Í skýrslunni eru birtar niðurstöður talninga að Fjallabaki nyrðra, en styrkur rannsóknasjóðs
Vegagerðarinnar var meðal annars nýttur til að kvarða talningastaði sumarið 2016. Í skýrslunni
er einnig að finna niðurstöður um dvalartíma ferðafólks í Landmannalaugum, sem og í
þjóðgarðinum Snæfellsjökli, en hluti styrks var notaður til að kaupa skynjara til slíkra verka. Í
skýrslunni er einnig sett fram hvernig unnt er að mæla ferðaleiðir með þessum skynjurum og
voru gerðar tilraunir með það í Snæfellsjökulsþjóðgarðinum.
Í skýrslunni er fjallað um umferðarteljarana sem nú eru notaðir og aðferðir til kvörðunar. Þá
er skynjurum sem nýtast til að mæla dvalartíma og ferðaleiðir lýst. Þeir síðarnefndu nema
Bluetooth og WiFi merki í snjalltækjum og bifreiðum. Þeir nema þannig ekki allar bifreiðar,
heldur einungis þær sem eru með slík tæki í gangi. Tekið er fram að skynjararnir brengla
sendingar frá snjalltækjunum, þannig að ekki er hægt að rekja þær til eigenda þeirra.
Varðandi umferðatalningar kemur fram í skýrslunni að á flestum stöðum var byrjað að telja
árið 2011. Settar eru fram niðurstöður fyrir einstaka teljara á svæðinu fyrir þetta tímabil. Fram
kemur að fjölgun ferðamanna til landsins hafi mest komið fram í Landmannalaugum, en minna
annars staðar á hálendinu. Bent er á að innviðir hafi ekki náð að fylgja þessari öru breytingu eftir.
Meðal niðurstaðna fyrir dvalartíma og ferðaleiðir, má nefna að flestir dvöldu 1-4
klukkustundir í Landmannalaugum (skynjarinn nam 16% af umferðinni þar). Flestir koma inn í
þjóðgarðinn Snæfellsjökul að sunnan og fara út að norðan. Flestir dvöldu styttra en fjóra tíma í
þjóðgarðinum.
Rögnvaldur Ólafsson, Gyða Þórhallsdóttir, Auður Þórunn Rögnvaldsdóttir
Ferðahættir að Fjallabaki