Leiðbeiningar og staðlar vegna vetrarþjónustu

Gæðastaðall og þjónustuflokkun


Gæðastaðall
Gæðastaðall í vetrarþjónustu lýsir þeim gæðakröfum sem eru gerðar og varða eftirfarandi þætti:
  • Þjónustumarkmið
  • Þjónustustig
  1. Tímasetningar og framkvæmd aðgerða
  2. Mesta snjódýpt og sléttleiki vegyfirborðs
  3. Hálkuástand
  4. Vegsýn á vegamótum og útmokstur

Þjónustuflokkar eru fjórir og eru gæðakröfur mismunandi eftir flokkum.

Með fjarlægð frá þéttbýli er átt við helming af vegalengd milli þéttbýlisstaða. Dæmi: Milli Akureyrar og Varmahlíðar eru 94 km. Mesta fjarlægð frá þéttbýli er þá 47 km, vegur er í þjónustuflokki 2 og línuritið sýnir að öll leiðin skuli vera opin milli kl. 8:00 - 22:00

Heimilt er að færa til þjónustutíma um allt að eina klst., þannig að ef opnun vegar er flýtt að morgni, er þjónustu lokið að sama skapi fyrr að kvöldi, eða öfugt.

Í þjónustuflokki 1 á tímabilinu 0:00-06:00 skal miða við að gera hlé á þjónustu frá þeim tíma þegar umferðarmagn er komið undir 40 bíla á klst. og fram að þeim tíma sem er 1 klst. áður en morgunumferð nær sömu viðmiðunarmörkum. Miða skal við sama upphafs- og lokatíma alla daga vikunnar.

Vetrarþjónustuflokkar
Þjónustuflokkun vegakerfisins í vetrarþjónustu


Skýringar:
Lengd á vegi milli þéttbýlisstaða eða skilgreindra tengistaða er frá 5 til 20 km. Þéttbýlisstaðir eru staðir með íbúafjölda 200 eða fleiri, tengistaðir eru aðrir skilgreindir hnútpunktar í vegakerfinu. Ef vegur er styttri telst hann innan þéttbýlis, ef vegurinn er lengri telst hann sem langleið.
Á þeim vegum í þéttbýli sem Vegagerðin kostar vetrarþjónustu á, skal miða við að þjónustan sé að lágmarki sambærileg við þá þjónustu sem Vegagerðin veitir á aðliggjandi vegum.

Þjónustuflokkar í vetrarþjónustu

Þjónustuflokkur 1
Þjónustumarkmið
Leitast skal við að halda vegi í því ástandi að snjór og/eða ís hafi óveruleg áhrif á flæði eða öryggi umferðarinnar. Yfirborði vegarins skal haldið hreinu af snjó og ís allan sólarhringinn, allan veturinn.

Þjónustustig
Tímasetning og framkvæmd aðgerða
Snjómokstur skal byrja við minna en 2 sm snjódýpt og hreinsun akbrautar og vegamóta og hálkueyðingu skal lokið innan 2 klst. frá því að snjókomu lýkur. Mokstursferð fram og til baka skal ekki taka lengri tíma en 2 klst. og er þá miðað við að lengd þjónustusvæðis hvers ökutækis sé um 50 km.

Mesta snjódýpt og sléttleiki vegyfirborðs
Á meðan að snjókoma stendur yfir má leyfileg snjódýpt vera mest 5 sm. Mesta leyfilega spordýpt í þjöppuðu snjóyfirborði má ekki vera meiri en 1 sm.

Hálkuástand
Vegur skal hálkuvarinn hvenær sem hálka kemur upp eða hætta er á að hálka geti myndast. Markmiðið er að viðnámsstuðullinn sé hærri en 0,25 (hált), þ.e. að stöðvunarvegalengd ökutækis sé ekki lengri en 60 m sé ekið á 60 km/klst. Innan 1 klst. eftir að akbraut hefur verið hreinsuð, skal a.m.k. hálf axlarbreiddin vera hrein og hálkulaus. Þegar hiti í vegyfirborði er minni en -10°C og/eða þegar söltun kemur ekki að gagni skal sandbera þá staði sem eru viðsjárverðir fyrir ökumenn og skal akbrautin hafa fullnægjandi viðnám innan 2 klst. Á snjóþungum leiðum svo sem á fjallvegum og öðrum þeim vegum þar sem erfitt er að koma við hálkuvörnum skv. ofangreindu skal miða við sömu kröfur um hálkuvarnir og í þjónustuflokki 2.

Vegsýn í vegamótum og útmokstur
Vegsýn í vegamótum við stofn- og tengivegi má vera takmörkuð af snjóruðningum að hámarki í einn sólarhring. Sjónlengd í 1,1 m. hæð mælist frá punkti á tengivegi, 3 m. frá aðalvegi og skal hún minnst vera 200 m í báðar áttir svo framarlega sem sú sjónlengd er til staðar við venjulegar aðstæður. Jöfnun og sléttun rasta og snjóruðninga í vegköntum skal lokið innan eins sólarhrings frá því að mokstri akbrautar lýkur.
Þjónustuflokkur 2
Þjónustumarkmið
Leitast skal við að halda vegi í því ástandi að snjór og/eða ís hafi sem minnst áhrif á flæði eða öryggi umferðarinnar. Haust og vor, á meðan að snjólétt er, skal veginum haldið sem mest auðum og yfir veturinn vel greiðfærum og þá í samræmi við skilgreindan þjónustutíma á hverjum stað.

