Fréttir
  • Hreinn Haraldsson hefur í nógu að snúast þó hann sé hættur að vinna. Mynd/Sólveig Gísladóttir
  • Hreinn með eiginkonu sinni, börnum, tengdabörnum og barnabörnum í Frakklandi í sumar.
  • Hreinn ungur að árum á skrifstofu Vegagerðarinnar með Gunnari Bjarnasyni.
  • Hreinn með Sören Langvad forstjóra Pihl & søn eftir vígslu jarðganga undir Breiðdals- og Botnsheiði árið 1996.
  • Þrír vegamálastjórar og stytta af þeim fjórða. Þarna má sjá Helga Hallgrímsson, Jón Rögnvaldsson, Hrein Haraldsson og brjóstmynd af Geir G. Zoega.
  • Hreinn og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra við fyrstu sprengingu Norðfjarðarganga 2014.
  • Hreinn með Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra við fyrstu sprengingu Dýrafjarðarganga 2017.
  • Hreinn var skipaður forstjóri Vegagerðarinnar 2013. Hér er hann með Ögmundi Jónassyni samgönguráðherra við það tilefni.
  • Hreinn með Kristjáni L. Möller samgönguráðherra við vígslu vegar og brúar um Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi.
  • Vegagerðin og Reykjavíkurborg skrifuðu undir samkomulag árið 2012 sem lagði grunninn að áframhaldandi uppbyggingu hjólreiða- og göngustíga í Reykjvík. Hreinn og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráð

Vegagerðin bæði vinna og áhugamál

Viðtal við Hrein Haraldsson fyrrverandi vegamálastjóra

23.9.2019

Hreinn Haraldsson fyrrverandi vegamálastjóri hélt upp á sjötugsafmæli sitt á árinu. Hann starfaði sem vegamálastjóri frá árinu 2008, lét af embætti 2018 en starfaði sem ráðgjafi þar til nú í byrjun sumars. Tenging Hreins við Vegagerðina nær þó allt aftur til áttunda áratugarins.

Hreinn býr ásamt eiginkonu sinni til 44 ára, Ólöfu Ernu Adamsdóttur, í fallegu húsi í Ártúnsholti, í útjaðri byggðarinnar með Elliðaárdalinn í allri sinni dýrð í bakgarðinum. Hann býður upp á kaffi í fallegri arinstofu þar sem standa bókahillur með fjölbreyttu úrvali bóka. Hreinn viðurkennir að hann sé mikill lestrarhestur, tekur góða bók fram yfir sjónvarpsgláp. „Ég á margt eftir ólesið. Kvöldlesningin er oftast reifari en síðan les ég þjóðlegan fróðleik og ævisögur eins og gamalla manna háttur er,“ segir hann glettinn.
Við ákveðum að byrja á byrjuninni, fyrstu æviárunum. „Ég er fæddur og upp alinn í borginni. Föðurættin er af Ströndunum og móðurættin úr Dölunum. Ég á góða tengingu á þessa staði, sérstaklega Strandirnar en þar var ég í sveit í tíu sumur frá fimm til fimmtán ára aldurs,“ segir Hreinn en þangað var hann sendur snemma á vorin með rútu og kom heim að hausti. Tvisvar á sumri kom kassi með góðgæti frá foreldrunum en sjálf komu þau að heimsækja hann einu sinni á sumri. „Ég var svo sem ekki hjá vandalausum en bróðir pabba bjó þarna alla tíð, og í sveitinni voru mörg börn, bæði sumarkrakkar og aðrir sem bjuggu á staðnum.“ Hann er afskaplega þakklátur þeim tíma sem hann fékk að dvelja í sveitinni enda upplifði hann margt. „Þetta var hlunnindajörð og þannig  kynntist ég því sem einkennir Strandirnar, sauðfjárbúskap, súrheysverkun, selveiðum, lundaveiðum, dúntekju og viðarreka.“

