Mælingar á ýmsum eiginleikum yfirborðs Reykjanesbrautarinnar með mælitækinu RCM frá Teconer voru greindar með tilliti til hálkumyndunar. Mæligögnum var safnað veturna 2014-2015 og 2015-2016. Markmið verkefnisins var að þróa aðferð til að greina og spá fyrir um hálku af meiri nákvæmni en gert hefur verið til þessa, að athuga hvers konar veðurfar ýtir helst undir hálkumyndun á Reykjanesbrautinni og að kortleggja veginn með tilliti til breytileika í veghita. Kortlagðir voru sérstaklega þeir vegkaflar þar sem hiti mældist jafnan sérlega lágur, veghiti mældist miklu lægri en lofthiti, dýpt vatnsfilmu á veginum mældist mikil og viðnám við yfirborð lítið. Við framhald þessarar rannsóknar er lagt til að leitast verði við að innleiða hæðarlíkan af Reykjanesinu í hárri upplausn í greininguna. Einnig er lagt til að leitað verði leiða til nýtingar gagna um skýjahulu og/eða geislun til þess að kanna áhrif slíkra þátta á hitabúskap vegarins. Tillögu um jafnari og markvissari gagnasöfnun er beint til Vegagerðarinnar.
Arnór Tumi Jóhansson
Elín Björk Jónasdóttir
Kortlagning veghita með áherslu á hálkustaði – Reykjanesbraut