Rannsóknir á Grynnslunum utan við Hornafjarðarós
Nauðsynlegt er að halda áfram rannsóknum á Grynnslunum fyrir utan Hornafjarðarós svo hægt sé að koma með tillögur að lausnum en þarna rís land með auknum hraða, ósarnir fyrir innan eru grunnir og því ekki ljóst hvernig ósinn muni bregðast við minnkandi rennsli. Út er komin áfangaskýrsla um Grynnslin þar sem kynnt er tillaga að þriggja ára rannsóknaráætlun.
Hornafjarðarós er í eðli sínu eins og aðrir sjávarfallaósar. Þar takast á öfl með gagnstæð hlutverk, annars vegar er það aldan sem flytur sand að og fyrir ósinn og leitast við að loka honum, og hins vegar sjávarfallastraumar háðir sjávarföllum og stærð lóna innan við ósinn, sem leitast við að halda honum opnum. Ósinn sker á sandflutning meðfram ströndinni með þeim afleiðingum að sandur leitar út á grynningar rétt fyrir framan ósinn til þess að komast framhjá ósnum.