Hreinn er fæddur á Grettisgötu og var sinn fyrsta skólavetur í Miðbæjarskólanum. Svo byggðu foreldrar hans í Álfheimum þegar Heimahverfið var að byggjast upp 1957 til 1959.  Á meðan þau byggðu bjó fjölskyldan í sumarbústað við gamla Árbæinn í Elliðaárdalnum, skammt frá þeim stað sem Hreinn býr á í dag. „Ég man talsvert eftir þessum tíma og skemmtilegum leikjum í dalnum. Þá var drjúg  ganga fyrir átta ára patta að fara í skólann sem þá var ein skólastofa þar sem Árbæjarkirkja stendur í dag.“

Valdi jarðfræði til að skilja betur náttúruna

Hreinn gekk síðan í Langholtsskóla og fór í landspróf í Vogaskóla. „Eftir það vissi ég ekki hvað ég ætlaði mér, hvort mig langaði að fara í iðnskóla í smíðar eða í langskólanám. Ég sótti um í Samvinnuskólanum en komst ekki inn. Líklega hefur vantað framsóknargenið í mig,“ segir hann og hlær. Hreinn fór því að vinna í tvö ár meðan hann velti málunum fyrir sér en ákvað svo að ganga menntaveginn og fór í MR þaðan sem hann útskrifaðist af stærðfræðibraut 1971.

Hreinn er doktor í jarðfræði en fagið var þó ekki það fyrsta sem varð fyrir valinu eftir stúdentinn. „Ég byrjaði í líffræði í HÍ,  var jafnvel að spá í læknisfræði. Svo leiddist mér óskaplega lífefnafræðin þannig að ég svissaði yfir í jarðfræði og sótti jafnframt alla þá kúrsa sem ég gat í verkfræðideild sem tengdust því efni.“ Hann segir áhugann á jarðfræði líkast til sprottinn úr sveitadvöl sinni, tengslunum við náttúruna og lönguninni til að skilja betur hvað er að gerast í náttúrunni. „Ég var strax staðráðinn í að tengja jarðfræðina við hagnýtingu þeirra fræða og læra svokallaða byggingajarðfræði.“

Leið vel í Svíþjóð

Veturinn eftir BS próf tók Hreinn svokallað fjórða árs nám. Hann fékk mikla hvatningu frá prófessorunum Þorleifi Einarssyni og Sigurði Þórarinssyni til að fara erlendis í framhaldsnám. „Þá vorum við Ólöf búin að kynnast og úr varð að við ákváðum að fara til Uppsala í Svíþjóð haustið 1975 en þar var boðið upp á nám í hagnýtri jarðfræði eða applied geology.“ Hreinn segir þetta hafa verið mikla upplifun og stórt skref. „Ólöf var ófrísk að okkar fyrsta barni, við giftum okkur þarna um sumarið og svo var þetta að auki mín fyrsta utanlandsferð 26 ára gamall.“

Þeim líkaði dvölin í Svíþjóð afar vel. „Það er ljúft líf fyrir stúdenta að búa í Svíþjóð og vel tekið á móti barnafólki en þarna eignuðumst við tvö af þremur börnum okkar. Það var ódýrt að lifa, maður gat fengið stúdentastyrki og fljótlega fékk ég kennslu við deildina og var seinni árin kominn á full laun í háskólanum við að kenna og stúdera. Það má segja að við höfum orðið heilmiklir Svíar, eignuðumst góða vini sem kenndu okkur að ganga á skíðum og annað sem sannir Svíar þurfa að kunna, og ferðuðumst töluvert um landið.“

Hreinn sótti alla kúrsa sem snertu mannvirkjaverkfræði bæði í Uppsala og víðar. Sótti til dæmis námskeið í Stokkhólmi og Gautaborg, og dvaldi um tíma í Linköping á jarðtæknistofnun Svíþjóðar og hjá vegagerðinni í Svíþjóð.

