Fréttir
  • Oft er snjóasamt á Dynjandisheiði.
  • Rafn Pálsson í góðum félagsskap.
  • Vetrarþjónusta Vegagerðarinnar á Vestfjörðum nær yfir stórt svæði.
  • Upplýsingar um Dynjandisheiði.
  • Byrjað er að ryðja snjó árla morguns.

Nýtt myndband: Vetrarþjónusta á Vestfjörðum

Frá Reykjanesi að Flókalundi yfir Dynjandisheiði

14.3.2023

Yfir vetrartímann er í mörg horn að líta hjá starfsfólki Vegagerðarinnar og þar spilar veðrið stórt hlutverk. Vetrarþjónusta sem heyrir undir þjónustustöðina á Ísafirði er í brennidepli í nýju myndbandi Vegagerðarinnar. 

Verkefnin ná yfir stórt svæði, eða allt frá Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi að Flókalundi í Breiðafirði að meðtaldri Dynjandisheiði. Árið 2022 óku vetrarþjónustubifreiðar alls 396.088 km á Vestfjörðum og Vesturlandi en til samanburðar voru eknir 270.819 km árið 2021 á sama svæði. Á landinu öllu árið 2022 var heildarakstur vetrarþjónustubifreiða í snjómokstri og hálkuvörn 1.724.800 km. Heildarkostnaður vegna vetrarþjónustu fyrir allt landið árið 2022 var 4.660 milljónir króna.  Mest er að gera í vetrarþjónustu í desember, janúar og febrúar en það getur þó verið breytilegt og er háð veðri hverju sinni. 

Stinga í gegn á fjórum tímum

„Í vetrarþjónustu sjáum við um snjómokstur frá Reykjanesi að Flókalundi yfir Dynjandisheiðina. Þetta er þriðji veturinn sem við reynum að halda Dynjandisheiðinni opinni allan veturinn,“ segir Sigurður Sverrisson, yfirverkstjóri á Ísafirði, í myndbandinu. 

Fimm manns sinna eftirliti fyrir þjónustustöðina á Ísafirði. Haraldur Kristinsson er einn þeirra en hann er einnig hefilstjóri. Haraldur segir miklu breyta að hafa Dynjandisheiðina opna yfir vetrartímann en það styttir leiðina mikið milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar,að aka 140 kílómetra í staðinn fyrir rúma 400 kílómetra þegar heiðin er ófær. Oft er þó snjóasamt á heiðinni og þá getur tekið allt að fjóra tíma að stinga þar í gegn.  

„Ef ég fer á heflinum er ég allt að sex til átta tíma að fara fram og til baka. Hér áður fyrr var heiðin ekkert mokuð. Þegar ég var lítill var orðið ófært í október, nóvember og þá fór enginn bíll til Reykjavíkur aftur fyrr en í maí, þannig að þetta er mikil breyting,“ segir Haraldur í myndbandinu, en vegurinn er í rúmlega 500 metra hæð þar sem hann er hæstur og þar er allra veðra von. 

Oft þarf að nota stór tæki við snjómoksturinn, ekki síst þegar miklum snjó hefur kyngt niður á skömmum tíma. 

„Við komum með blásarann þegar það er meiri snjór og meira að taka, en annars sér traktorinn um þetta,“ segir Gunnar Jónsson vélamaður.  

Pjakkur er með bíladellu

Í myndbandinu er einnig rætt við Rafn Pálsson, vélamann og rafvirkja.  „Þetta snýst um að fara varlega og vera ekki með neinn töffaraskap,“ segir hann en vinnudagarnir geta verið langir. Rafn er með skemmtilegan félagsskap í vinnunni sem styttir honum stundirnar. „Ég er ekki einn, ég tek hundinn með. Hann er með bíladellu,“ segir Rafn en hundurinn heitir Pjakkur. 

Hér má sjá myndbandið. 

 

Vetrarþjónusta á Vestfjörðum