Um upplýsingakerfið

Siglingastofnun Íslands hefur þróað upplýsingakerfi um veður og sjólag sem nær til notenda á hafi hvort sem þeir eru á N-Atlantshafi eða á Íslandsmiðum, til sjávar eða stranda en framsetning þess hefur verið nær óbreytt um langan tíma. Kerfið er í stöðugri þróun með gagnsemi fyrir notandann að leiðarljósi. Í tengslum við nýjan gagnagrunn sem er verið að taka í gagnið hefur stór hluti af upplýsingakerfinu verið endurskrifaður. Leitast hefur verið við að auðvelda aðgengi að upplýsingum eins og hægt er um leið og viðmóti kerfisins hefur að mestu verið haldið í fyrra horfi. Upplýsingakerfið er einnig notað á nýstárlegan hátt, en því er beitt til að rannsaka ferðir og atferli nytjafiska hér við land.

Kerfið er aðgengilegt á vef Siglingastofnunar, http://www.sigling.is eða beint á slóðinni http://www.sigling.is/vs. Það er opið öllum sem hafa aðgang að nettengdri tölvu og án endurgjalds en rekstur kerfisins er kostaður af vitagjaldi sem öll skip og bátar greiða. Það voru starfsmenn Siglingastofnunar sem áttu langstærstan hlut í því að hanna kerfið en ýmsir voru þó með í ráðum, t.d. Veðurstofa Íslands, en hluti af þeim gögnum, sem miðlað er gegnum kerfið, er fenginn frá Veðurstofunni. Kerfið er vistað á tölvum Siglinga­stofnunar og starfsmenn stofnunarinnar fylgjast með því að það vinni eins og til er ætlast.

Upplýsingarnar eru sérsniðnar að þörfum sjómanna og ættu þeir að finna þar stóran hluta þess sem þeir þurfa og tengist veðri og sjólagi. Allar upplýsingar eru færðar inn á vefsíðurnar með sjálfvirkum hætti svo fljótt sem kostur er eftir að þær liggja fyrir. Þá er vísað í annað efni eftir því sem tilefni er til, svo sem veðurspár og viðvaranir Veðurstofu Íslands en samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum samþykktum annast sú stofnun sjóveðurþjónustu fyrir Íslandsmið.

Í grófum dráttum má skipta þörfum sjófarenda fyrir slík gögn í tvo flokka, annars vegar að tryggja öryggi en hins vegar að forðast truflanir vegna veðurs og sjólags og stuðla þannig að hagkvæmum rekstri. Þeim upplýsingum, sem til þess þarf, má einnig skipta í tvo flokka.

Annars vegar mælingar (Í dag, öldudufl og veðurstöðvar) þar sem lýst er hvernig ástand veðurs og sjávar var á tilteknum stöðum á tilteknum tíma, helst sem allra skemmstu áður en að því er gáð. Hins vegar spár (öldu- og veðurspá, spákort sjávarfallaspá í höfnum, sjávarfallaspá, og tilraunaverkefni) þar sem reynt er að líkja eftir líklegri þróun veðurs og sjávar fram í tímann og lýsa væntanlegu ástandi með ýmsu móti. Nú er hægt að smella hvar sem er á kortin til að fá upplýsingar um mæligildi um veður og ölduhæðir eða spár til næstu daga, ásamt sjávarföllum og straumum, lofthita og sjávarhita. Neðst í hægra horni eru flipar fyrir íslensku og ensku.

Báðar þessar gerðir upplýsinga er að finna í kerfinu. Mestan fróðleik er að finna í myndrænni framsetningu af einhverju tagi, svo sem á kortum með veður- og ölduathugunum eða á spákortum um veður, öldur, sjávarföll og strauma, en einnig má skoða athuganir (mælingar) og spár fyrir einstaka staði sem tímaraðir á töfluformi. Með því að smella á stað á ölduspákorti eða á veðurspákorti fæst öldu- og veðurspá fyrir þann stað sem tímaröð í töflu. Með því að smella á stað á sjávarfallaspákorti fæst spá um sjávarföll, áhlaðanda, sjávarhæð, straumstefnu og straumhraða fyrir þann stað sem tímaröð í töflu. Dæmi um slík kort og töflur sjást á myndum 1 og 2.

mynd mynd
mynd mynd
Mynd 1 - Á efri hluta myndarinnar sést spákort um ölduhæð á íslenskum veðurspásvæðum. Með því að draga til sleðann neðan við kortið má fletta gegnum kort spátímabilsins. Á neðri hluta myndarinnar sést tafla sem birtist ef smellt er á einhvern stað á kortinu. Mynd 2 - Á efri hluta myndarinnar sést spákort um sjávarföll með áhlaðanda á Íslandsmiðum. Líkt og fyrir ölduspákortið má fletta gegnum kort spátíma­bilsins með því að draga til sleðann neðan við kortið. Á neðri hluta myndarinnar sést hluti þeirrar töflu sem birtist ef smellt er á einhvern stað á kortinu.

Einnig má nota viðmót Google Earth til að velja staði þar sem skoða skal spár um öldur, veður eða sjávarföll. Dæmi um það má sjá á mynd 3.

mynd Mynd 3 - Víða í kerfinu má sjá hnapp með lítilli hnattmynd og textanum „Sjá kort“. Ef smellt er á hann birtist mynd svipuð þeirri sem hér sést. Þegar bendlinum er rennt yfir myndina sést hnattstaða hans og þegar smellt er á myndina birtast töflur eins og þær sem sjást á myndum 1 og 2.

