Rann­sókn­ir og nýsköp­un

Nýsköpun, rannsókna-og þróunarstarf er veigamikið í starfsemi Vegagerðarinnar.

Árlega eru veittir styrkir til rannsóknarverkefna, sem fjármagnaðir eru að mestu af svo nefndu tilraunafé, sem samkvæmt vegalögum á að vera 1,5% af mörkuðum tekjum stofnunarinnar.

Auglýst er eftir umsóknum um styrki til rannsókna- og þróunarverkefna í byrjun hvers árs.

Kjalvegur (35) sumar 2023.

Rannsóknarstefna Vegagerðarinnar

Starf rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar tekur mið af hlutverki, markmiðum og framtíðarsýn stofnunarinnar. Á markvissan hátt er greind þörf fyrir rannsóknir og verkefnum forgangsraðað með áherslu á skilvirkni rannsókna.

Lögð er áhersla á hagnýtar rannsóknir og þróun, en einnig er gert ráð fyrir þátttöku í grunnrannsóknum sem tengjast starfsemi stofnunarinnar.

Markmið rannsóknasjóðs eru að:

  • Hafa frumkvæði að rannsókna- og þróunarstarfi sem stuðlar að því að Vegagerðin geti sinnt hlutverki sínu
  • Afla nýrrar þekkingar og innleiða hana í starfsemi Vegagerðarinnar
  • Stuðla að samvinnu þeirra sem bera ábyrgð á og stunda rannsóknir á sviði Vegagerðarinnar
  • Stuðla að nýliðun innan fagsviða sem tengjast starfsemi Vegagerðarinnar með samstarfi við háskólastofnanir
  • Kynna rannsóknir og niðurstöður þeirra

Rannsóknarráðstefnur Vegagerðarinnar


Umsóknir um rannsóknarstyrki fyrir árið 2026

Auglýst er eftir umsóknum um styrki úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar til rannsóknarverkefna fyrir árið 2026.

Umsóknarfrestur er til klukkan 17:00, 30. janúar 2026.

Bent er á að lesa allan textann hér að neðan áður en umsókn er samin og send inn.

Aðilar innan sem utan Vegagerðarinnar geta sótt um fjárframlög til rannsóknarverkefna sem tengjast starfsemi stofnunarinnar. Rannsóknaráð Vegagerðarinnar sér um úthlutun styrkja.

Rannsóknum Vegagerðarinnar er skipt í fjóra meginflokka:

  • Mannvirki
  • Umferð
  • Umhverfi
  • Samfélag

Áherslur Vegagerðarinnar á þessa flokka taka mið af því markmiði Rannsóknasjóðs að styðja Vegagerðina í hlutverki sínu og jafnframt að afla nýrrar þekkingar á starfssviði hennar. Innan Vegagerðarinnar starfa þrjár fagnefndir um þessa málaflokka. Þær hafa skilgreint áherslur sjóðsins við úthlutun fyrir árið 2026.

