Fréttir
  • Fundur á Kjalarnesi, mynd Valtýr Þórisson

Vesturlandsvegur 2 + 1 -- kynning

deiliskipulag kynnt á Kjalarnesi

6.9.2017

Vegagerðin og umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar héldu nýlega kynningarfund fyrir landeigendur og aðra hagsmunaaðila  vegna tillögu um nýtt deiliskipulag fyrir Vesturlandsveg á Kjalarnesi sem felur í sér gerð 2+1 vegar upp að Hvalfjarðargöngum. Fundurinn var vel sóttur.
Í vinnslu er nýtt deiliskipulag fyrir Vesturlandsveg frá sveitarfélagsmörkum við Mosfellsbæ að Hvalfjarðargöngum. Um er að ræða ca. 14 km kafla og skilgreint helgunarsvæði Vesturlandsvegar. Tildrög verkefnisins eru að Vegagerðin hyggur á næstu árum á framkvæmdir á um 9 km kafla fyrir 2+1 veg frá Hvalfjarðargöngum að Kollafirði í núverandi vegastæði. Einnig er vonast til þess að með skipulagsvinnunni  náist heildstætt yfirlit yfir alla aðra samgönguþætti sem þarf að útfæra nánar í skipulagi, þ.e.a.s. hliðarvegi, göngustíga, reiðleiðir og hjólaleiðir. Meðal markmiða skipulagsins og framkvæmda er að Vesturlandsvegur verði endurbættur til að auka öryggi umferðar og greiða fyrir umferð og er því verið að skoða fækkun tenginga við þjóðveginn með gerð hliðarvega sem tengjast við þjóðveginn með hringtorgum á völdum stöðum.

Sjá nánar á vef Reykjavíkur, þar sem finna má glærur frá fundinum.

Myndina sem fylgir fréttinni tók Valtýr Þórisson.