Fréttir
  • Grætt upp með lúpínu.
  • Páll Valdimar Kolka Jónsson.

Vegagerðin tekur græn skref inn í framtíðina

Vel er hugað er að umhverfismálum hjá Vegagerðinni

15.5.2019

„Vegagerðin er að gera mun meira í umhverfismálum en flestir átta sig á enda snerta þau flesta fleti í starfseminni,“ segir Páll Valdimar Kolka Jónsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá Vegagerðinni.

Páll segir leikreglur umhverfisverndar í raun frekar einfaldar. „Þær felast í að kaupa minna, nota minna og henda minna. Þennan hugsunarhátt erum við að innleiða hjá starfsmönnum Vegagerðarinnar.“

Græn skref

Unnið er að því að innleiða Græn skref í ríkisrekstri hjá Vegagerðinni en markmið þeirra er að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti. Með Grænu skrefunum, sem eru fimm í allt, er innleidd stefna ríkisins um vistvæn innkaup og grænan rekstur.

Páll segir vinnuna við innleiðingu Grænu skrefanna ganga vel. „Allar starfsstöðvar okkar munu taka skref framávið í ár og fá viðurkenningu fyrir það,“ segir hann.

Í skrefunum eru tilteknar ýmsar leiðir til að minnka orkunotkun, þar eru reglur um flokkun og minni sóun, samgöngur og innkaup á vörum. 

Páll segir nýtni og ráðdeildarsemi mikilvægan þátt og þar hafi Vegagerðin ávallt staðið sig vel. „Í fjöldamörg ár hefur til dæmis tíðkast að endurnýta alla pappakassa sem stofnuninni berast. Þannig eru varahlutir, rekstrarvörur, steinefnasýni og fleira sent á milli starfsstöðva í notuðum pappakössum.“

Hann bendir á að Vegagerðin vinni stöðugt að því að þróa sterkara slitlag sem endist lengur. „Vegagerðin hefur einnig unnið að því að gera vistferilsgreiningar á mismunandi tegundum af brúm til að meta umhverfisáhrif ólíkra mannvirkja.“

Endurheimt votlendis og viðhald gróðurs

Vegagerðin hefur fyrir reglu að endurheimta votlendi í takt við það rask sem hún veldur. „Fyrir hvern hektara sem raskað er þarf að endurheimta einn hektara votlendis. Átak var gert í þessum málum fyrir nokkrum árum sem við búum enn að í dag. Þá var fyllt upp í skurði á 237 hektara landi á Vesturlandi,“ lýsir Páll.

Einnig hefur verið stefna stofnunarinnar að minnka allt rask við vegagerð og græða upp eins og kostur er. „Við höfum þróað aðferðir við að nýta nærgróður til að græða upp vegfláa og eru starfsmenn Vegagerðarinnar mjög metnaðarfullir í að gera vel í þessum málum.“

En hvert stefnir Vegagerðin í umhverfismálum? „Það er ósk okkar að fólk tengi nafn Vegagerðarinnar á jákvæðan hátt við umhverfismál. Enda viljum við vera fyrirmynd í þessum málum og höfum alla burði til þess.“