  • Mannvirki: Rannsóknir á sviði mannvirkjagerðar taka til vega, brúa, jarðganga, hafna og vita. Áhersla er lögð á efnismál, notkun mismunandi efna, endurvinnslu og endurnotkun í mannvirkjagerð, með það að markmiði að bæta endingu og öryggi mannvirkja. Litið er til samþættingar almennrar- og vetrarþjónustu, endingar slitlaga og mannvirkja sem heildar, til að tryggja greiðfærni, öryggi og hagkvæman líftíma. Mikilvægt er að halda áfram slitlags- og steypurannsóknum og stuðla að framþróun í styrkingum, viðhaldi, endurbótum og eftirfylgni. Kallað er eftir hagkvæmum lausnum sem uppfylla kröfur á jarðskjálftasvæðum. Þá er lögð áhersla á rannsóknir á hringrásarhagkerfi, lífsferilsgreiningum og kolefnisfótspori. Jafnframt er áhersla á rannsóknir á áhrifum orkuskipta og þungaflutninga á vegakerfið, sem og á umferðaröryggi og greiðfær akstursskilyrði við mögulega náttúruvá á landi og í þéttbýli.
  • Umferð: Áhersla er lögð á rannsóknir sem varða umferðaröryggi, uppbyggingu, þjónustu og viðhald vegakerfisins, sem og verkefni sem nýtast til þróunar og uppfærslu hönnunarreglna og -leiðbeininga fyrir samgöngumannvirki. Kallað er eftir rannsóknum sem styðja við upplýsta ákvarðanatöku um val samgöngukosta, þar á meðal mat á hagkvæmni, öryggi, umhverfisáhrifum, greiðfærni og jákvæðri byggðaþróun. Sérstök áhersla er á efnahagslegar forsendur, svo sem mat á slysa- og tafakostnaði, sem nýtast við mat á arðsemi fjárfestinga í þágu almennings. Áhersla er einnig á rannsóknir varðandi skilvirka snjallkerfavæðingu samgöngukerfisins (ITS), áhrif aukinna landflutninga á vegakerfið og rannsóknir sem styðja við skilvirka eignaumsjón og þróun aðferða til mats á líftímakostnaði mannvirkja.
  • Umhverfi: Sjálfbærni í verkefnum Vegagerðarinnar. Verkefni sem minnka umhverfisspor vegna starfsemi Vegagerðarinnar, m.a. með rannsóknum og nýsköpun sem styðja við hringrásarhagkerfið og lágmörkun á neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda auk mótvægisaðgerða. Verkefni tengd líffræðilegum fjölbreytileika í tengslum við starfsemi Vegagerðarinnar.
  • Samfélag: Loftgæði vegna umferðar og framkvæmda, fjölbreyttir ferðamátar, breyttar ferðavenjur, þróun almenningssamgangna auk samspils nýrra orkugjafa og vegakerfisins. Verkefni tengd sjálfbæru skipulagi í hinu byggða umhverfi og þróun atvinnusóknarsvæða.

Umsóknir sem falla ekki beint að áherslum sjóðsins fyrir árið 2026 eru engu að síður velkomnar, enda styðji þær markmið Vegagerðarinnar og sjóðsins. Við mat á umsóknum er sérstaklega horft til þess hvaða rannsóknir nýtast Vegagerðinni best hverju sinni.

Í stefnu Vegagerðarinnar fyrir árin 2024-2028 kemur fram að hlutverk Vegagerðarinnar er að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum á sjó og landi. Þá skal hún stuðla að því að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið. Í þessu samhengi má vísa til aðgerðaráætlunar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Rannsóknarverkefni ættu að taka mið af þessu.

Í rannsóknastefnu Vegagerðarinnar sem finna má á vef stofnunarinnar er einnig lögð áhersla á nýliðun innan fagsviða sem tengjast starfsemi Vegagerðarinnar með samstarfi við háskólasamfélagið. Umsóknir frá háskólum með þátttöku nemenda í verkefnum velkomnar, þó slíkar umsóknir njóti ekki forgangs fram yfir aðrar.

Við skilgreiningu rannsóknarverkefna skal í upphafi áætla hverjir muni nýta niðurstöður verkefnisins og gefa þeim færi á að koma að mótun þess og innleiðingu niðurstaðna eftir því sem við á. Því er óskað eftir að tengiliður innan Vegagerðarinnar sé skilgreindur og hann upplýstur. Þá er einnig bent á, að mikilvægt er að kanna heimildir um fyrri rannsóknir, sem hugsanlega hafa verið gerðar, tengdar viðkomandi umsókn um verkefnastyrk.

Vegagerðin er í samstarfi við systurstofnanir sínar á Norðurlöndunum um rannsóknir (sjá hér: www.nordfou.org). Gjarnan má velta fyrir sér hvort hugmynd að verkefni hafi norræna skírskotun, þ.e. er líklegt að það sem fjalla á um í verkefninu sé einnig áhugavert fyrir hin Norðurlöndin. Ef svo er, má það gjarnan koma fram í umsókninni.

Umsækjendur þurfa að fylla út rafrænt umsóknareyðublað sem nálgast má á „mínum síðum“ á vef Vegagerðarinnar.

