Fréttir
  • Herjólfur í Landeyjahöfn
  • Röst frá Norður-Noregi

Viðgerð á Herjólfi frestað

siglingar til Vestmannaeyja tryggðar eftir 30. september

22.9.2017

 

Unnið er að því að Herjólfur hefji svo fljótt sem kostur er aftur siglingar milli Vestmannaeyja og lands eftir að ljóst var að varahlutir í gír skipsins berast ekki fyrr en í fyrsta lagi undir lok september og að ekki fengist undanþága fyrir norsku ferjuna Röst til að sigla í Landeyjahöfn í október. Herjólfur verður tilbúinn til siglinga fyrir þann tíma.

Síðan í vikubyrjun hefur Herjólfur verið í viðgerð í Hafnarfirði og svipað skip, norska ferjan Röst, hefur sinnt siglingum í Landeyjahöfn á meðan. Þegar í ljós kom að ekki fengist leyfi fyrir Röst til siglinga í Þorlákshöfn og ekki í Landeyjahöfn eftir 30. september var reynt að flýta sem kostur er viðgerð á Herjólfi.

Eimskip er rekstraraðili Herjólfs og samningsbundinn Vegagerðinni í þurrleigusamningi til að annast allan  rekstur skipsins og sinna viðhaldi þess og viðgerðum. Undirverktaki erlendis hafði lofað Eimskip því að varahlutirnir í gírinn yrðu tilbúnir þann 15. september en nú hefur komið í ljós að það verður ekki fyrr en í fyrsta lagi í lok mánaðar.

Reynt var að fá undanþágu fyrir siglingar Rastar í Landeyjahöfn fyrstu dagana í október en norska siglingastofnunin hafnaði þeirri beiðni eiganda skipsins í gær.

Því var sú ákvörðun tekin í beinu framhaldi af því að fresta viðgerðinni og gera Herjólf tilbúinn til siglinga þannig að ekki kæmi til þess að hlé yrði á siglingum til Vestmannaeyja. Starfsmenn Eimskips og viðgerðarmenn á þeirra vegum, sem koma erlendis frá, eru þegar byrjaðir á þessu verki.

Vegagerðin hefur þegar hafið leit að öðru skipi sem mun hafa heimild til að sigla á hafsvæði B og geti þannig siglt í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn eftir 1. október, þannig að hægt verði að ljúka síðar við viðgerð Herjólfs.

Rekstur Herjólfs er bundinn í þurrleigu- og rekstrarsamningum við Eimskip. Í krafti þessara samninga er Eimskip ábyrgt fyrir rekstri skipsins, viðhaldi og viðgerðum þess, þar með talið yfirstandandi viðgerð á skipinu, sem og öllu sem snýr að notendum þjónustunnar svo sem áætlunum skipsins o.s.frv. Í slipptöku Herjólfs á vegum Eimskip sl. vor,  komu fram við reglubundið eftirlit, skemmdir í sérsmíðuðum stjórnborðs niðurfærslugír aðalvélar skipsins. Þar sem um sérsmíði er að ræða, veitti eftirlitsaðili skipsins, þ.e.a.s. flokkunarfélag skipsins, frest til loka nóvember að ljúka varanlegri viðgerð á gírnum.

Í fyrrnefndum rekstrarsamningi ber Vegagerðinni að útvega Eimskip annað hentugt skip til Vestmannaeyjasiglinga í tilfellum þess að Herjólfur er frá siglingum vegna viðgerða, tjóna o.s.frv. Eimskip, skv. upplýsingum frá undirverktökum, upplýsti Vegagerðina svo seint sem í byrjun september, að umræddir varahlutir yrðu tilbúnir til afhendingar 15. sept. Í krafti þess og til að ljúka viðgerðum á Herjólfi sem fyrst, ekki síst vegna haustveðra og þess að skilgreining siglingaleiðarinnar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar breytist eftir septemberlok og þá eru gerðar meiri kröfur til skipakostsins. Vegagerðin leigði ekju-farþegaferjuna Röst frá Norður Noregi til afleysinga fyrir Herjólf á fyrrnefndum forsendum um afhendingu varahluta. Eftir brottför Rastar frá Noregi bárust síðan tilkynningar um að afhending fyrrnefndra varahluta drægist til 22. sept., og skömmu síðar að um frekari seinkun yrði að ræða eða til 28 sept. og að lokum nýjasta tilkynningin um að afhending dragist til 2. okt. Röst hafði upphaflega haffæriskírteini til siglinga á svo nefnum B-hafsvæðum, þ.e.a.s. siglingaleiðunum milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar sem og Þorlákshafnar, en vegna mistaka hjá útgerð skipsins og norsku siglingastofnuninni, þá var haffæri skipsins fært niður í C-haffæri, en með slíku haffæri er Röst ekki heimilt að sigla frá Vestmannaeyjum í áætlanasiglingum eftir 30. sept. Í ljósi áður nefndra ítrekaðra seinkana varahluta og nýjustu og “bestu" áætlun viðgerðaraðila Eimskips, þá myndi viðgerð á Herjólfi ekki ljúka fyrr en 11. okt. Í ljósi framangreinds leitaði Vegagerðin til Samgöngustofu sem “gestaríkis” Rastar um vilyrði stofnunarinnar til norsku siglingamálastofnunarinnar um veitingu undanþágu til Rastar til Vestmannaeyjasiglinga (þ.e.a.s. á B-hafsvæðum) fram til 15. okt. Samgöngustofa varð við þessari beiðni, en beiðni útgerðar Rastar til norsku siglingastofnunarinnar um slíka undanþágu var alfarið hafnað.

Í ljósi þess að höfnun norsku siglingastofnunarinnar á undanþágubeiðni fyrir Röst ásamt ítrekuðum seinkunum á varahlutum í Herjólf hefði leitt af sér ferjusambandsleysi við Vestmannaeyjar í allt að því tvær vikur, er eini augljósi valkosturinn að fresta viðgerðum á Herjólfi þar til síðar í haust. Því er nú unnið að því að koma Herjólfi á ný í haffært ástand, þannig að skipið hefji áætlunarsiglingar frá Vestmannaeyjum sem fyrst.