Fréttir
  • Morsá 13. október 2016
  • Morsá 13. október 2016
  • Morsá 13. október 2016
  • Morsá 13. október 2016
  • Morsá 13. október 2016
  • Morsá 13. október 2016
  • Morsá 13. október 2016

Vatn flæðir við Morsá

flæðir víða um land þessa daga

13.10.2016

Í því mikla vatnsveðri sem gengur yfir landið hefur flætt víða. Fréttir hafa verið sagðar af vatni sem flætt hefur við Múlakvísl og sömu sögu er að segja af Morsá. Þar hefur flætt á framkvæmdasvæðinu en verið er að byggja nýja brú sem leysir af hólmi lengstu brú landsins yfir Skeiðará.

"Það er frekar mikið vatn núna við Morsá og lónar inn á vinnusvæðið hjá okkur  en það eru engar skemmdir svo sjáanlegt er," segir Sveinn Þórðarson brúarsmiður en það flæddi inn á vinnusvæðið í nótt án þess þó að valda skemmdum. Ekki eru fyrir hendi mælingar um vatnshæðina. "Það var búið láta bæta við görðum og styrkja þá sem fyrir voru í fyrradag og þeir virðast halda en nú er vatnið farið að flæða yfir eyrarnar á milli garðanna og ennþá rignir," bætir hann við. Stöðuna í morgun má sjá á myndunum sem fylgja fréttinni.

Staðan á framkvæmdinni er sú að það á að steypa yfirbygginguna um helgina og ætti brúin að vera tilbúin um miðjan nóvember. Brúin yfir Morsá leysir af hendi Skeiðarárbrú sem er lengsta brú landsins, 880 metra löng. Þar sem jöklar hopa þessi misserin hefur vatnið sem áður fór um Skeiðará færst vestur og fer ekki lengur undir brúna heldur rennur í farveg Gígjukvíslar og undir brú hennar. Einungis Morsá rennur nú á svæðinu og þarf því að brúa hana en ekki hið mikla fljót Skeiðará. Brúargólf Skeiðarárbrúar er orðið lélegt og heldur trégólfið illa járnplötum sem ofan á liggja. Nýja brúin yfir Morsá verður 68 metra löng, óljóst er með hvenær hægt verður að tengja brúna við vegakerfið en til þess vantar fjárveitingu. Skoðað er þó að flýta því svo sem kostur er.