Við mat umsókna verður tekið tillit til atriða sem fram koma í eftirfarandi töflu. Lögð er áhersla á að leiðbeiningum í umsóknareyðublaði sé fylgt og vafaatriði vegna skorts á upplýsingum geta fallið umsókn í óhag.

 

Markmiðasetning 

(e. Excellence)

Áhrif 

(e. Impact)

Framkvæmd 

(e. Implementation)

Hve skýr eru markmiðin? Eru forsendur þeirra rökréttar? 

Hve raunhæf, trúverðug og markviss er aðferðafræðin?

Er rannsóknarspurningin í takt við stöðu þekkingar í dag?

Munu niðurstöður bæta einhverju við stöðu þekkingar sem um munar?

Að hve miklu leyti styður verkefnið og niðurstöður þess við markmið sjóðsins? 

Hversu líklegar eru niðurstöðurnar til að gagnast Vegagerðinni?

Hve vænleg er framkvæmdaáætlun? Eru aðföng og vinnuafl nægjanleg m.t.t. þess sem gera skal, þ.m.t. hæfni þátttakenda? 

Ríkir áhætta um framkvæmdina? Er gerð grein fyrir því hvernig tekið er á henni?

 

Upplýsingar um afgreiðslu umsókna verður birt á „mínum síðum“ þegar þær liggja fyrir, miðað er við að það verði í fyrri hluta mars 2026. Tilkynning verður send á þau tölvupóstföng umsækjanda og verkefnisstjóra, sem skráð eru í umsókninni.

Upplýsingar um styrkt verkefni verða birtar á vef Vegagerðarinnar.

 

Fyrirspurnir:

Ólafur Sveinn Haraldsson

Forstöðumaður rannsóknadeildar

olafur.s.haraldsson@vegagerdin.is.


Fjárveitingar

Samkvæmt vegalögum sem tóku gildi 1. janúar 2008, skal ár hvert verja 1,5% af mörkuðum tekjum sem renna til vegagerðar til rannsókna og tilrauna við vega- og gatnagerð undir stjórn Vegagerðarinnar.

Forstöðumaður Rannsóknadeildar heldur utan um málaflokkinn, en forstjóri stofnunarinnar skipar ráðgjafanefnd, sem skal vera til ráðuneytis um skiptingu fjárveitinga til rannsóknarverkefna og um tilhögun rannsókna.

Aðalúthlutun úr sjóðnum fer fram snemma árs, en einnig má sækja um fjárveitingar á öðrum tímum. Þótt mikill hluti fjárins fari til verkefna sem verða til innan Vegagerðarinnar, er nú lögð meiri áhersla á að fjármagna verkefni sem verða til og/eða eru unnin hjá öðrum, svo sem Háskólum, ýmsum fyrirtækjum og jafnvel einstaklingum. Þá eru einnig dæmi um fjárhagslega þátttöku í alþjóðlegum verkefnum.

Á undanförnum árum hefur orðið mikil aukning á fjölda umsókna, sem hefur beint sjónum Vegagerðarinnar enn frekar að leiðum til að nýta þetta takmarkaða fjármagn betur.


Rannsókna- og þróunarstarf Vegagerðarinnar

Vegagerðin tekur þátt í margvíslegu erlendu samstarfi á sviði rannsókna og þróunar. Auk þess taka starfsmenn Vegagerðarinnar þátt í ýmsum ráðstefnum og fundum erlendis og sækja þangað þekkingu og miðla innan stofnunarinnar og utan. Einnig eru íslensk málefni kynnt á erlendri grund og birtar greinar í erlendum fagtímaritum.

Nánari upplýsingar um rannsókna- og þróunarstarf Vegagerðarinnar veita Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs og Ólafur Sveinn Haraldsson forstöðumaður rannsóknadeildar í síma 522-1000 eða í tölvupósti rannsoknir@vegagerdin.is.


Erlent samstarf

Markmið með þátttöku Vegagerðarinnar í erlendu samstarfi á sviði rannsókna og þróunar eru m.a. að afla þekkingar og reynslu frá öðrum, fylgjast með þróun og færa hana inn í landið, að koma þekkingu okkar og reynslu á framfæri og í samstarfið við Rannís að afla fjármagns til rannsóknarstarfs úr sjóðum Evrópusambandsins.

