Umhverfismál

 Áningarstaður í Kolgrafafirði. Valgeir Kárason tók myndina.

Vegagerðin vinnur stöðugt að því að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið og hefur gert markvisst um árabil. Þetta hefur verið gert með hliðsjón af umhverfisstefnu sem Vegagerðin hefur sett sér. Vegagerðin starfrækir virkt umhverfiskerfi, sem tekur mið af ISO 14001 umhverfisstaðlinum, og beitir aðferðum umhverfisstjórnunar til að ná árangri. 

Vegagerðin hefur skilgreint lagalegar kröfur og aðrar kröfur, þýðingarmikla umhverfisþætti í starfseminni, sett sér umhverfisstefnu og mælanleg markmið. Hún rekur gæðadeild sem hefur yfirumsjón með málaflokknum. Fjórar umhverfis- og öryggisnefndir starfa á landsvísu, en þær skipuleggja umhverfisdaga og standa fyrir fræðslu um umhverfis- og öryggismál. Vegagerðin styrkir árlega nokkur rannsóknaverkefni á sviði umhverfismála.

Umhverfismat áætlana er unnið fyrir samgönguáætlun samkvæmt lögum en vegáætlun er hluti hennar.  Umhverfismat áætlunarinnar er unnið af hópi sem í sitja fulltrúar frá samgönguráðuneytinu, Vegagerðinni, Siglingastofnun og Flugmálastjórn Íslands.  Í samgönguáætlun hafa verið sett markmið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur.

Mat á umhverfisáhrifum einstakra vegaframkvæmda fer fram samkvæmt lögum.  Auk þess vinnur Vegagerðin kynningargögn um allar vegaframkvæmdir.

Vegagerðin veitir á þriggja ára fresti viðurkenningu fyrir gerð og frágang mannvirkja. Tilgangurinn er að efla vitund um útlit og frágang mannvirkja meðal starfsmanna og verktaka Vegagerðarinnar og stuðla að umræðu þar um og að vitna um ákveðinn vilja yfirstjórnarinnar á þessu sviði.  Viðurkenningin var síðast veitt árið 2012, sjá fréttatilkynningu.