Fréttir
  • Kort með slæmum holustöðum

Varasamar holur í óvenjulegri tíð

fjöldi hola hefur myndast í bundnu slitlagi

3.3.2022

Vegfarendur, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, eru beðnir um að aka varlega og vera vakandi vegna hola sem myndast í bundnu slitlagi núna þegar tíðin er að breytast. Frost og þíða til skiptis síðla vetrar kallar alla jafna á að holur myndist í bundnu slitlagi þar sem einhvern veikleika er að finna. Ástandið í ár er óvenju slæmt.

Sjá má á kortinu sem fylgir fréttinni nokkra staði þar sem ástandið er sérlega slæmt. Vegskemmdir geta myndast hratt og geta t.d. stórar holur myndast skyndilega við slæm veðurskilyrði þar sem ójöfnur eru á yfirborði vega.  Það getur því verið bæði erfitt að varast vegskemmdir og tekið tíma fyrir Vegagerðina að bregðast við ástandinu. Vegfarendur eru sérstaklega beðnir um að huga að holum, ójöfnum og rásum í vegum.

Slæmir vegkaflar eru merktir sérstaklega, jafn hratt og við verðum komist en nú eru þrír flokkar Vegagerðarmanna að sinna því að fylla til bráðabirgða upp þær vegskemmdir sem hafa myndast að undanförnu. En þær halda áfram að myndast í þessu tíðarfari sem nú er. Viðgerðir til framtíðar verður ekki hægt að fara í fyrr en í vor og sumar og þá með mun varanlegra viðhaldi.

Verði vegfarandi fyrir tjóni á ökutæki er nauðsynlegt að fara á heimasíðu Vegagerðarinnar og fylla þar út tjónstilkynningu með rafrænum hætti: https://www.vegagerdin.is/thjonusta/tilkynning-um-tjon/.

Rétt er að hafa í huga að þegar viðgerð er framkvæmd á vegskemmd er gert við hana með því að fylla upp í hana með sérstöku fyllingarefni svo hún falli vel saman við vegskemmdina og komi þannig í veg fyrir frekara tjón. Í slæmu veðurfari og kulda getur bleyta komist í undirlag vegar og þrýstingur myndast á viðgerða vegskemmd sem getur þá einnig farið illa.

Staðirnir eru númeraðir á kortinu og vísa til þessa:

1. Holukafli á akreina til Reykjavíkur
2. Holukafli á akrein til Reykjavíkur
3. Holukafli á báðum akreinum
4. Holukafli á báðum akreinum
5. Holur á rampa
6. Holukafli sérstaklega á akrein út úr Reykjavík.
7. Holukafli sérstaklega á akrein út úr Reykjavík.
8. Holukafli  á akrein á leiðinni út úr Reykjavík.
9. Holur á báðum akreinum.

Kort með slæmum holustöðum