Fréttir
  • Frá framkvæmdum við Dýrafjarðargöng Arnarfjarðarmegin árið 2019.
  • Yfirlit yfir jarðgangakosti.
  • Hér sést hvenær jarðgöng á Íslandi voru opnuð fyrir umferð og heildarlengd þeirra.
  • Yfirlitsáætlun jarðganga var gefin út í sumar.

Yfirlitsáætlun jarðganga

Tekin fyrir 23 jarðgangaverkefni

8.11.2021

Mikill áhugi er á samgöngubótum með jarðgöngum um allt land. Nokkuð hefur áunnist síðustu ár en frá árinu 1988 til 2020 voru grafnir 64 km af jarðgöngum, eða að jafnaði 2 km á hverju ári. Vegagerðin hefur unnið yfirlitsáætlun  jarðganga þar sem 23 jarðgangaverkefni eru tekin til athugunar, þar af fimm á höfuðborgarsvæðinu.

Hérlendis voru fyrstu veggöngin grafin árið 1948 í gegnum Arnardalshamar milli Ísafjarðar og Súðavíkur, þau voru einungis 30 m löng og voru svo breikkuð árið 1995 og eru enn í notkun. Frá þeim tíma hefur verið unnið að jarðgangagerð á landinu með nokkrum hléum til að byrja með en frá því að Múlagöng til Ólafsfjarðar voru opnuð árið 1990 og þar til Dýrafjarðargöng voru tekin í notkun árið 2020 var nokkuð samfelld jarðgangagerð í landinu.

Á vegakerfinu í dag eru 12 jarðgöng sem alls eru 64 km að lengd. Auk þeirra hafa verið grafin Oddskarðsgöng sem voru aflögð þegar Norðfjarðargöng voru tekin í notkun og jarðgöng undir Húsavíkurhöfða sem ekki eru opin almennri umferð.

Árið 2000 var jarðgangaáætlun samþykkt á Alþingi þar sem horft var til langs tíma og fjölmargir jarðgangakostir teknir til skoðunar. Þar var einnig tekin afstaða til þess hvar næstu jarðgöng skuli gerð, og áætlun lögð fram um framkvæmdatíma og fjármögnun. Þeirri jarðgangaáætlun hefur verið fylgt að mestu leyti.

Í samgönguáætlun 2020-2034 sem samþykkt var á Alþingi 29. júní 2020 er fjallað um jarðgangaáætlun. Þar kemur m.a. fram að stefnt sé að því að unnin verði heildstæð greining á jarðgangakostum á Íslandi og að þar verði valkostir á einstökum leiðum metnir með tilliti til fýsileika, kostnaðar og félagshagfræðilegs ábata. Á grunni þeirrar greiningar verði svo hægt að forgangsraða jarðgangakostum til lengri tíma.

Í samgönguáætlun 2020-2034 er jafnframt gerð grein fyrir forgangsröðun og fjármögnun næstu jarðgangakosta. Samkvæmt þeirri áætlun eru næstu jarðgöng Fjarðarheiðargöng til Seyðisfjarðar og í framhaldinu eru Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng. Nýmæli í samgönguáætlun 2020-2034 er að einungis er gert ráð fyrir að helmingur stofnkostnaðar jarðganga sé fjármagnaður af samgönguáætlun, til viðbótar er gert ráð fyrir að helmingur stofnkostnaðar sé fjármagnaður með gjaldtöku í jarðgöngum.  Þá samþykkti Alþingi árið 2020 lög um samvinnuverkefni sem heimila Vegagerðinni að gera samninga við einkaaðila um tilteknar samgönguframkvæmdir og eru þar tvenn jarðgöng tiltekin, annars vegar jarðgöng í Reynisfjalli og hins vegar ný Hvalfjarðargöng. 

Frá því að gröftur Múlaganga til Ólafsfjarðar hófst 1988 og þar til Dýrafjarðargöng opnuðu árið 2020 hafa alls verið grafnir um 64 km af jarðgöngum eða að jafnaði um 2 km á hverju ári sem hefur að mestu verið samfelldur eins og sést á meðfylgjandi mynd.  Í augnablikinu er hins vegar hlé á jarðgangagreftri en vinna er í gangi við undirbúning og mat á umhverfisáhrifum Fjarðarheiðarganga.

Það er mikill áhugi á samgöngubótum með jarðgöngum um allt land eins og m.a. kom fram á opnum samráðsfundum samgönguráðs vorið 2021 og í samskiptum Vegagerðarinnar við sveitarfélög og landshlutasamtök. Ýmist leysa jarðgöng af hólmi erfiða fjallvegi, vegi þar sem hætta er á snjóflóðum, þar sem stytta má vegalengdir og/eða ný jarðgöng stækka atvinnusvæði.

Mikilvægt er að vanda til verka og hefur því Vegagerðin tekið saman yfirlitsáætlun þeirra jarðgangakosta sem hafa verið til skoðunar og umfjöllunar á undanförnum árum og birt á heimasíðu sinni ásamt helstu greinargerðum og athugunum sem liggja þar að baki.

Yfirlitsáætlunina má skoða hér

Þessi yfirlitsáætlun byggir á fyrirliggjandi athugunum og er fyrst og fremst hugsuð sem grunnur að frekari greiningu sem þarf að ráðast í til að hægt sé að forgangsraða jarðgangakostum umfram það sem kemur fram í núgildandi samgönguáætlun. 

Í yfirlitsáætluninni er alls fjallað um 23 jarðgangaverkefni sem hafa verið til athugunar þar af eru 5 þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

Göng á landsbyggðinni (í landfræðilegri röð):

1.       Reynisfjall

2.       Hvalfjörður

3.       Klettsháls

4.       Miklidalur

5.       Hálfdán

6.       Dynjandisheiði

7.       Breiðadalsleggur

8.       Ísafjörður-Súðavík

9.       Öxnadalsheiði

10.   Göng á Tröllaskaga (Heljardalsheiði/Skíðadalsleið/Hjaltadalsheiði)

11.   Siglufjarðarskarð

12.   Ólafsfjarðarmúli

13.   Vopnafjörður – Hérað

14.   Fjarðarheiði

15.   Seyðisfjarðargöng

16.   Mjóafjarðargöng

17.   Berufjarðarskarð/Breiðdalsheiði

18.   Lónsheiði

Göng og stokkar á Höfuðborgarsvæðinu:

19.   Reykjanesbraut: Holtavegur – Stekkjabakki, stokkur

20.   Miklabraut stokkur/göng

21.   Stokkur í Garðabæ

22.   Reykjanesbraut Álftanesvegur – Lækjargata, undir Setbergshamar

23.   Sundagöng

Yfirlitsáætlunin var tekin saman af Gísla Eiríkssyni fyrrverandi forstöðumanni jarðgangadeildar Vegagerðarinnar og Frey Pálssyni, verkefnisstjóra jarðganga á hönnunardeild Vegagerðarinnar.

Þessi grein birtist í 6. tbl. Framkvæmdafrétta.   Rafræna útgáfu má finna hér.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.