fækka slysum á meðal hjólreiðafólks með því að leggja meiri áherslu á viðhald malbiks og hreinsun
gatna/vega. Þörfin er kannski ekki á allsherjar hreinsun á þjóðvegunum eða sér stígum fyrir hjólandi. Hins vegar
þýðir þetta að það megi huga að reglulegu viðhaldi á þeim þjóðvegum þar sem vitað er til að hjólreiðafólk heldur
mikið til á. Niðurstöður úr spurningalistanum staðfesta einnig það að hjólreiðaslys eru stórlega vanmetin í
árekstrargögnum og má áætla að um það bil 10% þeirra séu til staðar í slysagögnum.

Skjámynd 2025-07-11 142144
Höfundur

Amma Guðrún Stefánsdóttir, Berglind Hallgrímsdóttir, Hallbjörn R. Hallbjörnsson

Verkefnastjóri

Anna Guðrún Stefánsdóttir

Skrá

oryggi_hjolandi_vegfarenda-a-thjodvegum.pdf

Sækja skrá

Öryggi hjólandi vegfarenda á þjóðvegum landsins