Vegagerðin tekur nú þátt í eftirtöldu erlendu samstarfi á sviði rannsókna- og þróunar:

  • NVF (Nordisk Vejforum – Norræna vegasambandið)
    Erlend samtök sem Vegagerðin hefur í gegnum árin haft mest tengsl við. Megin hluti NVF-starfsins fer fram í nefndum og er markmiðið að stuðla að samstarfi og upplýsingaskiptum milli fagfólks á Norðurlöndum á sviði samgangna. Á tímabilinu 2016-2020 verða starfandi 10 nefndir. Ísland tekur þátt í starfinu í nær öllum þessum nefndum. Nefndir taka gjarnan breytingum á milli hverra fjögurra ára tímabila, en oftast eru t.d. starfræktar nefndir um brýr, jarðgöng, hönnun, vegtækni, viðhald og þjónustu og umferðaröryggi. Ísland tekur þátt í öllum þessum nefndum og starfrækir samhliða innanlands nefnd um sama efni. Finnland stýrir starfi NVF á tímabilinu 2024-2028 en að því loknu tekur Ísland í annað sinn við stjórn NFV og lýkur tímabilinu á stórri samgönguráðstefnu hér á landi ViaNordica2032.
  • NordFoU (Fællesnordisk forskningssamarbejde)
    Í desember 2004 var undirritaður samningur Vegagerðanna á Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi (Færeyjar hafa líka verið með frá árinu 2014), samningurinn var endurnýjaður í nóvember 2023.   Samkomulagið felur í sér að aðildarlöndin vinna sameiginlega að ákveðnum afmörkuðum rannsóknaverkefnum og fjármagna þau úr sínum sjóðum. Verkefnin eru valin af sérstakri stjórnarnefnd sem í sitja yfirmenn rannsókna innan hverrar stofnunar. Tvö lönd eða fleiri geta staðið að einstökum verkefnum og ákvörðun um þátttöku er tekin af hverri stofnun fyrir sig. Sérstakur samningur er gerður um hvert verkefni, þar sem tiltekin er verkefnislýsing, verkefnishópur og verkefnisstjóri, fjárhagslegar skuldbindingar og fleira. Verkefni geta ýmist verið unnin innan eða utan stofnananna. Niðurstöður verða aðgengilegar fyrir allar þjóðirnar fimm.
  • CEDR (Conference of European Directors of Roads) CEDR eru samtök evrópskra vegagerða . Markmið með samtökunum er að stuðla að þróun í vegasamgöngum, mynda sambönd, vinna með sameiginlegum áskorunum og taka þátt í þróun innan Evrópusambandsins og í Evrópu almennt varðandi vegasamgöngur í víðum skilningi. Vegagerðin var meðal stofnaðila CEDR árið 2003 (þegar tveimur samtökum, „Western European Road Directors“ (WERD) og „Deputy European Road Directors“ (DERD), var slegið saman). Ísland var í forystu fyrir samtökin árið 2006. Samtökin setja sér starfsáætlun árlega til þriggja ára í senn.
  • PIARC (World Road Association)
    Vegagerðin er aðili að þessum alþjóðlegu samtökum, sem segja má að séu móðursamtök NVF og byggð upp á svipaðan hátt. Hlutverk PIARC er einkum að miðla þekkingu um vegi og vegasamgöngur.
  • PIANC (The World Association for Waterborne Transport Infrastructure)
    Markmið þessara samtaka er að skapa grunn til að safna saman sérfræðiþekkingu vegna hagkvæmra, áreiðanlegra og endingargóðra mannvirkja sem þarf til að standa undir vexti flutninga á sjó.Vegagerðin tekur þátt í starfi samtakanna meðal annars með þátttöku í NORDPianc sem er samstarf Norðurlanda innan PIANC.
  • NR&TR (Nordic Road & Transport Research)
    Nordic er norrænt tímarit gefið út á ensku sem ætlað er að kynna vega- og samgöngurannsóknir á alþjóðlegum vettvangi. Vegagerðin á fulltrúa í ritstjórn og tekur þátt í útgáfunni með umfjöllun um íslenskar rannsóknir í samgöngum.
  • ROADEX verkefnið er tæknilegur samvinnuvettvangur vegagerða í norður Evrópu er hefur það að markmiði að deila upplýsingum um vegi og rannsóknir á þeim milli aðildarlandanna. Verkefnið er að hluta til fjármagnað af ESB, norðurslóða áætluninni INTERREG IIIB.