Hugurinn stefndi alltaf heim

Svíþjóðarárin urðu tæplega sex. Hreinn varði  doktorsritgerðina snemma í júní 1981 og fjölskyldan flutti heim um sumarið. „Þó okkur hafi liðið vel í Svíþjóð stefndi hugurinn alltaf heim. Ég miðaði allt mitt nám við það, var með íslenskt verkefni í doktorsvinnunni og var búinn að fá vilyrði hjá Jóni Rögnvaldssyni fyrir að ég fengi ráðningu hjá Vegagerðinni þegar ég lyki námi.“

Fyrst um sinn leigðu þau hæð á Sogavegi en voru strax ákveðin í að fara ekki þann hefðbundna tröppugang að byrja smátt og stækka síðan við sig. „Við vorum komin með tvö börn og bæði komin yfir þrítugt. Árið 1983 eru auglýstar lóðir í Ártúnsholti en af því þá var notað punktakerfi við úthlutun lóða áttum við engan séns enda höfðum við verið það lengi í útlöndum. 1984 er nokkrum lóðum skilað, meðal annars þessari lóð sem við fengum síðar. Þetta þótti erfitt og dýrt byggingarland, hér voru gamlar malarnámur Reykjavíkurborgar og alls staðar djúpar gryfjur. Margir höfðu áhuga á þessum lóðum sem var skilað en með minni umsókn fylgdi að ég hefði sérþekkingu á malarefnum, hagnýtingu þeirra og mannvirkjagerð og mér skilst að það hafi átt þátt í því að við fengum þessa góðu lóð.“

Hjónin unnu eins mikið og þau gátu sjálf í húsinu. „Við eigum mörg handtök í þessu húsi frá grunni og uppúr en fengum dygga hjálp frá fjölskyldunni, til dæmis tengdapabba sem var múrarameistari.“

Byrjaði í sumarvinnu hjá Vegagerðinni 1974

Hreinn hóf störf hjá Vegagerðinni strax eftir heimkomuna 1981 en tengsl hans við Vegagerðina voru þá þegar mjög sterk. „Ég byrjaði í sumarvinnu hjá Vegagerðinni þriðja árið mitt í jarðfræði við Háskóla Íslands. Flestir mínir samnemendur fengu sumarvinnu hjá Orkustofnun en ég hafði meiri áhuga á annars konar hagnýtingu og Þorleifur Einarsson, sem hafði verið ráðgjafi Vegagerðarinnar í mörg ár í ýmsu sem snerti jarðefni, útvegaði mér sumarvinnu í gegnum sín sambönd. Síðan vann ég þar öll sumur meðan ég var úti í námi nema síðasta sumarið meðan ég var að klára doktorsritgerðina. Ég vann að afmörkuðum verkefnum, jarðefnaleit og jarðefnarannsóknum.“

1981 var hann ráðinn sem jarðfræðingur hjá Vegagerðinni en á þessum árum var slitlagavæðingin í þróun og því mikil áhersla lögð á möl og jarðefni til slíkra nota. „Það vantaði þekkingu á efnum til slíkrar vegagerðar enda gerðar allt aðrar kröfur til hennar en malarvegagerðar. Mitt aðal starf var að fara um landið, hitta starfsmenn og fá að vita hvar hefði verið efnistaka þangað  til, taka prufur og leita að nýjum stöðum til efnistöku. Oft var það þannig að efnið sem notað hafði verið var ekki hentugt í nýju slitlögin.“ Hreinn var fljótur að kynnast starfsfólki Vegagerðarinnar um allt land á sínum ferðalögum yfir sumartímann. Veturinn fór svo í að skrifa skýrslur.