Þegar „Veður og sjólag“ er opnað á heimasíðu Siglingastofnunar birtist fyrst kort af Íslandi þar sem birtar eru nýjustu mælingar frá veðurstöðvum og ölduduflum. Þetta kort má fá fram úr öðrum hlutum kerfisins með því að velja flipann „Í dag“ til vinstri við kortið. Í reit, sem tengdur er hverri athugunarstöð, eru viðeigandi upplýsingar birtar á töluformi en að auki er vindmælingu á veðurstöðvum lýst með flöggum. Kortið sjálft er merkt með dagsetningu og klukku og er þar vísað til þess tíma þegar kortið var teiknað. Einstakar athuganir (mælingar) eru ekki tímasettar og ber að líta svo á að sú athugun, sem birt er, sé sú nýjasta sem fyrir lá þegar kortið var gert. Ýmsar truflanir í mælingum eða fjarskiptum geta hins vegar valdið því að athuganir berast ekki á tilsettum tíma og því getur raunverulegur athugunartími verið lítið eitt mismunandi.

mynd Mynd 4 - Upphafsmynd kerfisins. Nokkrum tenglum í hliðarvali, neðan við þá, sem hér sjást, er þó sleppt. Skýringar á því hvernig athuganir eru ritaðar á kortið má fá með því að smella á hnappana neðan við kortið.

Þessar mælingar má skoða nánar með því að stækka einstaka landsfjórðunga. Það má gera með því að smella á einhvern stað á kortinu eða velja landsfjórðung á hliðarvali. Á þessum kortum birtast fáeinar athuganir sem ekki er rúm fyrir á heildarkortinu og hér eru einstakar athuganir tímasettar.

Í nýjum tengli fyrir tilraunaverkefni má skoða nokkur verkefni, sem enn eru á tilrauna­stigi, en munu, ef vel tekst til, verða hluti af upplýsingakerfinu.

Þarna má meðal annars finna ölduspár á landgrunninu (vinnuheiti er GV ölduspá) sem eru með 1000 m upplausn á hafi og um 50 - 200 m upplausn næst landi fyrir Vestmannaeyjar og Landeyjahöfn, fyrir Faxaflóa, Skjálfanda og Grynnslin á Hornafirði. Dæmi um slíka spá má sjá á mynd 5 hér fyrir neðan.

mynd Mynd 5 - Dæmi um ölduspá á landgrunninu. Auk spákortsins, sem hér er sýnt, munu sjást á skjánum nýjustu athuganir frá ölduduflum á svæðinu.

Þá má líka finna svokallaða klasaspá þar sem nýjasta ölduhæðarspá er borin saman við þær spár sem voru reiknaðar hálfum og einum sólarhring áður. Ef spárnar þrjár eru mjög samhljóða - eins og gera má ráð fyrir að þær séu að jafnaði í upphafi spátímabils - má líta á það sem vísbendingu um að spáin sé tiltölulega örugg. Ef miklu munar á spánum er það hins vegar merki um að spálíkanið hafi ekki enn náð góðum tökum á þróuninni og spáin sé því óörugg. Tólf öldudufl hafa verið tengd klasaspá í næsta spápunkti og kemur þá fram línurit yfir mældar ölduhæðir og síðustu þrjár spár. Þar með gefst möguleiki á að bera saman mældar ölduhæðir og þrjár nýjustu ölduspár frá sama tíma. Birt er fjarlægð í sjómílum milli öldu­dufls og næsta spápunktar en staðsetning öldudufla er gefin undir aðrar upplýsingar, öldudufl. Hægt að skoða gögn aftur í tímann með því að setja inn viðkomandi dagsetningu í dagatal, áratugi aftur í tímann.

mynd Mynd 6 - Klasaspá fyrir stað á rúmsjó. Bláa línan táknar nýjustu spána en sú rauða og gula eldri spár. Svarta línan táknar greiningu spálíkansins á ölduhæð fram að þeim tíma þegar spáin er reiknuð. Ef gögnin á þessari mynd eru skoðuð aftur í tímann sést aðeins greiningin.
mynd Mynd 7 - Klasaspá fyrir öldu­dufl á svæði þar sem GV öldu­spá er gerð á landgrunninu (sjá mynd 4). Hér bætist við ljósblá lína fyrir GV ölduspána og græn lína fyrir athuganir frá duflinu. Ef þessi gögn eru skoðuð aftur í tímann sjást auk greiningarinnar athuganir frá duflinu og GV ölduspáin svo langt sem hún nær.

Þá er unnið að tilraunum til að spá ísingarhættu fyrir fiskiskip. Fyrst um sinn er spá um líkur á verulegri ísingu teiknuð inn á spákort um sjávarhita.

Loks hefur verið sett upp reklíkan fyrir fljótandi hluti svo sem gúmmíbáta og fiskibáta en reklíkan fyrir dreifingu olíu hefur verið aðgengilegt hjá Siglingastofnun í nokkur ár. Líkönin eru í þróun og eru því enn sem komið er einvörðungu aðgengileg innan stofnunar.

Það er eindregin ósk Siglingastofnunar að betra upplýsingakerfi stuðli að auknu öryggi sjófarenda og auðveldi sjósókn á Íslandsmiðum og á Norður-Atlantshafi. Veður og sjólag verður áfram í stöðugri þróun og eru ábendingar um það sem betur má fara vel þegnar.