Rannsóknaverkefni

Samkvæmt vegalögum sem tóku gildi 1. janúar 2008, skal ár hvert verja 1,5% af mörkuðum tekjum sem renna til vegagerðar til rannsókna og tilrauna við vega- og gatnagerð undir stjórn Vegagerðarinnar.

Forstöðumaður Rannsóknadeildar Vegagerðarinnar heldur utan um málaflokkinn, en forstjóri stofnunarinnar skipar ráðgjafanefnd, sem skal vera til ráðuneytis um skiptingu fjárveitinga til rannsóknarverkefna og um tilhögun rannsókna.

Aðalúthlutun úr sjóðnum fer fram snemma árs, en einnig má sækja um fjárveitingar á öðrum tímum. Þótt mikill hluti fjárins fari til verkefna sem verða til innan Vegagerðarinnar, er nú lögð meiri áhersla á að fjármagna verkefni sem verða til og/eða eru unnin hjá öðrum, svo sem Háskólum, ýmsum fyrirtækjum og jafnvel einstaklingum. Þá eru einnig dæmi um fjárhagslega þátttöku í alþjóðlegum verkefnum.

Á undanförnum árum hefur orðið mikil aukning á fjölda umsókna, sem hefur beint sjónum Vegagerðarinnar enn frekar að leiðum til að nýta þetta takmarkaða fjármagn betur.


RannsóknarskýrslurÚtgefnar rannsóknarskýrslur

Flestum rannsóknaverkefnum, sem styrkt eru af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar, lýkur með útgáfu skýrslu. Skýrslurnar eru gefnar út á rafrænu formi hér á vef Vegagerðarinnar. Þær eru flokkaðar í fjóra meginflokka, samanber hér að neðan. Veljið viðkomandi flokk til að skoða lista yfir útkomnar skýrslur í honum.


Jarðfræði

Við undirbúning vegagerðar er oft þörf á nokkuð umfangsmiklum jarðfræðirannsóknum og er það hlutverk jarðfræðideildar Vegagerðarinnar að vinna að stefnumótun, skipulagningu og framkvæmd þeirra rannsókna. Einkum er unnið að námurannsóknum, efnisrannsóknum og jarðvegs- og berggrunnskönnun vegna vinnu við mat á umhverfisáhrifum og fyrir útboðsgögn fyrir vega- og brúargerð en einnig vegna undirbúnings jarðgangagerðar. Vegagerðin rekur í því skyni rannsóknarstofu þar sem framkvæmdar eru algengustu prófanir á steinefnum til vegagerðar.

Vegagerðin hefur safnað upplýsingum og kortlagt námur á landinu hvort heldur sem er námur sem Vegagerðin hefur notað eða námur annarra. Í framhaldi af þeirri vinnu hefur Vegagerðin hrint af stað átaksverkefni um frágang aflagðra efnistökusvæða sem eru á ábyrgð stofnunarinnar. Það er í samræmi við ákvæði náttúruverndarlaga um að aflögð efnistökusvæði megi ekki standa ófrágengin lengur en í 3 ár.

Gagnabanki, sem geymir niðurstöður helstu steinefnarannsókna sem hafa verið gerðar í tengslum við vegagerð, er starfræktur hjá Vegagerðinni.

Leiðbeiningar um notkun sprengds bergs í vegagerð er að finna í efnisgæðaritinu í gagnasafni.


Rannsóknarráð umferðaröryggismála (RANNUM)

Rannsóknarráð umferðaröryggismála var starfrækt milli áranna 2001-2005.

Nánari umfjöllun og lista yfir skýrslur sem nutu styrks frá ráðinu má finna hér að neðan.