„Starfið var mjög þakklátt enda tókst mjög vel fyrstu árin að finna nýjar námur og ný efni sem ekki hafði verið vitað um áður að væru nothæf í þessi slitlög. Það sparaði mikla fjármuni, því í stað þess að þurfa að flytja efni langar leiðir milli byggðarlaga var hægt að finna efni nálægt framkvæmdastað. Ég fékk því fljótlega að heyra að baslið væri ekki til einskis.“

Jarðgangagerðin var spennandi

Fljótlega kom annar þáttur inn í starf Hreins, jarðgangagerðin. „Á þessum tíma, uppúr 1980, var verið að vinna svokallaða Ó-vegaáætlun sem ég kom að. Þetta voru þrír vegir, Óshlíðin, Ólafsvíkurenni og Ólafsfjarðarmúli. Unnið var að því að skoða hvaða valkostir kæmu til greina á hverjum stað og jarðgöng voru einn þeirra á öllum stöðum. Það endaði þó þannig að í  Óshlíðinni voru steyptar yfirbyggingar, Í Ólafsvíkurenni var vegurinn færður yst í fjöruna og byggður þar upp fjær skriðuhlíðinni en í Ólafsfjarðarmúla var engin önnur lausn en að fara í gegnum fjallið. Ég lenti mjög snemma í að skipuleggja rannsóknir á þeim kosti. Þá voru liðin um tíu ár frá því síðustu göng, Oddsskarðsgöngin, voru gerð, en þau voru opnuð 1977. Engin fræðileg þekking á jarðgangagerð var til innan stofnunarinnar og ég var því fljótt settur í að endurmennta mig með þá áherslu,“ lýsir Hreinn en hann dvaldi nokkurn tíma í  Noregi til að kynna sér jarðgangagerð á árunum 1984 og 1985. „Mér fannst þetta strax mjög spennandi og útvíkkaði þá faglegu þekkingu sem ég hafði aflað mér í mínu námi.“

Ekki löngu síðar var búin til sérstök jarðgangaeining hjá Vegagerðinni sem Hreinn stýrði frá upphafi meðfram öðrum verkefnum og þar til hann var settur vegamálastjóri. Þeirri einingu stýrir Gísli Eiríksson í dag.

Hreini er margt minnisstætt frá þessum tíma. „Ég vann til dæmis fyrstu jarðgangaáætlanirnar 1987 og 2000 þar sem farið var yfir allt landið og teiknað upp hvar helstu þröskuldar í vegakerfinu væru sem líklegt þótti að þyrfti  einhvern tíma að leysa með jarðgöngum. Ótal verkefni voru á teikniborðinu en vitanlega man maður mest eftir þeim sem síðan komust í framkvæmd. Ólafsfjarðarmúlinn var þar fyrstur og síðan Vestfjarðagöngin en þá var ég líka kominn meira inn í verkfræðihlutann við að hanna jarðgöngin og kom að ákvarðanatöku um búnað og styrkingar.“ Héðinsfjarðargöngin sem voru opnuð 2010 eftir langan undirbúnings- og framkvæmdatíma voru síðan dæmi um mjög krefjandi verkefni sem síðan hefur svo sannarlega sýnt sig hafa þau miklu samfélagslegu áhrif sem til var stofnað.

Hvalfjarðargöngin minnisstæðasta verkefnið

Hvalfjarðargöngin eru þó líklega minnisstæðasta verkefnið að mati Hreins. Hann hafði að einhverju leyti áhrif á að það verkefni komst á koppinn. „Þegar ég var sendur til Noregs að afla mér þekkingar um jarðgangagerð voru þegar 900 jarðgöng í vegakerfinu í landinu og komin nokkur rútína í verklagið. Þá var verið að byrja á þessum neðansjávargöngum en í Noregi höfðu lengi verið reknar ferjur yfir firði og kominn mikill þrýstingur á að koma á fastri tengingu með brúm eða jarðgöngum. Fljótt kom í ljós að hagkvæmt var að gera neðansjávargöng,“ lýsir Hreinn. Hann fékk að skoða slík mannvirki og sannfærðist um að slík göng gætu nýst á Íslandi.