Þjónustustig
Tímasetning og framkvæmd aðgerða
Mokstur skal byrja við minna en 4 sm snjódýpt og hreinsun akbrautar og vegamóta og hálkueyðingu skal lokið innan 3 klst. frá því að snjókomu lýkur. Mokstursferð fram og til baka skal ekki taka lengri tíma en 2 klst. og er þá miðað við að lengd þjónustusvæðis hvers ökutækis sé um 50 km. Ef vegur er ófær í upphafi moksturs skal leitast við að opna veg svo fljótt sem unnt er og helst innan 2 klst. og er hámarkstími til að fullhreinsa akbraut og eyða hálkusvæðum 3 klst. frá því að snjókomu lýkur.

Mesta snjódýpt og sléttleiki vegyfirborðs.
Á meðan að snjókoma stendur yfir má leyfileg snjódýpt vera mest 12 sm. Við venjulegar aðstæður má mesta leyfilega spordýpt í þjöppuðu snjóyfirborði ekki vera meiri en 2 sm.

Hálkuástand
Vegur skal hálkuvarinn þegar flughálka kemur upp eða hætta er á að slík hálka geti myndast. Markmiðið er að viðnámsstuðullinn sé hærri en 0,15 (flughált), þ.e. að stöðvunarvegalengd ökutækis sé ekki lengri en 100 m sé ekið á 60 km/klst. og á varasömum stöðum og að við varasamar aðstæður sé hálkustuðullinn hærri en 0,25 (hált), þ.e. að stöðvunarvegalengd ökutækis sé ekki lengri en 60 m sé ekið á 60 km/klst. Innan 1 klst. eftir að akbraut hefur verið hreinsuð, skal a.m.k. hálf axlarbreiddin vera hrein og hálkulaus. Þegar hiti í vegyfirborði er minni en -10°C og/eða þegar söltun kemur ekki að gagni skal sandbera þá staði sem eru viðsjárverðir fyrir ökumenn og skal akbrautin hafa fullnægjandi viðnám innan 3 klst. Yfir snjóþyngsta tíma vetrarins er gert ráð fyrir að suma daga geti snjó- eða íslag með nægjanlegt viðnám verið á akbraut, en pakkaðan snjó skal þynna og jafna þannig að hjólför séu hættulaus. Á fjallvegum sem falla undir þennan flokk er gert ráð fyrir að við erfið veðurskilyrði geti þjónustustig verið lægra en að ofan greinir.

Vegsýn í vegamótum og útmokstur.
Vegsýn í vegamótum við stofn- og tengivegi má vera takmörkuð af snjóruðningum að hámarki í tvo sólarhringa. Sjónlengd í 1,1 m. hæð mælist frá punkti á tengivegi, 3 m. frá aðalvegi og skal hún minnst vera 200 m í báðar áttir svo framarlega sem sú sjónlengd er til staðar við venjulegar aðstæður. Jöfnun og sléttun rasta og snjóruðninga í vegköntum skal lokið innan tveggja sólarhringa frá því að mokstri akbrautar lýkur.
Þjónustuflokkur 3
Þjónustumarkmið
Leitast skal við að halda vegi í því ástandi að snjór og/eða ís hafi sem minnst áhrif á flæði eða öryggi umferðarinnar. Haust og vor, á meðan að snjólétt er, skal veginum haldið greiðfærum alla virka daga svo og yfir veturinn á opnunardögum og þá í samræmi við skilgreindan þjónustutíma á hverjum stað.

Þjónustustig
Tímasetning og framkvæmd aðgerða
Mokstur skal byrja við minna en 6 sm snjódýpt og hreinsun akbrautar og vegamóta og hálkueyðingu skal lokið innan 3 klst. frá því að snjókomu lýkur. Mokstursferð fram og til baka skal ekki taka lengri tíma en 3 klst. og er þá miðað við að lengd þjónustusvæðis hvers ökutækis sé um 60 km. Á snjóléttum langleiðum á láglendi, þar sem VDU < 100 b/d, getur þessi lengd orðið allt að 120 km. Ef vegur er ófær í upphafi moksturs skal leitast við að opna veg svo fljótt sem unnt er og helst innan 3 klst. og er hámarkstími til að fullhreinsa akbraut og eyða hálku-svæðum 4 klst. frá því að snjókomu lýkur.

Mesta snjódýpt og sléttleiki vegyfirborðs
Á meðan að snjókoma stendur yfir má leyfileg snjódýpt vera mest 16 sm. Við venjulegar aðstæður má mesta leyfilega spordýpt í þjöppuðu snjóyfirborði ekki vera meiri en 3 sm.

