Starf kerfisfræðings/sérfræðings á Tækjabúnaðardeild er laust til umsóknar. Staða kerfisfræðings/sérfræðings er ný staða á deildinni og er ætlað að hafa m.a. umsjón og eftirlit með verkefnum sem tengjast netkerfum og hugbúnaði í rekstrartæknihluta (RT) Vegagerðarinnar og sjá til þess að þau séu unnin í samræmi við áætlanir og öryggisstefnu stofnunarinnar.
Vegagerðin vinnur að uppskiptingu net- og hugbúnaðarkerfa stofnunarinnar í UT (upplýsingatækni e: IT) og RT (rekstrartækni e: OT).
Vegagerðin á og rekur mikið magn búnaðar og tækja í tengslum við samgöngur. Hér er um að ræða búnað eins og umferðarljós, götulýsingu, veðurstöðvar, myndavélar, LED upplýsingaskilti, umferðarteljara, mengunarmæla, rafbúnað og fjarskipti í jarðgöngum, vöktunarbúnað ýmiskonar, vita, öldudufl og radarsvara svo fátt eitt sé nefnt. Auk þessa er í rekstri fjöldinn allur af kerfum til miðlunar gagna og upplýsinga.
Tækjabúnaðardeild er hluti Þjónustusviðs Vegagerðarinnar með aðsetur í Suðurhrauni 3 í Garðabæ, en starfssvæðið er landið allt. Starfsmenn deildarinnar eru 7. Deildin er tæknilegur eigandi skilgreinds upplýsingatæknibúnaðar Vegagerðarinnar og sér um netkerfi, fjarskiptakerfi, rekstur, viðhald, aðgang, skjölun og tæknilegt öryggi þeirra kerfa. Tækjadeild tryggir viðbragðs- og uppitíma þeirra kerfa sem deildin ber ábyrgð á samkvæmt skilgreindum þjónustuviðmiðum.
Áhugasamir einstaklingar, án tillits til kyns, eru hvattir til að sækja um. Í umsókninni komi fram upplýsingar um fyrri störf og þær hæfnikröfur sem óskað er eftir, auk afrita af prófskírteinum. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út.
Vegagerðin er eftirsóknarverður vinnustaður, stærsta framkvæmdastofnun landsins með gríðarlega fjölbreytta verkefnaflóru. Vegagerðin þróar og annast samgöngukerfi, á sjó og landi, á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins, öryggi vegfarenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Um 370 starfsmenn Vegagerðarinnar starfa á 18 starfsstöðvum víðsvegar um landið