„Þegar verið var að gera jarðgangaáætlunina hina fyrri 1987 var ég ritari nefndar sem Helgi Hallgrímsson, fyrrverandi vegamálastjóri stýrði. Ég sá að Hvalfjörðurinn væri rakið dæmi miðað við það sem ég hafði séð í Noregi og var alltaf að reyna að koma þeirri hugmynd að. Reyndar hafði það verið í umræðunni áður á áttunda áratugnum hvort hægt væri að gera brú yfir eða göng undir Hvalfjörð og hugmyndin því ekki alveg ný. Það varð þó ekki samstaða um að setja Hvalfjarðargöng inn á áætlun þarna 1987. En ég fékk þó að setja þau í viðauka við áætlunina ásamt Fáskrúðsfjarðargöngum, sem dæmi um göng þar sem hægt væri að stytta vegalengdir mjög mikið og hægt að reikna arðsemi af framkvæmdinni.“

Í framhaldinu fékk Hreinn heimild til að rannsaka þessa kosti betur. Hann setti upp rannsóknarprógramm og eitt leiddi af öðru. „Síðan tók ríkið þá ákvörðun að fara ekki í þessa mannvirkjagerð þrátt fyrir að sýnt hefði verið fram á að göngin  væru mjög vænleg. Þá strax  var komin hugmynd um að aðrir tækju við boltanum en mikill áhugi var norðan fjarðar, hjá Akraneskaupstað og Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga  sem dæmi og það dreif áfram stofnun félagsins Spölur hf. sem kom verkefninu á leiðarenda.

Eftir að ríkið afsalaði sér verkefninu fékk Hreinn heimild frá vegamálastjóra til að vinna fyrir Spöl í sínum frítíma. Hann lagði upp rannsóknaráætlun og undirbjó verkið faglega fram að útboði og kom að framkvæmdinni allt að opnun ganganna.

Sakaður um að eyðileggja orðspor verkfræðistéttarinnar

Ekki voru allir sáttir við þessa fyrirhuguðu framkvæmd og margir töldu hana glapræði. „Það voru margir mjög krítískir á sínum tíma og ég fékk margar sendingar og hótanir fyrir mína aðkomu að þessu verkefni. Menn töldu að ég væri þarna að eyðileggja orðspor íslenskrar verkfræðistéttar um alla framtíð. Þetta myndi aldrei takast, allt myndi hrynja og Atlantshafið flæða inn. Ég skyldi átta mig á að ég væri ábyrgðarmaður fyrir því.“

Fengu þessar ákúrur á hann? „Ég segi ekki að næturnar hafi verið svefnlausar en auðvitað fékk maður öðru hvoru hnút í magann um hvort þetta myndi örugglega ganga upp. Maður er aldrei hundrað prósent þegar verið er að fikta í jörðinni. En miðað við alla þá þekkingu sem ég hafði viðað að mér á jarðfræði svæðisins var ég sannfærður um að þetta væri vel gerlegt. Hættan  fólst helst í því að lenda  á slæmri sprungu sem myndi þurrka út alla arðsemi vegna auka kostnaðar,“ segir Hreinn en bætir við að kannski hefði hann hugsað öðruvísi ef Vaðlaheiðargöng hefðu verið gerð á undan. „Þar gekk margt  á afturfótum þrátt fyrir miklar rannsóknir.“

Gefandi rannsókna og þróunarstarf

Þó jarðgangagerðin hafi fylgt Hreini áfram tók brátt við nýtt skref í ferli hans sem tengdist rannsóknum og þróun. Árið 1994, þegar Ísland varð aðili að EES samningnum, var ákveðið að Vegagerðin myndi taka þátt í Evrópusamstarfi um rannsóknir og þróun vega og samgöngumála. Á sama tíma hafði árlegt fjármagn í rannsóknarsjóðinn verið tvöfaldað. Þá var búin til ný eining hjá Vegagerðinni sem hét Rannsóknir og þróun og heyrði beint undir vegamálastjóra og Hreinn stýrði frá upphafi. Meginverkefni  einingarinnar  voru  umsjón og stjórnun rannsókna- og þróunarstarfs Vegagerðarinnar innanlands og utan, erlent samstarf,  jarðgöng, jarðtækni og jarðfræðimál.

