Fréttir
  • Ný heimasíða

Vegagerðin nýtir Twitter til upplýsingagjafar

breytt vinnulag en minni breyting fyrir notendur

14.2.2019

Vegagerðin hefur tekið Twitter í þjónustu sína til að bæta upplýsingagjöfina um færð og aðstæður. Eftir sem áður munu allar sömu upplýsingar birtast á heimasíðu Vegagerðarinnar og birtast á twitter þótt starfsmenn tísti nú til að koma upplýsingunum frá sér. Hvorki færðarkort Vegagerðarinnar né app breytast svo neinu nemur, fyrir utan að þessar textaupplýsingar fyrir hvert landssvæði munu birtast fyrir neðan færðarkort landshlutans. Síðar munu þær einnig birtast í appinu.

Vegagerðin hefur tekið twitter í þjónustu sína með þeim hætti að nú skrifa starfsmenn okkar í upplýsingaþjónustunni allar upplýsingar um færð og aðstæður á Twitter. Þannig er skrifað nýtt tíst í hvert sinn sem breyting verður á skráningu á færð eða öðrum aðstæðum. Þannig birtast allar upplýsingar á Twittersíðu Vegagerðarinnar sem vinnur þar undir @vegagerdin 

Það mun ekki breyta því að allar sömu upplýsingar munu sjálfkrafa birtast á heimasíðu Vegagerðarinnar. Upplýsingar eru ritaðar á twitter en birtast einnig í aðlöguðu útliti á heimasíðunni. Til að byrja með verður þetta á íslensku heimasíðunni en þegar fram í sækir munu sömu upplýsingar birtast með sama hætti á ensku á www.road.is og þá á ensku líka á Twitter.

Meginhugsun með þessum breytingum er einmitt að freista þess að ná betur til erlendra ferðamanna og veita þeim allra bestu og nýjustu upplýsingar hverju sinni. Einnig mun Vegagerðin þá verða sýnilegri á Twitter almennt en það er samfélagsmiðillinn sem erlendir ferðamenn nýta sér í meira mæli en Íslendingar almennt.

Vegagerðin mun notast við myllumerki (hashtags) og hefur reyndar þegar byrjað að tvíta þannig. Notast er mest við #færðin og einnig #lokað og #vegavinna. Einnig fyrir enskumælandi notendur er notast við #IcelandRoads og #WeatherIs.

Þrátt fyrir þessar breytingar verður engin breyting á færðarkortinu sjálfu og heldur ekki á appi Vegagerðarinnar. Vegagerðina er líka að finna á Facebook, á Instagram og jafnvel YouTube en miðillinn til að miðla færðar og ástands upplýsingum verður Twitter - auk heimasíðunnar en mikilvægi hennar er og verður enn mest.