Nánar um veður-, öldu- og tölvuspár

Þegar veðurspár eru reiknaðar í tölvu gerist það í þremur áföngum:

  • Veðurathugunum er safnað inn í reiknilíkan sem reiknar fyrst ástand lofthjúpsins (hita, raka, vind o.fl.) í reglulegu þrívíðu neti reiknipunkta.
  • Með því að beita lögmálum um varmafræði og aflfræði loftsins er reiknað hvernig þetta upphafsástand muni breytast á spátímabilinu.
  • Að loknum þeim reikningi eru reiknaðar ýmsar afleiddar stærðir sem hentar að kortleggja til að skoða og meta niðurstöðuna, svo sem loftþrýstingur við sjávarmál, lofthiti í 2 m hæð yfir jörð eða vindur í 10 m hæð yfir jörð.

Þau kort, sem þannig eru til orðin, eru í daglegu tali nefnd tölvuspár. Hér er þó ekki um eiginlegar veðurspár að ræða heldur miklu fremur efnivið í veðurspár. Veðurfræðingar á Veðurstofu Íslands hafa t.d. aðgang að mörgum tölvuspám sem þeir meta og velja úr þá sem líklegast þykir að lýsi best væntanlegum veðrabrigðum. Auk tölvuspánna geta þeir notað nýjar athuganir af ýmsu tagi, svo sem hefðbundnar veðurathuganir eða myndir frá veðurtunglum og veðursjá, til að meta hvort veðrið þróast í raun á þann hátt sem tölvuspáin benti til.

Tölvuspár, sem birtar eru á netinu eða annars staðar, hafa allar þann annmarka að þær eru ekki endurskoðaðar í ljósi nýrra athugana. Þeim er ekki breytt þótt samanburður við veðurathuganir kunni að sýna að þær séu orðnar alrangar. Misræmið leiðréttist ekki fyrr en tölvuspárnar eru reiknaðar næst en það er yfirleitt gert tvisvar á sólarhring.

Það getur því augljóslega verið mjög varhugavert að reiða sig eingöngu á tölvuspár án þess að hafa til hliðsjónar hefðbundnar veðurspár sem eru endurskoðaðar oft á dag í ljósi nýrra upplýsinga. Misræmi milli spánna getur verið verulegt. Það getur annað hvort stafað af því að veður hafi þróast á annan hátt en tölvunni reiknaðist til eða að veðurfræðingurinn hafi ekki talið þessa tölvuspá trúverðuga og kosið að styðjast við aðra sem gaf allt aðra niðurstöðu.

Margar veðurstofur telja þetta misræmi svo alvarlegan galla að varla sé verjandi að birta tölvuspár gagnrýnislaust fyrir hinn almenna notanda. Því verður þó ekki neitað að skýr kort gerð eftir góðum tölvuspám geta gefið betri mynd af væntanlegum veðrabrigðum en hægt er gefa jafnvel í löngu máli. Tölvuspárnar eru því birtar í trausti þess að notendur geri sér grein fyrir takmörkunum þeirra og noti þær sem viðbót við hefðbundnar veðurspár en ekki í staðinn fyrir þær.

Reiknilíkan Veðurmiðstöðvar Evrópuríkja í Reading í Englandi (ECMWF) er hannað með það fyrir augum að skila sem áreiðanlegastri spá allt að tíu daga fram í tímann. Í slíkum líkönum verður að líta á allan lofthjúp jarðarinnar sem eina heild og mikil áhersla er lögð á að ná til allra veðurathugana, sem að gagni mættu koma, áður en spáin er reiknuð. Það er gert tvisvar á sólarhring. Stuðst er við veðurathuganir gerðar á miðnætti og hádegi að íslenskum tíma og er gagnasöfnun lokið um sex klukkustundum síðar. Þá tekur við greining og úrvinnsla á gögnum og síðan sjálfur spáreikningurinn. Þetta ferli tekur um þrjár klukkustundir og að því loknu er niðurstaðan send til Veðurstofu Íslands. Þá tekur við úrvinnsla af ýmsu tagi, sem unnin er á Veðurstofunni, hjá Siglingastofnun og víðar, og gera má rað fyrir að fullunnar afurðir liggi fyrir um hálfum sólarhring eftir að gagnasöfnun hófst.

Þær veðurathuganir, sem tölvuspáin grundvallaðist á í upphafi, eru því orðnar rúmlega hálfs sólarhrings gamlar þegar spáin kemst loks fyrir augu notenda. Það er því augljóst að tölvuspár, sem gerðar eru á þennan hátt, ætti að nota með gát til að gera veðurspá fyrir næstu klukkustundir, jafnvel næsta sólarhring. Hins vegar hafa prófanir á þessum spám og öðrum sýnt, svo að ekki verður um villst, að hvergi í heiminum eru til tölvuspár sem að jafnaði gefa jafntrausta mynd af þróun veðurs og öldu næstu daga, jafnvel allt að viku fram í tímann.

Þessar tölvuspár á því eingöngu að nota til að áætla líklegar veðurhorfur næstu daga. Þær geta aldrei komið í staðinn fyrir hinar hefðbundnu veðurspár Veðurstofunnar sem eru endurskoðaðar reglulega og ítrekaðar með viðvörunum ef ástæða þykir til. Ef notandi hefur hins vegar gengið úr skugga um að þessum ólíku spám beri allvel saman í meginatriðum má að sjálfsögðu nota spákortin til að varpa ljósi á veðurkerfin og hreyfingar þeirra.