„Það var spennandi að byggja upp og skipuleggja rannsóknarstarf og þróunarstarf Vegagerðarinnar á þessum árum. Ég byrjaði á að hafa samband við háskólana og fleiri menntastofnanir til að leita samstarfs. Hér innanhúss var umræða um hvort búa ætti til sjálfstæða rannsóknareiningu sem stæði að rannsóknum hjá Vegagerðinni. Ákveðið var að gera það ekki heldur nota fjármagnið fyrst og fremst til að fá framlag frá öðrum utan stofnunarinnar. Að fá ráðgjafa á ýmsum sviðum og fólk úr menntakerfinu til að vinna rannsóknir á okkar sviði. Þetta hefur gefist mjög vel og óteljandi verkefni hafa verið unnin sem hafa komið stofnuninni til góða.“

Einnig var mikið framfaraskref að halda árlega rannsóknarráðstefnu á haustin. „Ráðstefnan hefur alltaf verið vel sótt og vakið mikla athygli. Með henni hlaut Vegagerðin viðurkenningu á því að stofnunin væri í fararbroddi um rannsókna- og þróunarstarf á sviði samgöngumála á landinu.“

Hreini þótti ekki síður skemmtilegt að taka þátt í erlendu samstarfi á sviði rannsókna bæði á Norðurlöndunum en einnig með öðrum þjóðum í Evrópu. Hann sat fyrir hönd Íslands í ýmsum hópum sem unnu sameiginlega að afmörkuðum verkefnum, skiptust á reynslu og réru allir í sömu átt að því að bæta vegi og samgöngur.

Framkvæmdastjóri nýs þróunarsviðs

Árið 1999 voru heilmiklar skipulagsbreytingar hjá Vegagerðinni og þá var meðal annars sett á fót nýtt svið, þróunarsvið, sem Hreinn stýrði frá upphafi og allt þar til hann tók við starfi vegamálastjóra. Sviðinu tilheyrðu meðal annars rannsókna- og þróunardeild og jarðgangadeild sem Hreinn þekkti vel. Auk þess bættust við áætlanadeild, umhverfisdeild, umferðardeild og upplýsingatæknideild.

Sem framkvæmdastjóri sviðsins fékk Hreinn setu í yfirstjórn og breytti nýja starfið miklu í daglegum verkefnum. „En þó mörg ný verkefni bættust við voru rannsókna- og þróunarstörf og jarðgöng áfram mjög fyrirferðarmikil í daglegum verkefnum mínum,“ segir Hreinn en erlenda samstarfið er honum einkar minnisstætt frá þessum tíma. „Ekki síst norræna samstarfið en NVF, norræna vegasambandið, byggir á gömlum merg og hefur starfað í 84  ár.“ Erlent samstarf var einnig áberandi eftir að Hreinn settist í stól vegamálastjóra og var í raun enn öflugra enda hittust vegamálastjórar tvisvar á ári og skiptust á skoðunum og upplýsingum.

„Fljótlega eftir að ég tók við sem vegamálastjóri tók Ísland í fyrsta sinn að sér að leiða þetta norræna samstarf og var ég í forsvari fyrir það starf á Norðurlöndunum næstu fjögur árin. Því tímabili lauk með eftirminnilegri ráðstefnu í Hörpu 2012. Ráðstefnan tókst það vel að í mörg ár voru norrænir kollegar að minnast á þann atburð eins og hann hefði gerst í gær enda þykir hann með þeim bestu af samskonar ráðstefnum sam haldnar eru á fjögurra ára fresti á öðrum Norðurlöndum.“

Margt verið skrifað og skrafað

Sjá má á ferilskrá Hreins að hann hefur skrifað fjölmargar  greinar og skýrslur. Var það veigamikill partur af hans starfi? „Já, fyrst og fremst áður en ég tók við stóli vegamálastjóra, sérstaklega á tímabilinu þar sem ég vann mest að rannsókna- og þróunarstarfinu, en einnig í öðrum þáttum starfsins. Ég hef skrifað greinar og birt, bæði einn og í samvinnu við aðra, vísinda- og tæknigreinar um ýmsar hliðar samgöngumála,“ segir Hreinn en hann vann einnig töluvert í nafni samgönguráðuneytisins að rannsókna- og þróunarmálum og erlendu samstarfi.

