Fréttir
  • Lagfæringar á bryggjunni á Reykhólum
  • Lagfæringar á bryggjunni á Reykhólum
  • Lagfæringar á bryggjunni á Reykhólum
  • Lagfæringar á bryggjunni á Reykhólum
  • Lagfæringar á bryggjunni á Reykhólum
  • Lagfæringar á bryggjunni á Reykhólum

Vel gekk að gera við skemmdir á bryggjunni í Reykhólahreppi

Viðgerðin er til bráðabirgða

28.7.2022

Gert hefur verið við skemmdir í höfninni í Reykhólahreppi til bráðabirgða til þess að tryggja óskerta starfsemi Þörungaverksmiðjunnar. Viðgerðinni lauk um klukkan fjögur í nótt og var þá hægt að koma krana, sem verksmiðjan notar við losun, af bryggjunni.

Stór hluti úr bryggjunni hrundi í fyrrinótt eða um fjórðungur bryggjunnar. Stálþilsbryggjan var yfir 50 ára gömul og var stálið orðið verulega tært, með mikið af götum sem takmarkaði burðarþol bryggjunnar. Framkvæmdir við endurbyggingu voru þegar hafnar þegar hún hrundi. Í vetur mun svo nýtt stálþil verða rekið niður framan við bryggjuna. Það er hannað fyrir meira viðlegudýpi heldur en núverandi bryggja. Framkvæmdin er inn á samgönguáætlun og hefur hafnadeild Vegagerðarinnar umsjón með framkvæmdum fyrir hönd Reykhólahrepps en verkkaupi verksins er hafnasjóður Reykhólahrepps.

Verktaki sem var að vinna í vegagerð í nágrenninu, Skútaberg ehf., kom til hjálpar með fjölda tækja til að fylla í holuna sem hafði myndast eftir að hrundi úr bryggjunni, en starfsmenn Reykhólahrepps, Þörungaverksmiðjunnar, verktakans og landeiganda þar sem efni fékkst í viðgerðina, brugðust snarlega við.

Starfið hófst strax í gærdag en um kl. 20 var hafist handa við að keyra efni í holuna og var lokið við að fylla hana í nótt en alls fóru um 1000 m3 í viðgerðina. Miklu skipti að vinna þetta hratt svo ekki kæmi til þess að meira efni myndi skolast út þegar félli að aftur.

Tjónið er ekki metið mikið og mun ekki hafa áhrif á endurbygginguna sem farið verður í haust þegar Borgarverk ehf. mun reka niður stálþil framan við bryggjuna. Þegar þeirri framkvæmd lýkur mun aðstaða fyrir skip stórbatna í Reykhólahreppi.