Hálkuástand
Vegur skal hálkuvarinn á varasömum stöðum eða við varasamar veðuraðstæður (þ.e. þar sem og þegar búast má við sterkum vindstrengjum eða sviptivindum) þegar flughálka kemur upp eða hætta er á að slík hálka geti myndast. Markmiðið er að viðnámsstuðullinn sé hærri en 0,15, þ.e. að stöðvunarvegalengd ökutækis sé ekki lengri en 100 m sé ekið á 60 km/klst. og að á mjög varasömum stöðum sé viðnámsstuðulinn hærri en 0,25, þ.e. að stöðvunarvegalengd ökutækis sé ekki lengri en 60 m sé ekið á 60 km/klst. Þegar hiti í vegyfirborði er minni en -10°C og/eða þegar söltun kemur ekki að gagni, skal einungis sandbera þá staði sem eru viðsjárverðir fyrir ökumenn og skal þar vera fullnægjandi viðnám innan 4 klst. Yfir snjóþyngsta tíma vetrarins er gert ráð fyrir að snjó- eða íslag með nægjanlegt viðnám geti verið á akbraut, en pakkaðan snjó skal þynna og jafna þannig að hjólför séu hættulaus.


Vegsýn í vegamótum og útmokstur.
Vegsýn í vegamótum við stofn- og tengivegi má vera takmörkuð af snjóruðningum að hámarki í þrjá sólarhringa. Sjónlengd í 1,1 m. hæð mælist frá punkti á tengivegi, 3 m. frá aðalvegi og skal hún minnst vera 200 m í báðar áttir svo framarlega sem sú sjónlengd er til staðar við venjulegar aðstæður. Jöfnun og sléttun rasta og snjóruðninga í vegköntum skal lokið innan þriggja sólarhringa frá því að mokstri akbrautar lýkur.
Þjónustuflokkur 4
Þjónustumarkmið
Leitast skal við að halda vegi í því ástandi að snjór og/eða ís hafi sem minnst áhrif á flæði eða öryggi umferðarinnar. Haust og vor, á meðan að snjólétt er, skal veginum haldið opnum alla virka daga svo og yfir veturinn á opnunardögum og þá í samræmi við skilgreindan þjónustutíma á hverjum stað. Að öllu jöfnu skal ganga þannig frá snjóruðningum að vegur geti sem lengst haldist opinn þá daga sem ekki er mokað.

Þjónustustig
Tímasetning og framkvæmd aðgerða
Mokstur skal byrja við minna en 8 sm snjódýpt og hreinsun akbrautar og vegamóta og hálkueyðingu skal lokið innan 4 klst. frá því að snjókomu lýkur. Mokstursferð fram og til baka skal ekki taka lengri tíma en 4 klst. og er þá miðað við að lengd þjónustusvæðis hvers ökutækis sé um 80 km. Á snjóléttum langleiðum á láglendi, þar sem VDU < 100 b/d, getur þessi lengd orðið allt að 120 km. Ef vegur er ófær í upphafi moksturs skal leitast við að opna veg svo fljótt sem unnt er og helst innan 4 klst. og er hámarkstími til að fullhreinsa akbraut og eyða mjög slæmum hálkusvæðum 6 klst. frá því að snjókomu lýkur.

Mesta snjódýpt og sléttleiki vegyfirborðs
Á meðan að snjókoma stendur yfir má leyfileg snjódýpt vera mest 18 sm. Við venjulegar aðstæður má mesta leyfilega spordýpt í þjöppuðu snjóyfirborði ekki vera meiri en 5 sm.

Hálkuástand
Vegur skal hálkuvarinn á varasömum stöðum eða við varasamar veðuraðstæður (þ.e. þar sem og þegar búast má við sterkum vindstrengjum eða sviptivindum) þegar flughálka kemur upp eða hætta er á að slík hálka geti myndast. Markmiðið er að viðnámsstuðullinn sé hærri en 0,15, þ.e. að stöðvunarvegalengd ökutækis sé ekki lengri en 100 m sé ekið á 60 km/klst. og að á mjög varasömum stöðum sé viðnámsstuðulinn hærri en 0,25, þ.e. að stöðvunarvegalengd ökutækis sé ekki lengri en 60 m sé ekið á 60 km/klst. Þegar hiti í vegyfirborði er minni en -10°C og/eða þegar söltun kemur ekki að gagni, skal einungis sandbera þá staði sem eru viðsjárverðir fyrir ökumenn og skal þar vera fullnægjandi viðnám innan 4 klst. Yfir snjóþyngsta tíma vetrarins er gert ráð fyrir að snjó- eða íslag með nægjanlegt viðnám geti verið á akbraut, en pakkaðan snjó skal þynna og jafna þannig að hjólför séu hættulaus.


Vegsýn í vegamótum og útmokstur
Vegsýn í vegamótum við stofn- og tengivegi má vera takmörkuð, en þó ekki þannig að veruleg hætta stafar af. Jöfnun og sléttun rasta og snjóruðninga í vegköntum skal lokið innan þriggja sólarhringa frá því að mokstri akbrautar lýkur. Að öllu jöfnu skal ekki mokað út nema þar sem brýna nauðsyn ber til vegna umferðaröryggis eða þar sem nauðsynlegt er m.t.t. snjósöfnunar