„Þessi rit snúast töluvert um umhverfismál, fjármögnunaraðferðir í vegagerð, jarðgangagerð, jarðfræði og ýmislegt fleira. Þá eru fjölmargar skýrslur og greinar innan Vegagerðarinnar sem ég hef tekið saman.“ Hreinn segist alltaf hafa haft gaman af því að setja orð niður á blað og skrifaði þannig sjálfur mikið af umsögnum og greinargerðum sem þurfti að skila til Alþingis og ráðuneytis í tíð sinni sem vegamálastjóri, þó aðrir kæmu auðvitað líka að málum.

Hreinn hefur einnig haldið marga fyrirlestra í öðrum stofnunum, á ráðstefnum, í háskólunum og almennum kynningarfundum, svo sem  í sveitarfélögum. Hann var einnig af og til stundakennari við verkfræðideild Háskóla Íslands um sextán ára skeið frá 1984 til 2000. „Það var skemmtilegt að hitta háskólastúdenta, fræða þá og fræðast af þeim. Þá var gaman að umgangast yngra fólk og ræða hluti sem voru ekki nákvæmlega í þeim geira sem maður var orðinn mjög fastur í.“

Hreinn sat í fjölmörgum nefndum, starfshópum, stjórnum og ráðum bæði innanlands og utan. „Það hefur verið gefandi og skemmtilegt að kynnast viðhorfum annarra á málefnum vega- og samgöngugeirans. Það hefur alltaf verið ánægjulegur þáttur af starfinu að vinna með hópum að verkefnum og skýrslum sem síðar hafa orðið að raunverulegum úrbótum í okkar umhverfi.“

Alltaf góð samskipti við ráðherra

Fyrsta maí  2008 tók Hreinn við stöðu vegamálastjóra af Jóni Rögnvaldssyni. „Ég gekk raunar aldrei með vegamálastjórann í maganum en ég hafði fengið að þróast innan stofnunarinnar, breytt um störf, hækkað í skipuriti og setið í yfirstjórn sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs þar sem ég tók þátt í stjórnun og stefnumótun. Ég þekkti því samskiptin út á við, við sveitarstjórnarfólk um allt land, þingmenn og ráðuneytið sem mér fundust mjög áhugaverð líkt og vinna við samgönguáætlun sem hefur alltaf verið stór hluti af starfi vegamálastjóra.“

Mikil samskipti eru milli vegamálastjóra og sitjandi samgönguráðherra. Hreinn segir samstarfið við ráðherrana ávallt hafa gengið mjög vel en sambandið hafi verið misjafnt eftir því hver átti í hlut. „Kristján Möller var fyrsti ráðherrann sem ég vann með. Hann hafði gífurlegan áhuga á vegamálum og þekkti þau oft betur en ég sjálfur. Næstur var Ögmundur Jónasson sem hafði e.t.v. ekki sama áhuga og innsýn en reiddi sig því meira á vegamálastjóra. Samstarf okkar var mjög gott líkt og við þá sem á eftir komu, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Ólöfu Nordal, Jón Gunnarsson og Sigurð Inga Jóhannsson. Ég geri alls ekki upp á milli ráðherranna, allt ákaflega hæft og skemmtilegt fólk sem gaman var að vinna með, og það segi ég í fullri einlægni.“

Áhugi á vegagerð hefur lítið dofnað

Hreinn lét af störfum sem vegamálastjóri fyrir rúmu ári. „Vegagerðarmál voru bæði vinna mín og áhugamál sem ég stundaði frá morgni til kvölds. Sá áhugi hefur lítið dofnað og ég verð ennþá jafn reiður eða leiður þegar ég heyri hallað á okkar ágætu stofnun. En þegar maður er kominn á þennan aldur er eðlilegt að maður stígi til hliðar. Þó má segja að ég hafi síður en svo setið og hlakkað til að hætta að vinna,“ segir Hreinn glettinn en hann varð sjötugur á árinu.

