Fréttir
  • Árekstrarvörn á bíl, fyrir vinnusvæði
  • Unnið við holuviðgerðir

Vegavinnufólk í lífshættu

hraðakstur vegfarenda skapar stórhættu

15.6.2018

Starfsmenn verktaka og Vegagerðarinnar sem vinna nú að viðhaldi á vegakerfinu eru oft í mikilli hættu við störf sín og jafnvel lífshættu þar sem ökumenn virða ekki hraðatakmarkanir  á vinnusvæðum. Nú þegar aukinn kraftur er settur í viðhald vega og umferð hefur aukist gríðarlega þá eykst hættan á alvarlegum slysum að sama skapi.

Því er enn mikilvægara en áður að ökumenn og vegfarendur virði hraðatakmarkanir og aðrar takmarkanir sem settar eru í umferðinni til að sinna megi því viðhaldi sem algjörlega nauðsynlegt er að sinna. Mörg tilvik hafa orðið nú í sumar þar sem legið hefur við slysum og hefur Vegagerðin og verktakar sem vinna við viðhald og aðrar framkvæmdir stórar áhyggjur af ástandinu sem virðist frekar fara versnandi en hitt.

Sérstaklega veldur það áhyggjum að í auknum mæli virða atvinnubílstjórar ekki heldur merkingar og tilmæli um að draga úr hraða. Það segir sig sjálft að það þarf ekki að spyrja að því hvað gerist ef eitthvað fer úrskeiðis hjá tuga tonna þungum vörubíl á vinnusvæði þar sem starfsmenn hafa ekki annað sér til varnar en hjálm og stáltáarskó.

Framkvæmdasvæði eiga að vera vel merkt og þeir sem starfa fyrir Vegagerðina fá ekki að vinna verk nema starfsmaður hjá þeim hafi farið á ítarlegt námskeið um vinnusvæðamerkingar. Þrátt fyrir að merkingar hafi batnað og séu víða til fyrirmyndar dugir það ekki til ef ökumenn taka ekki mark á þeim merkingum.

Því eru ökumenn hvattir til að sýna varúð við vinnusvæði og virða merkingar. Hraði á höfuðborgarsvæðinu t.d. er tekinn niður úr 60 eða 80 niður í 50 eða jafnvel 30 á stuttum köflum. Það segir sig sjálft að það er ekki mikið mál fyrir ökumann á 500 m kafla að aka á 50 í stað 80 eða 30 í stað 50, það mun ekki skipta sköpum hvort menn eru hálfri mínútunni lengur á leiðinni en vanalega.

Bið vegna framkvæmda getur auðvitað orðið lengri en þá er gott fyrir vegfarendur að hafa í huga að viðhald er algerlega nauðsynlegt og betra hlýtur að vera að tefjast um fáar mínútur að sumri til og losna í staðinn við að keyra það sem eftir er árs á holóttum vegi. Í raun ættu vegfarendur að fagna þessum töfum því þær bæta vegakerfið og tryggja greiða leið allra næstu mánuði og jafnvel ár.

Vegagerðin óskar eftir góðri samvinnu við alla þá sem eru á ferðinni, að fólk sýni tillitssemi og minnist þess að alvarlegt slys verður ekki aftur tekið en sekúndu eða mínútu flýting skiptir litlu. Flýtið ykkur hægt og virðið allar merkingar, lífið er dýrmætt.  

Á efri myndinni má sjá stærsta stuðari á Íslandi. Þjónustustöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði hefur tekið í notkun stóra varnarbifreið með öryggispúða sem notaður verður sem árekstrarvörn við vinnu á umferðarmestu vegum svæðisins. Varnarbifreiðin er búin tveimur stefnuvirkum gulum viðvörunarljósum (merkjaskjöldum) sem blikka samtímis og gefa vegfarendum viðeigandi merki. 

Á neðri myndinni má sjá starfsmenn Vegagerðarinnar við holuviðgerðir.