„Ég var svo heppinn að fá að vinna ár í viðbót sem ráðgjafi í ýmsum verkefnum að ósk ráðherra. Sum þeirra snertu jarðgöng eins og Seyðisfjarðargöng ,en ekki síður var gaman að vinna við pælingar um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu næstu áratugina Ég hef ennþá gaman að þessu og alltaf tilbúinn að veita aðstoð þegar á þarf að halda enda gott að geta tappað af þeirri reynslu sem maður hefur viðað að sér í gegnum þessi tæpu fjörutíu ár.“ Sá tími hefur verið ótrúlega fljótur að líða og ekki síst er ánægjulegt þegar ég horfi til baka að hafa upplífað og fengið að hafa tekið þátt í þessum stórkostlegu breytingum á vegakerfinu og sjá þau áhrif sem til dæmis jarðgöngin og uppbyggðir vegir með bundnu slitlagi hafa haft á þróun samfélagsins, atvinnulífið og almennt á líf og störf fólksins í landinu. Neikvæðu þættirnir eins og slysin og áhrif á umhverfið mega ekki gleymast en líka þar höfum við náð miklum  framförum miðað við ástandið fyrir nokkrum áratugum.

Næg verkefni framundan

Hreinn var minntur rækilega á fallvaltleika lífsins þegar hann greindist með krabbamein hálfu ári áður en hann hætti sem vegamálastjóri, í febrúar 2018. Hann gat þó stundað vinnu töluvert og er nýlega útskrifaður. Hann vonar að sá kafli sé að baki og hann geti notið nýtilkomins frítíma en Hreinn situr síður en svo með hendur í skauti alla daga.

„Ég hef alltaf haft mjög gaman af að vinna í höndunum, bæði inni og úti, og hef gaman af að halda við húsinu okkar og garðinum. Við eigum líka litla íbúð á Akureyri en í þeim góða bæ  býr sonur okkar með þrjú barnabörn. Hann er nýbúinn að kaupa sér hús og mér finnst mjög gaman að hjálpa honum, smíða palla og garðskúra og skipta um parket. Eins reyni ég að aðstoða dætur mínar hér í Reykjavík við að bæta sitt nánasta umhverfi.

Hreinn og Ólöf eiga sex barnabörn og hann lætur ekki sitt eftir liggja í barnapössun. „Ég tók meira að segja að mér heilsdagspössun í tvo daga á einni tveggja ára núna nýlega og kalla mig góðan,“ segir hann brosandi. Þau hjónin hafa einnig gaman af ferðalögum, sérstaklega innan lands. „Við gengum mikið um hálendið þegar við vorum yngri og höfum til dæmis farið einar fimm ferðir um Hornstrandir með allt á bakinu. Við höfum eitthvað minnkað vegalengdirnar en ég gekk á Súlur við Akureyri fyrir nokkrum vikum og er nokkuð góður með mig.“

Verkefnin eru óþrjótandi. „Ég ætlaði einu sinni að verða húsgagnasmiður og hef gaman af að smíða. Kannski kem ég mér upp smíðaverkstæði í kjallaranum. Við Ólöf erum nýlega búin að tæma búslóðir foreldra okkar og erum með í geymslu ýmis húsgögn sem bíða þess að ég pússi og geri þau upp. Kannski fer ég í það í vetur, það hefur ekki gefist neinn tími í það í sumar. Svo eigum við eftir að skoða hálfan heiminn !“

Hreinn varð sjötugur á Jónsmessunni 24. júní. „Við  héldum upp á það í garðinum okkar einn af þessum fallegu sumardögum. Það var lítil samkoma með börnum, barnabörnum og vinum. Aðal afmælishátíðin var hins vegar ferðalag stórfjölskyldunnar til Suður Frakklands í sumar. Við leigðum frábært hús á góðum stað í tvær vikur og kynntumst menningu og fallegu landslagi, borðuðum góðan mat  og skemmtum okkur með börnum og barnabörnum frá morgni til kvölds.“